Fara í innihald

Styrmir Kárason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Styrmir Kárason (einnig nefndur Styrmir fróði eða Styrmir Kárason hinn fróði) (um 117020. febrúar 1245) var lögsögumaður, rithöfundur og príor í Viðeyjarklaustri.

Óvíst er um ætt Styrmis, en tilgátur um að faðir hans hafi verið Kári Runólfsson ábóti á Þingeyrum, d. 1187 eða 1188. Styrmir hefur líklega verið fæddur á árabilinu 1170–1180. Sigurður Nordal telur að Styrmir hafi að hluta alist upp í Þingeyraklaustri, hlotið menntun þar og dvalist þar fram undir 1220.

Styrmir var prestur að vígslu. Hann var heimilisprestur hjá Snorra Sturlusyni í Reykholti frá því fyrir 1228 til 1235. Hann var lögsögumaður 1210–1214 og 1232–1235. Varð síðan forstöðumaður, eða príor, klaustursins í Viðey 1235–1245. Í ljósi þess að Styrmir var heimilisprestur í Reykholti, þá er líklegt að hann hafi verið aðstoðarmaður Snorra Sturlusonar við ritstörf og bókagerð.

Talið er að fylgikona Styrmis, eða barnsmóðir, hafi verið Jórunn Einarsdóttir. Sonur þeirra var Valgarður Styrmisson.

Styrmir var kunnur rithöfundur á sinni tíð. Hann er orðaður við eftirtalin verk:

  • Styrmisbók Landnámu er glötuð, en Haukur Erlendsson segir í niðurlagi Landnámu sinnar að hann hafi að hluta stuðst við hana, ásamt Sturlubók Landnámu.
  • Lífssaga Ólafs helga eftir Styrmi fróða. Sagan er að mestu glötuð, en nokkrir kaflar úr henni eru varðveittir í Flateyjarbók. Einnig er hugsanlegt að Ólafs saga helga í Flateyjarbók sé að nokkru leyti byggð á bók Styrmis fróða.
  • Lagfæringar á Sverris sögu. Í Flateyjarbók er Sverris saga tekin upp eftir bók sem Styrmir fróði skrifaði. Umdeilt er hvaða hlut Styrmir átti í sögunni, hvort hann gerði breytingar á texta sögunnar, eða hvort hann átti þátt í að semja hana, með Karli Jónssyni ábóta.
  • Harðar saga og Hólmverja. Í niðurlagi Harðar sögu er vitnað til Styrmis fróða, og telja margir fræðimenn að hann hafi samið eða átt þátt í frumgerð sögunnar.

Listi yfir lögsögumenn á Íslandi.

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár IV.
  • Sigurður Nordal: Formáli Flateyjarbókar II, bls. xii, og III, bls ix, Akranesi 1945.
  • Þorleifur Hauksson: Formáli Sverris sögu, bls. liv. Íslensk fornrit XXX, Rvík 2007.
  • Þórhallur Vilmundarson: Formáli Harðar sögu, bls. xliv-xlvi. Íslensk fornrit XIII, Rvík 1991.