Fara í innihald

Isabella Bird

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Isabella Bird
Image of Isabella Bird
Isabella Bird
Fædd
Isabella Lucy Bird

15. október 1831(1831-10-15)
Dáin7. október 1904 (72 ára)
Neville Street, Edinborg, Skotlandi
ÞjóðerniBresk
MakiJohn Bishop (g. 1881)
ForeldrarDora Lawson, Edward Bird

Isabella Lucy Bird (15. október 1831 – 7. október 1904), var breskur landkönnuður, rithöfundur, ljósmyndari og náttúrufræðingur á nítjándu öld.[1][2][3] Hún stofnaði John Bishop Memorial-sjúkrahúsið í Srinagar ásamt Fanny Jane Butler.[4] Hún var fyrsta konan sem varð félagi í Konunglega breska landfræðifélaginu.[5]

Isabella Bird fæddist 15. október 1831 í Boroughbridge Hall, Yorkshire, sem var heimili ömmu hennar og fyrsta sókn föður hennar sem hafði tekið prestvígslu árið 1821. Foreldrar hennar voru séra Edward Bird og seinni kona hans, Dora Lawson (1803–1866).[1]

Bird flutti nokkrum sinnum í æsku. Árið 1832 var séra Bird skipaður prestur í Maidenhead. Vegna heilsubrests hans flutti fjölskyldan aftur árið 1834 til Tattenhall[6] í Cheshire, þar sem frændi hans, dr. John Bird Sumner, biskup af Chester, skipaði hann prest. Þar fæddist Henrietta, systir Isabellu, sama ár.

Andstaða Edward Bird við vinnu á sunnudögum varð til þess að söfnuður hans minnkaði og árið 1842 óskaði hann eftir flutningi til St. Thomas's í Birmingham. Þar urðu aftur mótmæli sem náðu hámarki með því að presturinn var grýttur og ókvæðisorð hrópuð að honum. Árið 1848 flutti fjölskyldan aftur og eftir að hafa dvalið um tíma í Eastbourne settist hún að í Wyton í Huntingdonshire (nú Cambridgeshire).)[7]

Frá barnæsku var Bird veikburða, þjáðist af aumum hrygg, höfuðverkjum og svefnleysi. Læknirinn mælti með útivist og þess vegna lærði Bird að sitja hest í æsku og síðar að róa.[1] Foreldrar hennar sáu alfarið um menntun hennar. Faðir hennar var áhugamaður um grasafræði og kenndi Bird allt um gróður, og móðir hennar kenndi dætrunum fjölbreytt fræði. Bird varð mikill lestrarhestur.[7]

Fyrsta útgefna rit Isabellu þegar hún var 16 ára var bæklingur sem fjallaði um fríverslun gegn verndarstefnu. Eftir það skrifaði hún oft greinar í ýmis tímarit.[5] Árið 1850 var trefjaæxli fjarlægt úr hrygg hennar, en Bird hélt áfram að þjást af ótilgreindum kvillum sem leiddu til þreytu og svefnleysis. Fjölskyldan eyddi sex sumrum í Skotlandi til að reyna að bæta heilsu hennar.

Læknar Bird hvöttu til sjóferðar og árið 1854 hófust ferðalög hennar þegar henni bauðst að sigla til Bandaríkjanna og fylgja frændum sínum til fjölskyldu þeirra. Faðir hennar gaf henni 100 pund og leyfi til að vera eins lengi og þau entust.[7] Bréf sem Bird skrifaði til ættingja sinna heima á Englandi urðu grunnurinn að fyrstu bók hennar, An Englishwoman in America (1856), sem Murray gaf út.[5][8] Útgefandinn John Murray var útgefandi hennar til æviloka og varð líka einn nánasti vinur hennar.“[9]

Ferðalög á miðjum aldri

[breyta | breyta frumkóða]
Isabella Bird klæddist Mansjúríufatnaði á ferðalagi um Kína.

Bird yfirgaf Bretland aftur árið 1872, fór fyrst til Ástralíu, þar sem henni líkaði illa, og síðan til Hawaii-eyja (sem þá voru kallaðar Sandvíkureyjar í Evrópu). Ást hennar á eyjunum leiddi til annarrar bókar sem kom út þremur árum síðar. Þar kleif hún Mauna Kea og Mauna Loa.[10] Hún flutti síðan til Colorado, þar sem hún hafði heyrt að loftslagið hentaði veiku fólki. Hún klæddi sig nánast og sat hest eins og karlmaður (þó að hún hafi hótað að lögsækja Times fyrir að segja að hún klæddist karlmannsfötum). Hún fór yfir 800 mílur í Klettafjöllunum árið 1873. Bréf hennar til systur sinnar, sem fyrst voru prentuð í tímaritinu The Leisure Hour, urðu fjórða og líklega frægasta bók Bird, A Lady's Life in the Rocky Mountains.[10]

Jim Nugent, „Rocky Mountain Jim“, lífgaði upp á dvöl Bird í Klettafjöllunum. Nugent var dæmigerður útlagi, eineygður með smekk fyrir ofbeldi og ljóðlist. „Maður sem hvaða kona sem er gæti elskað en engin heilbrigð kona myndi giftast,“ sagði Bird í kafla sem var fjarlægður úr bréfum hennar áður en þau voru birt. Nugent virtist einnig heillaður af hinni sjálfstæðu Bird, en hún yfirgaf að lokum Klettafjöllin og sinn „ástkæra desperado“. Nugent var skotinn til bana innan við ári síðar.

Mynd af tveimur Aínúum, upphaflega úr bók hennar Unbeaten Tracks in Japan frá 1880.

Heima eignaðist Bird annan vonbiðil, dr. John Bishop, skurðlækni á fertugsaldri í Edinborg. Hún fékk áhuga á Japan eftir lestur greinarinnar „My Circular Notes, 1876“ eftir John Francis Campbell og spurði Colin Alexander McVean, fyrrverandi yfirmælingamann landmælingaskrifstofu Japans, ráða í febrúar 1878. Svo lagði hún aftur af stað, í þetta sinn til Asíu: Japans, Kína, Kóreu, Víetnam, Singapúr og Malaja. Þegar systir hennar, Henrietta Amelia Bird, lést úr taugaveiki árið 1880, þáði Bird bónorð John Bishop. Þau giftust í febrúar 1881 og síðar sama ár var hún sæmd konunglegu Kapiolani-orðunni af Kalākaua konungi Hawaii.[1] Heilsu Bird tók að hraka, en fyrir utan skarlatssótt árið 1888, náði hún sér á strik eftir dauða John Bishop árið 1886. Þá erfði hún mikið ráðstöfunarfé. Bird fannst sem fyrri ferðir hennar hefðu verið áhugamennska, svo hún lagði stund á nám í læknisfræði og ákvað að ferðast sem trúboði. Þrátt fyrir að vera orðin næstum 60 ára gömul hélt hún af stað til Indlands.

Korea and Her Neighbours (1898)

Þegar Bird kom til Indlandsskaga í febrúar 1889 heimsótti hún sendiskrifstofur Breta, fór til Ladakh á landamærum Indlands og Tíbets og ferðaðist síðan um Persíu, Kúrdistan og Tyrkland. Á Indlandi gaf maharajann af Kasmír henni land til að byggja sjúkrahús með sextíu rúmum og lyfjageymslu fyrir konur. Þar vann hún með Fanny Jane Butler að stofnun John Bishop Memorial Hospital til minningar um nýlátinn eiginmann sinn sem hafði tekið frá fé í þessum tilgangi í erfðaskránni. Árið eftir gekk hún til liðs við hóp breskra hermanna sem ferðuðust milli Bagdad og Teheran. Hún var með yfirmanni herdeildarinnar meðan hann stundaði könnunarstörf, vopnuð skammbyssu og lyfjakistu sem fyrirtæki Henry Wellcome í London útvegaði. Árið 1891 ferðaðist hún gegnum Balúkistan til Persíu og Armeníu, og kannaði upptök árinnar Karun. Síðar sama ár hélt hún ræðu í nefndarherbergi neðri deildar breska þingsins um ofsóknir á hendur kristnum mönnum í Kúrdistan, sem hún hafði áður kynnt fyrir stórvesír Tyrkjaveldis.

Skrif Bird höfðu birst í tímaritum og dagblöðum í áratugi og hún var orðin þekkt nafn. Árið 1890 varð hún fyrsta konan sem hlaut heiðursstyrk Konunglega skoska landfræðifélagsins. Tveimur árum síðar varð hún fyrsta konan sem fékk inngöngu í Konunglega breska landfræðifélagið.[11] Hún varð líka meðlimur í Konunglega breska ljósmyndafélaginu þann 12. janúar 1897. Hún fór í sína síðustu langferð árið 1897, þegar hún ferðaðist upp árnar Jangtse og Han í Kína og Kóreu. Síðar fór hún til Marokkó, þar sem hún ferðaðist meðal Berba og þurfti að nota stiga til að klífa á bak svörtum stóðhesti sem var gjöf til hennar frá soldáninum.[10]

Bænastund við gröf Isabellu Bird, í Dean-kirkjugarðinum í Edinborg.

Nokkrum mánuðum eftir heimkomuna úr ferðinni til Marokkó veiktist Bird og lést á heimili sínu á Melville Street 16 í Edinborg þann 7. október 1904.[12] Hún var grafin í fjölskyldugrafreitnum í Dean-kirkjugarðinum í vesturhluta borgarinnar. Gröfin liggur í litlum bogadregnum suðurhlutanum, nálægt litlum stíg sem skiptir honum í tvennt. Hún var að skipuleggja aðra ferð til Kína þegar hún lést.

Klukkuturn í Tobermory reistur með fé sem Isabella Lucy Bird gaf.

Fyrsta ævisaga Bird var skrifuð af Anne M Stoddart og kom út árið 1907.

Caryl Churchill notaði Bird sem persónu í leikriti sínu Top Girls (1982). Margar af samræðunum sem Churchill skrifaði eru teknar upp úr ritum Bird sjálfrar.

Bird var tekin inn í frægðarhöll kvenna í Colorado árið 1985.[13]

Fjallað var um Bird í Bedrock: Writers on the Wonders of Geology (2006), ritstýrt af Lauret E. Savoy, Eldridge M. Moores og Judith E. Moores (Trinity University Press) sem fjallar um það hvernig rithöfundar hafa lýst jarðfræðilegum einkennum jarðarinnar.[14]

Bird er aðalpersóna í mangasögunni Isabella Bird in Wonderland (Fushigi no Kuni no Bird), sem fjallar um ferðir hennar til Japans. Sagan kom út í tvítyngdri japansk-enskri útgáfu frá 2018.[15]

Bygging klukkuturnsins á Tobermory á Mull var fjármögnuð af Bird til minningar um systur hennar, Henriettu. Turninn var hannaður af fjallgöngumanninum og landkönnuðinum Edward Whymper.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Middleton, Dorothy (2004). „Bishop [Bird], Isabella Lucy (1831–1904)“. Oxford Dictionary of National Biography. Oxford University Press.
  2. „Isabella Bird (1831–1904)“. The John Murray Archive. National Library of Scotland. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. mars 2014. Sótt 16. mars 2014.
  3. Ogilvie, Marilyn Bailey (1986). Women in science : antiquity through the nineteenth century : a biographical dictionary with annotated bibliography (Reprint.. útgáfa). Cambridge, Mass.: MIT Press. bls. 38. ISBN 9780262650380.
  4. „Health Care Institutes - John Bishop Memorial Mission Hospital, Kashmir“. Diocese of Amritsar. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. desember 2014. Sótt 21. apríl 2015.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Mrs Bishop“. The Times. Obituaries. London, England (37521): 4. 10. október 1904.
  6. Lucas, Charles Prestwood (1912). Bishop, Isabella Lucy. Dictionary of National Biography. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. febrúar 2017.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 Stoddart, Anna M, (1906) The Life of Isabella Bird, Mrs Bishop : London, J. Murray OCLC 4138739
  8. Bird, Isabella L. (1856). The Englishwoman in America. John Murray OCLC 169934144.
  9. David McClay. „Travels with Isabella Bird (transcript)“. National Library of Scotland. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. mars 2014. Sótt 17. mars 2014.
  10. 10,0 10,1 10,2 „Bird, Isabella“. The Hawaiian Archipelago (Biographical Note). eBooks. 2004. bls. i.
  11. Bell, Morag; McEwan, Cheryl (1. janúar 1996). „The Admission of Women Fellows to the Royal Geographical Society, 1892-1914; the Controversy and the Outcome“. The Geographical Journal. 162 (3): 295–312. doi:10.2307/3059652. JSTOR 3059652.
  12. Edinburgh Post Office Directory 1904
  13. Colorado Women's Hall of Fame, Isabella Bird
  14. Savoy, Lauret E. & Moores, Eldridge M. & Moores, Judith E. 2006. TX: Trinity University Press.
  15. Baker, Bayleigh (22. janúar 2018). „Isabella Bird in Wonderland Manga Gets Bilingual Edition in Japan“. Anime News Network. Sótt 30. nóvember 2018.