Bergþór Hrafnsson
Útlit
Bergþór Hrafnsson var íslenskur lögsögumaður á 12. öld. Í lögsögumannstíð hans voru íslensk lög skráð niður í fyrsta sinn.
Bergþór var sonarsonur lögsögumannsins Gunnars Þorgrímssonar spaka og bróðursonur Úlfhéðins Gunnarssonar lögsögumanns. Hann tók við lögsögumannsembættinu af Úlfhéðni 1117 og gegndi því til 1122 en hefur líklega látist það ár. Eftir því sem segir í Kristni sögu var hann á Breiðabólstað hjá Hafliða Mássyni veturinn 1117-1118 og unnu þeir þar ásamt fleirum að ritun og endurbótum íslenskra laga. Þau voru svo lesin upp í lögréttu á Alþingi 1118 og samþykkt.
Ok it fyrsta sumar, er hann sagði lög upp, var nýmæli þat gert, at um vetrinn eftir skyldi rita lögin at Hafliða Mássonar at umráði Bergþórs ok annarra vitra manna, ok skyldu þeir gera nýmæli þau öll, er þeim þætti þau betri en in fornu lög, ok skyldi þau segja upp it næsta sumar eftir ok þau öll haldast, er meiri hlutr manna mælti eigi í móti. Þá var ritaðr Vígslóði ok margt annat í lögum ok lesit upp um sumarit eftir í lögréttu, ok líkaði þat öllum vel. | ||
— Kristni saga
|