Fara í innihald

Úlfhéðinn Gunnarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Úlfhéðinn Gunnarsson (d. 1116) var íslenskur lögsögumaður sem var uppi á 11. og 12. öld. Hann var einn af heimildarmönnum Ara fróða þegar hann skrifaði Íslendingabók.

Úlfhéðinn var sonur Gunnars hins spaka Þorgrímssonar, sem var lögsögumaður tvisvar á 11. öld. Úlfhéðinn var kjörinn lögsögumaður 1108 og gegndi embættinu þar til hann lést 1116. Kona hans hét Ragnhildur Hallsdóttir og var komin í beinan karllegg af landnámsmanninum Höfða-Þórði Bjarnarsyni. Tveir synir þeirra, Hrafn og Gunnar, urðu lögsögumenn, svo og bróðursonur Úlfhéðins, Bergþór Hrafnsson.

Úlfhéðinn hefur verið einn af heimildarmönnum Ara fróða, sem vitnar tvívegis til hans í Íslendingabók.

Þá var landinu skipt í fjórðunga, svá at þrjú urðu þing í hverjum fjórðungi, ok skyldu þingunautar eiga hvar saksóknir saman, nema í Norðlendingafjórðungi váru fjögur, af því at þeir urðu eigi á annat sáttir. Þeir, er fyr norðan váru Eyjafjörð, vildu eigi þangat sækja þingit, ok eigi í Skagafjörð þeir, er þar váru fyr vestan. En þó skyldi jöfn dómnefna ok lögréttuskipun ór þeira fjórðungi sem ór einum hverjum öðrum. En síðan váru sett fjórðungaþing. Svá sagði oss Úlfheðinn Gunnarssonr lögsögumaðr.
 
— Íslendingabók