Gissur Hallsson
Gissur Hallsson (um 1120 – 27. júlí 1206) var íslenskur goðorðsmaður, stallari og lögsögumaður á 12. öld.
Gissur var af ætt Haukdæla, sonur Halls Teitssonar biskupsefnis í Haukadal og konu hans Þuríðar Þorgeirsdóttur. Þorlákur biskup Runólfsson tók hann í fóstur en hann dó í ársbyrjun 1133 og hefur Gissur þá líklega farið aftur til foreldra sinna. Hann hefur svo ferðast suður í löndum sem ungur maður því að þegar Klængur Þorsteinsson biskup kom heim úr vígsluferð sinni sumarið 1152 var Gissur með honum og hafði þá meðal annars verið í Bari og Róm á Ítalíu. Í Sturlungu segir að hann hafi skrifað bók um suðurferðir sínar og var hún líklega á latínu. Þar segir einnig að Gissur hafi verið stallari Sigurðar konungs, föður Sverris konungs.
Þegar Gissur kom heim giftist hann og bjó í Haukadal. Hann var lögsögumaður 1181-1201. Hann naut mikillar virðingar og þótti mikill fræðimaður. Hann lét rita Hungurvöku, sögu fyrstu Skálholtsbiskupanna. Síðari hluta ævinnar dvaldi hann löngum í Skálholti.
Kona Gissurar var Álfheiður Þorvaldsdóttir, systir Guðmundar dýra. Börn þeirra voru Kolfinna kona Ara sterka Þorgilssonar, Þuríður kona Tuma Kolbeinssonar (og móðir Kolbeins Tumasonar) og síðar Sigurðar Ormssonar, Hallur lögsögumaður og síðar ábóti, Þorvaldur Gissurarson og Magnús biskup. Gissur átti líka nokkur börn með frillum sínum.