Nestor Makhno

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nestor Makhno
Не́стор Махно́
Nestor Makhno árið 1921.
Fæddur8. nóvember 1888
Dáinn25. júlí 1934 (45 ára)
ÞjóðerniÚkraínskur
MakiHaljna Kúsmenkó
BörnJelena

Nestor Ívanovytsj Makhno (úkraínska: Не́стор Івáнович Махно́; 8. nóvember 1888 – 25. júlí 1934), einnig kallaður Bat'ko Makhno (úkraínska: Бáтько Махно́; „Faðir Makhno“) var úkraínskur stjórnleysingi og byltingarmaður sem leiddi sjálfstæðan her stjórnleysingja í Úkraínu frá 1917 til 1921.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Nestor Makhno fæddist í sára fátækt í þorpi í Úkraínu. Hann missti föður sinn á barnsaldri og var því látinn vinna fyrir fjölskyldunni þegar hann var mjög ungur. Nestor hlaut aðeins takmarkaða skólagöngu og þegar hann var fimmtán ára varð hann verkamaður í verksmiðju. Hann fór á þessum tíma að lesa byltingarrit og komst í kynni við jafnaldra sína sem einnig hrifust af hugsjónum um byltingu gegn rússneskum embættismönnum og óðalseigendum sem kúguðu úkraínska bændur. Makhno gekk fimmtán ára gamall í leynifélag byltingarsinna en var handtekinn og dæmdur til dauða. Móður hans tókst hins vegar að biðla til stjórnvalda um að fá dóminn mildaðan og svo fór að honum var breytt í ævilangan fangelsisdóm.[1]

Makhno var fluttur í Butyrka-fangelsið í Moskvu til að afplána fangavistina. Hann dvaldi í fangelsinu í tíu ár og var jafnan hafður í járnum. Þegar febrúarbyltingin var gerð í Rússlandi árið 1917 var Makhno sleppt úr fangelsinu af nýjum stjórnvöldum. Hann hafði mikið lesið í fangavistinni og var farinn að aðhyllast stjórnleysisstefnu þegar honum var sleppt.[1]

Makhno sneri aftur til Úkraínu eftir lausn sína úr fangelsinu og hóf afskipti af stjórnmálum á æskuslóðum sínum. Hann lagði þar fyrst áherslu á að koma upp nýjum skólum fyrir bæði börn og fullorðna. Þegar fréttir bárust af októberbyltingunni í Rússlandi, þar sem kommúnistar höfðu tekið völdin, fór Makhno fram og aftur um Úkraínu til að hvetja smábændur til að kollvarpa stóreignarbændum og óðalseigendum og gera landeignir þeirra upptækar.[1]

Borgarastyrjöldin um Úkraínu[breyta | breyta frumkóða]

Nestor Makhno ásamt liðsforingjum sínum í Berdjansk árið 1919.

Eftir að kommúnistar komust til valda í Rússlandi sömdu þeir frið við Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni með Brest-Litovsk-sáttmálanum. Með sáttmálanum afsöluðu Rússar sér yfirráðum yfir Úkraínu og veittu Þjóðverjum rétt til að taka hveiti af úkraínskum bændum. Þjóðverjar og Austurríkismenn nýttu sér þessa heimild til að ræna uppskeru af Úkraínumönnum en Makhno safnaði liði ásamt sex félögum sínum og myndaði verndarsveit til að verja bændurnar gegn ágangi hernámsliðsins. Makhno og félögum tókst ítrekað að sigra mun stærri ránssveitir Þjóðverja og Austurríkismanna og smám saman safnaðist lítill her sjálfboðaliða í kringum Makhno. Makhno og stuðningsmenn hans börðust bæði gegn hernámsliðinu og gegn stóreignarbændum sem reyndu að endurheimta jarðeignir sínar.[1]

Eftir að Miðveldin báðu ósigur í fyrri heimsstyrjöldinni höfðu Þjóðverjar og Austurríkismenn sig burt frá Úkraínu. Stjórnvöld bolsévika í Rússlandi sendu rauða herinn inn í Úkraínu til að endurheimta þar yfirráð og koma þar á kommúnískri stjórn. Þrátt fyrir að Makhno væri ekki kommúnisti barðist her hans fyrst um sin við hlið rauða hersins á móti her hvítliða sem reyndi einnig að ná stjórn í Úkraínu, þar sem Makhno áleit möguleikan á endurreisn rússneska keisaradæmisins enn verri kost. Það var einkum þökk sé Makhno og her hans sem það tókst að stöðva framrás hvítliðaforingjans Antons Deníkín áður en her hans komst til Moskvu. Þrátt fyrir að Makhno hafi þannig bjargað rússnesku byltingunni var kommúnistum í Moskvu illa við hann og þeir uppnefndu hann „þorparann frá Úkraínu.“[1]

Þrátt fyrir bandalag Makhno við kommúnista í rússnesku borgarastyrjöldinni neitaði hann að takmarka frelsi á svæðunum sem her hans vann eða að skattleggja bændur í nafni kommúnistastjórnarinnar. Stjórn bolsévika bauð Makhno að verða hershöfðingi yfir stórri herdeild og Makhno þáði það með því skilyrði að hermenn hans yrðu frjálsir og að kommúnistar hefðu ekki afskipti af stjórn herdeildarinnar. Bolsévikar féllust á þetta, en yfirhershöfðingi rauða hersins, Lev Trotskíj, fól Makhno að verja langhættulegustu víglínurnar í Úkraínu og dró það á langinn að senda honum nauðsynleg skotfæri til að geta barist.[1] Þegar skotfærin bárust ekki og Trotskíj svaraði ekki skeytum Makhnos hætti Makhno að fylgja skipunum hans. Trotskíj lét í kjölfarið lýsa Makhno svikara og setti fé til höfuðs honum. Í kjölfarið hóf her Makhnos að berjast gegn kommúnistum jafnt sem hvítliðum.[2]

Makhno átti mikils fylgis að fagna meðal úkraínskra bænda og her hans vann mikla sigra í borgarastyrjöldinni um Úkraínu. Makhno tókst meðal annars að hertaka borgina Jekaterínoslav (nú Dnípro), sem hafði þá verið skipt milli kommúnista og úkraínskra sjálfstæðissinna undir stjórn Símons Petljúra. Makhno gerði í kjölfarið annað bandalag við kommúnista og hjálpaði þeim að reka her Deníkíns á flótta. Eftir sigurinn gegn Deníkín lét Trotskíj hins vegar aftur lýsa Makhno óvin byltingarinnar og átök hófust milli kommúnistanna og stjórnleysingjanna á ný.[2]

Árið 1920 reyndi Trotskíj aftur að fá hjálp Makhnos í stríði Sovétríkjanna gegn Póllandi en í þetta sinn neitaði Makhno beiðninni. Bolsévikar sendu í kjölfarið her til yfirráðasvæðis Makhnos í Úkraínu til að reyna að handsama hann. Makhno tókst að komast undan, en kommúnistar handsömuðu bróður hans í misgripum fyrir hann og tóku hann af lífi. Þegar Pólverjar hófu sókn inn í Rússland undir forystu hvítliðans Pjotrs Wrangel fékkst Makhno þó til að veita Sovétmönnum hjálp með þeim skilyrðum að stjórnleysingjar sem sætu í fangelsi í Rússlandi yrðu látnir lausir, að Úkraínumenn fengju mál- og prentfrelsi og að kommúnistar skiptu sér ekki af stjórn Úkraínu.[2]

Flótti og útlegð[breyta | breyta frumkóða]

Með hjálp Makhnos tókst Sovétmönnum að stöðva sókn Wrangels en eftir að sigurinn var unninn snerust þeir aftur gegn Makhno og stimpluðu hann sem handbendi hvítliða. Makhno tókst enn á ný að forðast handtöku rauða hersins, en hann ákvað í kjölfarið að leysa upp her sinn og yfirgefa Úkraínu. Hann fór fyrst til Rúmeníu en síðan til Póllands og svo til Þýskalands, en bolsévikar reyndu árangurslaust að fá hann framseldan til sín.[2]

Makhno settist á endanum að í París ásamt konu sinni og dóttur og skrifaði þar fyrir róttæk tímarit.[3] Makhno lést í París árið 1934 eftir langvarandi baráttu við berkla.[4]

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Makhno kvæntist kennslukonu að nafni Haljna á átakatímanum í Úkraínu og hún var alla tíð dyggur stuðningsmaður í pólitískri baráttu hans.[1] Þau eignuðust eina dóttur, Jelenu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Nestor Makhno, þjóðhetja Ukrainemanna“. Ísland. 4. október 1929. bls. 3-4.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Nestor Makhno, þjóðhetja Ukrainemanna Framh“. Ísland. 11. október 1929. bls. 3-4.
  3. Nestor Makhno, [1927] The Russian Revolution in Ukraine, Edmonton: Black Cat Press, 2007; [1936] Under the Blows of the Counterrevolution, Edmonton: Black Cat Press, 2009; [1937] The Ukrainian Revolution, Edmonton: Black Cat Press, 2011; The Struggle Against the State and Other Essays, Oakland: AK Press, 2001.
  4. Darch, Colin (2020). Nestor Makhno and Rural Anarchism in Ukraine, 1917-1921. London: Pluto Press. bls. 145. ISBN 9781786805263. OCLC 1225942343.