iOS

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

iOS (þekkt sem iPhone OS fyrir júní 2010) er stýrikerfi frá Apple fyrir fartæki Apple, snjallsímann iPhone og spjaldtölvuna (e. tablet) iPad (seinna kom nafnabreyting/afbrigði af iOS fyrir iPad sem heitir iPadOS). iOS kom fyrst út á iPhone en er nú líka fáanlegt fyrir iPod touch. Apple gefur ekki leyfi til að nota stýrikerfið á öðrum tækjum. Með netversluninni App Store er hægt að hlaða forritum niður í þessi tæki og 2020 voru til 1.8 milljón forrit, aukning frá rúmlega 500.000 forritum, til sölu í versluninni 2011.[1] Á síðasta ársfjórðungi 2010 var markaðsdeild iOS á alþjóðlega snjallsímastýrikerfismarkaðinum 16%, í þriðja sæti á eftir Android frá Google og Symbian frá Nokia, ef miðað er við sölu á tækjum sem nota stýrikerfin,[2] en nú er iOS í öðru sæti á eftir Android.

Notendaviðmót iOS er byggt á beinum samskiptum við fjölsnertiskjá. Notandinn stjórnar tækinu með fingrahreyfingum og lyklaborði á skjá (líka er hægt að nota viðtengt lyklaborð en kerfið er ekki hannað fyrir mús). Tækið bregst einnig við sé tækinu hallað eða snúið. Sé tækinu, til dæmis, snúið um 90 gráður þá heldur mynd á skjá áfram að snúa upp. iOS var byggt á grunnhluta Mac OS X stýrikerfisins (sem nú heitir macOS), sem var gert fyrir borðtölvur og að einhverju leyti eru forritaskil því lík (t.d. Core Foundation og Foundation Kit en notar t.d. Cocoa Touch en ekki Cocoa úr macOS) en ekki nógu lík til að forrit gerð fyrir macOS virði á iOS.

Afbrigði[breyta | breyta frumkóða]

iOS, undir því nafni, eða upphaflegu útgáfurnar, eru ekki lengur fáanlegar fyrir eða með iPad spjaldtölvum. Svipað afbrigði, iPadOS, er nú notað og munurinn er aðallega að stýrikerfið og forrit fyrir eru gerð fyrir stærri skjá. macOS hefur sögulega séð ekki getað keyrt iOS né iPadOS forrit, og telst/taldist ekki afbrigði af þeim stýrikerfum. Hins vegar í núverandi útgáfu af macOS, á viðeigandi nýrri vélbúnaði, þ.e. "Apple silicon" (M1) tölvum, getur macOS keyrt þannig forrit. Svo má segja að iOS hafi alltaf verið afbrigði af macOS, því ákveðinn skyldleiki er á milli, að hluta til eru stýrikerfin eins.

Apple TV notar sérstöka útgáfa af iOS sem kallast nú tvOS eftir nafnabreytingu, en þar sem notandinn notar fjarstýringu, með svokölluðu 3ja metra viðmóti ("10-foot user interface"), en snertir ekki skjáinn til að stjórna, eru eiginleikarnir og skyldleikinn við iOS ekki eins augljós, enda var iOS ekki notað áður fyrr, heldur afbrigði af macOS.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Apple Introduces New iPod touch“. Sótt 10. júní 2011.
  2. Google’s Android becomes the world’s leading smart phone platform“.
  Þessi Applegrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.