Þorleifur hreimur Ketilsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorleifur Ketilsson hreimur (d. 1289) var íslenskur lögsögumaður á 13. öld og síðastur lögsögumanna á Íslandi.

Hann var sonur Ketils Þorlákssonar lögsögumanns og tók við af honum 1263. Móðir hans var Halldóra Þorvaldsdóttir, alsystir Gissurar jarls. Hann var mikið með Gissuri móðurbróður sínum og er fyrst nefndur þegar Órækja Snorrason fór að Gissuri í Skálholti í ársbyrjun 1242, þá var hann sendur til að safna liði í Grímsnesi og Ölfusi. Hann gæti þá hafa verið um tvítugt.

Hann fór til Noregs með Gissuri 1246 og í suðurgöngu til Rómar 1249. Hann var í brúðkaupinu á Flugumýri 1253 en reið burtu daginn fyrir Flugumýrarbrennu, var með Gissuri að elta uppi brennumenn og fór til Noregs með honum 1254. Hann var líka með Gissuri þegar Þórður Andrésson og bræður hans fóru að honum í Bræðratungu 1264. Hann var sagður hreystimenni. Kona hans var systir Gróu Álfsdóttur, konu Gissurar, en ekki er vitað hvað hún hét. Þorlákur sonur þeirra bjargaðist úr Flugumýrarbrennu, tíu ára að aldri, og loguðu föt hans þegar hann hljóp út.

Þorleifur var þrisvar lögsögumaður, fyrst 1263-1266, svo 1268 í eitt ár og síðast 1271 í eitt ár, síðastur í röð lögsögumanna. Í sumum annálum er sagt að Sigurður Þorvaldsson (eða Guðmundsson) hafi verið kosinn lögsögumaður 1266 en aðrar heimildir nefna hann ekki en segja að Þorleifur hafi verið lögsögumaður í fjögur ár. Um Sigurð þennan er ekkert vitað, hafi hann á annað borð verið til.