Christian Müller

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Christian Müller eða Kristján Möller (16383. júlí 1720) var danskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi 1688-1718, eða í þrjátíu ár, en á seinni hluta embættisferilsins var embættinu þó gegnt af umboðsmönnum.

Hann var sonur Henriks Müller, rentumeistara Friðriks konungs 3., sem var um tíma talinn einn ríkasti maðurinn í Kaupmannahöfn en hafði um það leyti sem sonur hans varð amtmaður tapað mestöllum eignum sínum og bjó við kröpp kjör þegar hann lést. Á velmektardögum föður síns mun Christian hafa ferðast víða, meðal annars til Rómar, og aflað sér menntunar en hann var sagður vel að sér í lögfræði og sagnfræði.

Hann var útnefndur amtmaður á Íslandi 21. apríl 1688 og kom til landsins um sumarið. Hann var á Bessastöðum næstu árin með fjölskyldu sinni og sinnti embætti sínu við misjafnan orðstír. Á þeim árum kom upp sérkennilegt mál sem kallað hefur verið Kríumálið. Magnús Hrómundarson sýslumaður í Hnappadalssýslu stefndi séra Jóni Jónssyni í Hítarnesi fyrir hönd amtmanns í ákveðnu máli og afhenti prestinum afrit af stefnunni en hafði þar misritað nafn amtmannsins, skrifaði Chrían í staðinn fyrir Christian, og var þetta þegar hent á lofti og mikið grín gert að, bréfið kallað kríubréf og málaferli sem af þessu spunnust Kríumál eða Stokksmál. Margir drógust inn í það og lauk því svo að séra Jón var dæmdur frá kalli og embætti og til fjársekta, Magnús sýslumaður varð einnig að láta af sínu embætti en amtmaður sigldi utan ásamt fjölskyldu sinni 1694 og fékk þungar ákúrur hjá stjórnvöldum. Hann kom þó aftur árið eftir en var þá einn á ferð, stóð stutt við og var „þá og eftir það spakur og óáleitinn við alla“.

Næstu árin kom Müller til landsins á hverju sumri en fór yfirleitt aftur á haustin, nema 1696-97 og 1701-1702. Hann setti umboðsmenn til að gegna embættinu á vetrum, fyrstu árin Lauritz Gottrup lögmann, en árið 1701 slettist upp á vinskap þeirra og þegar amtmaður sigldi haustið 1702 setti hann Pál Beyer umboðsmann sinn.

Müller kom síðast til Íslands 1707. Þá var hann að verða sjötugur og fékk leyfi til þess hjá konungi að sitja sumar og vetur í Kaupmannahöfn en skipa umboðsmann í sinn stað. Var það Páll Beyer og gegndi hann amtmannsembættinu í raun allt þar til hann fór frá landinu 1717. Þá tók Oddur Sigurðsson við. Müller lét loks af embætti 1718, en hélt þó hálfum amtmannslaununum. Hann var þá áttræður að aldri. Hann lifði í tvö ár í viðbót og er sagður hafa verið elliær og lagstur í kör þegar hann dó.

Müller er svo lýst að hann hafi hvorki haft stóran vöxt né mikið persónuálit, þótti hvorki skarpvitur né örlátur, áhrifagjarn og lét stjórnast af öðrum en laus við dramb og stórlæti.

Müller giftist árið 1668 ungri ekkju, Regine Schønbach, en hún dó ári síðar. Árið 1671 gekk hann að eiga Margrethe Bartholin (d. 1711) og var hún með honum á Íslandi fyrstu ár amtmannsferils hans.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • „Dansk biografisk Lexikon, 9. bindi“.


Fyrirrennari:
Enginn
Amtmaður
(16881718)
Eftirmaður:
Niels Fuhrmann