Fara í innihald

Gellir Bölverksson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gellir Bölverksson var íslenskur lögsögumaður á 11. öld. Hann var tvívegis lögsögumaður, fyrst 1054-1062 og aftur 1072-1074. Þá hefur hann líklega verið orðinn háaldraður, því að bróðir hans, Eyjólfur Bölverksson, sem sagður var „virðingamaður mikill og allra manna lögkænastur svo að hann var hinn þriðji maður mestur lögmaður á Íslandi“ var drepinn af Kára Sölmundarsyni á Alþingi um 1012 í eftirmálum Njálsbrennu. Faðir þeirra bræðra var Bölverkur Eyjólfsson og voru þeir komnir í beinan karllegg af Þorsteini rauð, syni Auðar djúpúðgu.

Á fyrra lögsögumannstímabili Gellis varð Ísleifur Gissurarson fyrsti biskup Íslendinga. Í Hungurvöku segir um þá erfiðleika sem mættu Ísleifi í biskupsembættinu: „má þat af því merkja nokkut, í hverjum nauðum hann hefir verit, fyrir sakir ótrú og óhlýðni, ok ósiðu sinna undirmanna: at lögmaðrinn átti mæðgur tvær“ - en ekkert er vitað um heimilisaðstæður Gellis eða hverjar mæðgurnar hafa verið.