Fara í innihald

Jón Einarsson gelgja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Einarsson gelgja (d. 1306) var íslenskur lögsögumaður á 13. öld og líklega riddari og er lögbókin Jónsbók kennd við hann.

Hann var að öllum líkindum sonur Einars Þorvaldssonar í Hruna, Gissurarsonar, sem dó 1240, og þá sennilega bróðir Teits Einarssonar lögsögumanns. Hann var lögsögumaður 1267 og aftur 1269-1270. Jón var lengi í Noregi, kom út til Íslands með Jónsbók 1280 og mun hafa átt mikinn þátt í henni, enda nefnd eftir honum. Þegar Sturla Þórðarson þótti ekki lengur gegna lögmannsembættinu nægilega vel var Jón Einarsson settur með honum og gerður lögmaður sunnan og austan 1277-1294. Í bréfi sem Árni biskup skrifaði Noregskonungi haustið 1277 segir hann að Jón lögmaður hafi farið vel og viturlega í sínu starfi en af Sturlu hafi staðið minna gagn en þörf stóð til.

Jón kemur oft við sögu í Árna sögu biskups og fylgdi höfðingjum gegn biskupi í staðamálum en reyndi þó heldur að miðla málum. Hann og Hrafn Oddsson gengu í að sætta Árna biskup og Loðinn lepp árið 1284.

Hann var herraður af Noregskonungi, en missti þá nafnbót 1299, fór út árið eftir og kann að hafa fengið riddaranafnbótina aftur því að Flateyjarannáll kallar hann herra Jón lögmann þegar sagt er frá láti hans 1306. Hann er talinn hafa verið með auðugustu mönnum landsins um sína daga.


Fyrirrennari:
Sturla Þórðarson
Lögmaður sunnan og austan
(12771294)
Eftirmaður:
Haukur Erlendsson