Desembristauppreisnin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Desembristauppreisnin
Восстание декабристов (Vosstaníje dekabrístov)

Desembristarnir á Péturstorgi.
Dagsetning26. desember 1825
Staðsetning
Niðurstaða Ríkisstjórnarsigur. Uppreisnin bæld niður og leiðtogar hennar sendir í útlegð
Stríðsaðilar
Fáni Rússlands Desembristar Fáni Rússlands Rússneska keisaradæmið
Leiðtogar
Fáni Rússlands Rússneskir herforingjar Fáni Rússlands Nikulás 1. Rússakeisari
Fjöldi hermanna
Um 3.000 rússneskir hermenn Rússneski keisaraherinn

Desembristauppreisnin var gerð í rússneska keisaradæminu þann 26. desember árið 1825. Í uppreisninni leiddu rússneskir herforingjar um það bil 3.000 hermenn til þess að mótmæla valdatöku Nikulásar 1. Rússakeisara eftir að eldri bróðir hans, Konstantín, afsalaði sér tilkalli sínu til krúnunnar. Þar sem uppreisnin var gerð í desember voru uppreisnarmennirnir kallaðir desembristar (rússneska: Декабристы eða Dekabristy).

Hersveitir sem héldu tryggð við Nikulás börðu niður uppreisnina á Péturstorgi í Sankti Pétursborg. Árið 1925 breyttu sovésk stjórnvöld nafni torgsins í Desembristatorg til þess að fagna hundrað ára afmæli uppreisnarinnar. Árið 2008 var nafni torgsins aftur breytt í upprunalegt horf og það kallað Þingtorgið.

Forsendur uppreisnarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Ein helsta forsenda desembristauppreisnarinnar var vonbrigði með valdatíð Alexanders 1. Rússakeisara.[1] Flestir desembristarnir voru hermenn, margir hverjir af aðalsættum og úr öðrum afkimum rússnesku hástéttarinnar. Flestir voru þeir vel menntaðir, tvítyngdir og vel að sér um málefni Vestur-Evrópu á tíma Napóleonsstyrjaldanna og eftir þær.

Sem keisari hafði Alexander gjarnan gælt við frjálslyndishugmyndir og margir höfðu átt von á einhvers konar meiriháttar umbótum eftir sigur Rússa í Napóleonsstyrjöldunum. Raunverulegar umbætur létu hins vegar ekki á sér kræla – Alexander batt ekki enda á bændaánauðina í Rússlandi og setti ekki stjórnarskrá fyrir landið líkt og margir umbótasinnaðir Rússar vildu.

Desembristarnir voru flestir frjálslyndismenn í anda upplýsingarinnar og frönsku byltingarinnar. Þeir hófsömustu, t.d. Níkíta Múravjov, ætluðust til þess að Rússland yrði að þingbundnu keisaradæmi þar sem keisarinn deildi völdum með þjóðkjörnu þingi. Þeir allra róttækustu töldu að réttast væri að koma á einræði í anda frönsku Jakobínanna fyrstu tíu árin eftir byltinguna en að síðan væri réttast að stofna miðstýrt lýðveldi. Allir voru desembristarnir sammála um að áfram þyrfti að vera til sterkt ríkisvald. Jafnframt töldu þeir það vera hlutverk byltingarríkisins að standa vörð um einstaklingsréttindi, leggja niður bændaánauð, bæta menntun og velferð, og tryggja borgararéttindi (t.d. mál-, prent-, trú- og fundarfrelsi). Desembristarnir nutu ekki mikillar alþýðuhylli, enda var frjálslyndi ekki eins útbreitt sem samfélagshreyfing í Rússlandi og t.d. í Englandi og Frakklandi. Ein ástæðan fyrir því var sú að ekki var til sterk miðstétt í Rússlandi.

Þannig urðu til tvö afar ólík afbrigði desembrista. Hið róttæka afbrigði var runnið undan rifjum Pavels Pestel, leiðtoga Suðursamtakanna. Pestel var nokkurs konar frumsósíalisti og stuðningsmaður einræðisstjórnar byltingarmanna. Hið hófsamara afbrigði desembrisma var mótað af frjálslyndismanninum Níkíta Múravjov og fylgismönnum hans í Norðursamtökunum.[2]

Deilur um persónuréttindi og friðhelgi höfðu komist í brennidepil pólitískrar umræðu eftir endalok franska byltingartímans. Franskir frjálslyndismenn á tímum Búrbónaendurreisnarinnar höfðu reynt að skapa umhverfi þar sem einstaklingurinn var verndaður fyrir ofríki ríkisvaldsins.[2] Frjálslyndismenn eins og Benjamin Constant töldu félagshyggju einungis vera afsökun fyrir harðstjórn og að það væri ekkert samræmi á milli einkahagsmuna og almenningshagsmuna. Hagsmunir einstaklingsins yrðu því ávallt að vera almannahagsmunum yfirsterkari. Pestel var andófsmaður gegn slíkum hugmyndum og taldi að hagsmunir hinna mörgu yrðu að vega þyngra en réttindi einstaklingsins. Múravjov og hófsamari desembristarnir sóttu hins vegar speki sína í þessar hugmyndir um mikilvægi einstaklingshyggjunnar.[3]

Desembristar fóru að safnast saman í fyrstu samtökin í kringum 1816 og vildu þá vinna með Alexander keisara. Þeir vildu stuðla að velferð og menntun en ekki grípa til vopnaðrar uppreisnar. Desembristarnir fóru að íhuga byltingu eftir því sem Alexander gerðist afturhaldssamari og vonirnar um raunverulegar umbætur þvurru.

Tvær kjarnahreyfingar desembrista urðu til: Í Sankti Pétursborg í norðri, þar sem hin hófsama Norðurfylking hélt til, og í Tultsjyn í suðri, þar sem róttæklingar söfnuðust saman í Suðurfylkinguna. Suðurfylkingin rann smám saman inn í Samtök sameinaðra Slava, samtaka sem vildu lýðræðislegt samband allra slavneskra þjóða. Þegar tækifærið kom til að stofna til uppreisnar hafði Pestel, hugmyndafræðilegur leiðtogi Suðurfylkingarinnar, hins vegar verið handtekinn og því var hreyfingin illa undirbúin.

Uppreisnin[breyta | breyta frumkóða]

Málverk af desembristauppreisninni eftir Georg Wilhelm Timm (1853).

Fylkingarnar gripu tækifærið þegar Alexander 1. lést og bróðir hans, Nikulás, átti að taka við sem keisari árið 1825. Deilur ríktu um það hvort Nikulás ætti að setjast á keisarastól en ekki eldri bróðir hans, Konstantín, sem var talinn mun frjálslyndari en hafði afsalað sér tilkalli til keisarakrúnunnar eftir að hann giftist pólskri aðalskonu sem ekki var af kóngaættum.[2] Desembristarnir og Norðursamtökin gripu til vopna eftir að herinn og hirðin lýstu yfir hollustu við Nikulás. Embættismenn og hermenn gerðu uppreisn til þess að vernda erfðarétt Konstantíns gegn „valdaráni“ Nikulásar. Um 3000 uppreisnarmenn komu saman á þingtorgi höfuðborgarinnar en þeim tókst ekki að grípa gæsina á meðan hún gafst og brátt mætti þeim miklu stærri herafli hliðhollur Nikulási. Nikulás vildi ekki hefja valdatíð sína með því að úthella rússnesku blóði en eftir að tilraunir hans til að leysa vandann friðsamlega fóru út um þúfur skipaði hann hernum að skjóta af fallbyssum á uppreisnarmennina. Um sextíu til sjötíu uppreisnarmenn létu lífið og hinir flúðu átökin.[2]

Sú saga fór á kreik um uppreisnina að uppreisnarmennirnir hefðu kyrjað orðin „Við viljum Konstantín og stjórnarskrá!“ að tilskipan foringja sinna. Síðan hafi hins vegar komið á daginn að margir þeirra vissu ekki hvað stjórnarskrá var og héldu að „Konstítútsíja“ (stjórnarskrá á rússnesku) væri nafnið á eiginkonu Konstantíns.[4] Samkvæmt samtímaheimildum er þessi saga uppspuni.[5]

Eftirmálar og afleiðingar[breyta | breyta frumkóða]

Nikulás hóf síðan fjöldahandtökur gegn öllum andófsmönnum, lét senda um 300 uppreisnarmenn í útlegð til Síberíu og lét taka af lífi leiðtoga desembristanna, þar á meðal Pestel og skáldið Kondratíj Rylejev.

Ein helsta afleiðing desembristauppreisnarinnar árið 1825 var að Nikulás 1. tortryggði allar tillögur til þess að koma á umbótum í stjórnarfari Rússlands. Andstæðurnar jukust milli frjálsyndismanna og menntamanna annars vegar, sem vildu að einveldið yrði takmarkað, og landeigenda, embættismanna og liðsforingja hins vegar, sem voru hollir einveldinu og einræði keisarans.[3] Nikulás lét banna heimspekikennslu við háskóla og æðri skólum í Rússlandi var fækkað. Einnig var Rússum gert erfiðara fyrir að ferðast til útlanda. Þessi barátta átti eftir að harðna enn á valdatíð arftaka Nikulásar, Alexanders 2.[6]

Sovésk umfjöllun um desembristauppreisnina[breyta | breyta frumkóða]

Minnisvarði til heiðurs desembristunum í Sankti Pétursborg.

Árið 1925, á hundrað ára afmæli desembristauppreisnarinnar, sagði rússneski sagnfræðingurinn D. S. Mirsky að stjórnendur sovéska Kommúnistaflokksins ættu eftir hrósa desembristunum með nokkrum fyrirvara fyrir að hafa verið fyrstir til að rísa upp gegn einræði keisaranna en að þeir myndu þó jafnframt gagnrýna þá fyrir að hafa fyrst og fremst verið óðalseigendur og aðalsmenn sem hefðu aðeins áhuga á stéttarhagsmunum landeignarmillistéttarinnar. Í huga þeirra væri mikilvægi desembristanna hvergi nálægt því eins mikið og uppreisna Stenka Rasins og Púgatsjevs. Hann lagði einnig áherslu á að desembristarnir hefðu ekki verið hreyfing heldur „kynslóð“.[7]

Að mati Mirsky var uppreisn desembristanna lítilfjörleg, illa skipulögð og heimskuleg. Hann taldi bæði ungan aldur, skort á reynslu og skort á samheldni og skipulagi hafa orðið desembristunum að falli. Þeir hefðu aðeins sameinast í viðleitni til þess að steypa af stóli alræðisvaldinu en hefðu ekki átt neinar sameiginlegar stefnur, hugsjónir eða hugmyndir. Sá eini sem hefði haft skýrar hugmyndir um framhaldið var Pestel, sem var allt of róttækur fyrir smekk flestra annarra desembrista.[8] Mirsky taldi að með betra skipulagi hefði desembristunum auðveldlega getað tekist ætlunarverk sitt árið 1825. Hins vegar taldi hann líklegt að sigur þeirra hefði leitt til óeirðar og borgarastyrjaldar. Slíkar getgátur væru þó merkingarlausar því að til þess að geta haft sigur úr býtum hefðu desembristarnir þurft að vera allt annars konar hreyfing en þeir voru.

Mirsky taldi einnig að Nikulás 1. hafi sýnt veruleikafirru og dómgreindarleysi með aðferðunum sem hann beitti gegn desembristunum. Hann hafi ofmetið skammtímamikilvægi uppreisnarinnar en vanmetið og jafnvel ýtt undir langtímamikilvægi þeirra. Ef Nikulás hefði veitt því eftirtekt hve misheppnuð uppreisnin var í grunninn hefði hann getað breytt sigri sínum gegn uppreisninni í pólitískan sigur en þess í stað hafi hann gert sig að fífli með því að taka of hart á byltingarmönnunum.[9] Með harðræði sínu gagnvart þessari stórkostlega misheppnuðu uppreisnartilraun hafi hann „breytt gamanleik í harmleik“. Hann hafi gert desembristana að píslarvottum og skapað goðsögn í kringum þá sem hafi haft miklu meiri langvarandi áhrif en uppreisnin sjálf. Kenning Mirsky er ekki úr lausu lofti gripinn; Aleksandr Herzen, sem er kallaður „faðir rússnesks sósíalisma“, var t.d. innblásinn af fórn desembristanna í eigin hugmyndafræði.[10]

Í seinni tíð varð sagnfræðingum Sovétríkjanna erfitt að fjalla um desembristana því fylgismenn Múravjovs voru í senn byltingarmenn og frjálslyndismenn. Þessi samblanda var ekki í samræmi við heimssýn bolsévika þar sem októberbyltingin sem reisti Sovétríkin hafði jú verið gerð gegn gagnbyltingarstjórn frjálslyndismanna.[11] Sovéskir sagnfræðingar reyndu því að fjalla um hófsamari hugmyndafræði desembristanna án þess að bendla hana við frjálslyndi í sama skilningi og hafði t.d. einkennt hugmyndafræði andstæðings þeirra, Aleksandrs Kerenskíj. Lausnin sem þeir féllust að endingu á var sú að afmá einfaldlega hófsamari væng desembristanna úr opinberum söguskýringum og fjalla um desembristana sem eina hreyfingu. Erfitt var þó fyrir sovéska sagnfræðinga eins og Míkhaíl Pokrovskíj að hafna algerlega hlut desembristanna þar sem gjarnan var litið á uppreisnina á þingtorginu í desember 1825 sem fyrstu byltingartilraunina í sögu Rússlands og Vladímír Lenín sjálfur hafði talað vel um desembristahreyfinguna í heild sinni.[7] Ekki var farið að fjalla aftur um frjálslyndi desembristanna í sovéskri sagnaritun fyrr en á sjöunda áratugnum.

Það kom í hlut Mílítsu Vasíljevnu Netsjkínu að skapa ímynd af desembristunum sem samstæðri heild með hugmyndafræði sem skyldi hugnast bolsévikum.[12] Hún stillti upp ímynd af desembristunum sem aðalsbornum byltingarmönnum sem hefðu verið of fjarri alþýðunni til að endurspegla með fullu þeirra viðhorf en að þeir hafi engu að síður verið mikilvægur liður í samfélagsþróun í átt að raunverulegri alþýðubyltingu.[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Nicholas V. Riasanovsky, A History of Russia, bls. 283.
 2. 2,0 2,1 2,2 2,3 John Gooding, „The Decembrists in the Soviet Union“, bls. 196.
 3. 3,0 3,1 John Gooding, „The Decembrists in the Soviet Union“, bls. 197.
 4. Edward H. Lewinski-Corwin, The political history of Poland, bls. 415.
 5. Katherine J. Lualdi, Sources of The Making of the West, Volume II: Since 1500: Peoples and Cultures, bls. 143.
 6. „Sögulegar forsendur rússnesku byltingarinnar“, bls. 3.
 7. 7,0 7,1 D. S. Mirsky, „The Decembrists“, bls. 400.
 8. 8,0 8,1 D. S. Mirsky, „The Decembrists“, bls. 401.
 9. D. S. Mirsky, „The Decembrists“, bls. 402.
 10. P. Rikoun, „The Makers of Martyrs,“ bls. 436.
 11. John Gooding, „The Decembrists in the Soviet Union“, bls. 197.
 12. John Gooding, „The Decembrists in the Soviet Union“, bls. 198.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Gooding, John. „The Decembrists in the Soviet Union“. Soviet Studies, 40(2). Taylor & Francis, Ltd., 1988: 196-209. .
 • Lewinski-Corwin, Edward H. (1917). The political history of Poland. Polish Book Importing Co.
 • Lualdi, Katherine J. (2012). Sources of The Making of the West, Volume II: Since 1500. Macmillan. ISBN 9780312576127.
 • Mirsky, D. S.. „The Decembrists, (14 (26) December, 1825“. The Slavonic Review, 4(11). Modern Humanities Research Association og University College London, School of Slavonic and East European Studies, 1925: 400-404. .
 • Riasanovsky, Nicholas V. (2018). A History of Russia. Oxford University Press.
 • Rikoun, P.. „The Maker of Martyrs: Narrative Form and Political Resistance in Ryleev's "Voinarovskii"“. Russian Review,71(3). Wiley, 2012: 436-459. .
 • „Sögulegar forsendur rússnesku byltingarinnar“. Morgunblaðið. 7. nóvember 1967. Sótt 16. janúar 2019.