Fara í innihald

Kristján Luxdorf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristján Luxdorf eða Christian Luxdorph (d. 1751) var danskur embættismaður sem var landfógeti á Íslandi 1727-1739 og sat á Bessastöðum.

Hann var af ætt sem kom frá Løgstrupgaard norðan við Viborg og kallaðist upphaflega Løgstrup en nafnið er skrifað á ýmsan hátt - Luxdorph, Luxdorf, Lucksdorff, Løxtrup, Løxtorph og Luxtrup. Hann var skipaður landfógeti á Íslandi 17. apríl 1727 og kom til landsins sama sumar. Hann sigldi til Kaupmannahafnar 1735 og fékk leyfi til að láta af embætti og halda þriðjungi launa með því skilyrði að hann útvegaði annan í sinn stað en tókst ekki að finna neinn sem var til í að sætta sig við að fá ekki full laun. Hann var þó í Kaupmannahöfn til 1739 en kom þá til Íslands til að kveðja og afhenda landfógetaembættið Kristjáni Drese, sem kom einnig til landsins um sumarið.

Luxdorf var sagður frómur, spakur og hóglyndur og kom sér við alla vel. Hann efnaðist að sögn ágætlega á Íslandsdvölinni. Í Hirðstjóraannál segir að hann hafi verið ógiftur en hann hefur líklega verið ekkjumaður þegar hann kom til landsins. Hann átti eina dóttur, Dorethea Sofie, sem giftist Hans Marcussøn Buck, guðfræðingi og útfararstjóra við Maríukirkjuna á Helsingjaeyri. Sonarsonur þeirra var Nikolaj Buch, kaupmaður á Húsavík og síðar bóndi í Þingeyjarsýslu.

Kristján Luxdorf dó á Helsingjaeyri 1751 og var jarðsettur 7. október.


Christian Jensen fæddist 26. mars 1697 i Helsingør, Danmörku, sonur bruggara Jens Jensen (1661-1733) og konu hans Kirsten Ernstdatter (1675-1733). Fjölskyldan hefur tekið upp nafnið Løgstrup (stafsett á mjög marga vegu) einhverntíman eftir 1712 en fyrir 1729. Tenging við fjölskilduna í Viborg með svipuðu nafni hefur ekki verið staðfest.

Dorothea Sophia var systir Christians, en sonur hennar Peter Christian Buch gerðist Danskur kaupmaður í Hammerfest í Noregi og þaðan fór sonur hans, Nicolai Arent Peder Buch, til Íslands.