Fara í innihald

Halla Tómasdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Halla Tómasdóttir
Forseti Íslands
Núverandi
Tók við embætti
1. ágúst 2024
ForsætisráðherraBjarni Benediktsson
Kristrún Frostadóttir
ForveriGuðni Th. Jóhannesson
Persónulegar upplýsingar
Fædd11. október 1968 (1968-10-11) (56 ára)
Reykjavík, Ísland
MakiBjörn Skúlason
Börn2
HáskóliAuburn University at Montgomery
Thunderbird School of Global Management

Halla Tómasdóttir (fædd í Reykjavík 11. október 1968) er sjöundi forseti Íslands. Hún tók við embættinu 1. ágúst 2024. Halla hefur starfað sem rekstrarhagfræðingur, kennari og fyrirlesari á alþjóðavettvangi.

Halla útskrifaðist með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands árið 1986. Hún var skiptinemi í Bandaríkjunum og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Halla lauk BS-gráðu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og mannauðsmál frá Auburn University at Montgomery árið 1993.[1] Því næst lauk hún MBA-gráðu með áherslu á alþjóðleg samskipti og tungumál frá Thunderbird School of Global Management árið 1995.[2] Halla stundaði um nokkura ára skeið nám til doktorsgráðu við Cranfield University í Bretlandi þar sem hún lagði stund á rannsóknir í leiðtogafræði.

Starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Að loknu námi í Bandaríkjunum starfaði Halla við mannauðsmál og stjórnun hjá Pepsi og M&M/Mars.[3] Eftir 10 ára dvöl í Bandaríkjunum flutti hún aftur til Íslands þar sem hún starfaði sem mannauðsstjóri hjá Íslenska útvarpsfélaginu í eitt ár áður en hún gekk til liðs við Háskólann í Reykjavík, sem þá var nýstofnaður. Þar kom hún að uppbyggingu skólans, setti á fót stjórnendaskóla og símenntun HR og kenndi nemendum á öllum aldri umbreytingastjórnun og stofnun og rekstur fyrirtækja.

Halla tók við stöðu framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs árið 2006[4] en sagði þar upp störfum árið 2007 til að stofna Auði Capital með það að markmiði að koma með aðra og mannlegri nálgun inn í fjármálageirann. Fyrirtækið komst klakklaust í gegnum efnahagshrunið árið 2008 en í kjölfar hrunsins tók Halla virkan þátt í umræðum og verkefnum sem sneru að uppbyggingu Íslands, sem þótti umdeilt þar sem fólk tengdi hana oft við að bera ábyrgð á hruninu og að vera ein af útrásarvíkingunum.[5] Halla var einn af níu stofnendum Mauraþúfunnar sem hrinti í framkvæmd Þjóðfundinum árið 2009, þar sem slembiúrtak íslensku þjóðarinnar kom saman í Laugardalshöll til að ræða þau grunngildi og þá framtíðarsýn sem myndi varða leið uppbyggingar í kjölfar hrunsins.

Árið 2015 skipulagði Halla alþjóðlegu jafnréttisráðstefnuna Inspirally WE2015 (Women Empowerment) í Hörpu. Þar komu stjórnmálamenn, leiðtogar í viðskiptalífinu, fræðimenn og fleiri saman og leituðu leiða til raunverulegra framfara þegar kemur að jafnrétti kynjanna.[6][7]

Halla hefur m.a. hlotið FKA-viðurkenninguna, jafnréttisviðurkenningu Kópavogs[8] og árið 2009 var hún ásamt Kristínu Pétursdóttur valin kvenfrumkvöðull Evrópu af Cartier, McKinsey og INSEAD.[9]

Árið 2018 varð Halla forstjóri félagasamtakanna The B Team og gengdi því til ársins 2024. Þessi samtök voru stofnuð af alþjóð­legum hópi leið­toga fyr­ir­tækja til að beita sér fyrir ábyrgum viðskiptaháttum og samstarfi stjórnvalda, einkageirans og almennra borgara í að takast á við stórar áskoranir eins og loftslagsbreytingar og ójöfnuð.[10]

Forsetaframboð

[breyta | breyta frumkóða]

Halla tilkynnti um framboð sitt til forseta Íslands 17. mars 2016. Halla lagði áherslu á innleiðingu þeirra gilda sem þjóðin sameinaðist um á Þjóðfundinum 2009, þ.e. gildin heiðarleiki, jafnrétti, réttlæti og virðing. Halla lagði einnig áherslu á að Ísland héldi áfram að vera í fararbroddi í jafnréttismálum og yrði fyrsta landið til að brúa kynjabilið.[11]

Halla tilkynnti framboð sitt til embættis forseta Íslands 17. mars 2024.[12] Halla var kjörin forseti með 73.182 atkvæðum eða með 34,1% fylgi. [13]

Í kosningabaráttunni lýsti Halla sig mótfallna þátttöku Íslands í kaupum á vopnum fyrir Úkraínu, sem hefur varist innrás Rússa í landið frá árinu 2022.[14] Afstaða hennar leiddi til gagnrýni af hálfu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, sem kallaði það „hroka­fulla afstöðu“ að skilyrða stuðning við Úkraínu við að þeir keyptu ekki það sem þá helst vantar.[15]

Forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]

Halla tók við embætti forseta Íslands af Guðna Th Jóhannessyni þann 1. ágúst 2024. Hún er sjöundi forseti Íslands og önnur konan sem gegnir embættinu.[16] Í september 2024 var greint frá því að einungis 45% Íslendinga væru ánægð með störf hennar sem forseta og er það lægsta hlutfall sitjandi forseta í könnun.[17]

Halla fór í sína fyrstu opinberu heimsókn til Danmerkur í október 2024. Athygli vakti að hún talaði ensku við Friðrik konung og í ræðu sinni í Kristjánsborg.[18]

Síðar í október sprakk ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og hélt Halla sinn fyrsta ríkisráðsfund á Bessastöðum og hitti leiðtoga fráfarandi ríkisstjórnarflokka (nema Vinstri grænna). [19]

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Halla er gift Birni Skúlasyni viðskiptafræðingi og börn þeirra eru Tómas Bjartur og Auður Ína. Foreldrar Höllu eru Tómas Björn Þórhallsson og Kristjana Sigurðardóttir.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hólmfríður Gísladóttir (22. mars 2024). „Þverneitar að hafa freistast til að fegra ferilskrána“. Vísir.is.
  2. „Mannabreytingar hjá Íslenska útvarpsfélaginu“. Morgunblaðið: D12. 29. janúar 1998.
  3. „Halla Tómasdóttir | Council for Inclusive Capitalism“ (bandarísk enska). Sótt 7. maí 2024.
  4. Helgadóttir, Ragnhildur (25. mars 2024). „Halla nú ósammála mörgu sem hún beitti sér fyrir sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs“. Heimildin. Sótt 7. maí 2024.
  5. Gunnarsson, Björgvin (27. maí 2024). „Einar minnir á fortíð Höllu Tómasdóttur: „Var í forystu útrásarkórsins fyrir hrun" -“. Mannlíf.is. Sótt 11. júní 2024.
  6. Gabriela Mueller (30. júní 2015). „Iceland is doing something right“.
  7. „Ráðstefnan WE2015 í Hörpu“. Ríkisútvarpið. 19. júní 2015.
  8. Jafnréttisstofa. „Halla Tómasdóttir hlaut jafnréttisviðurkenningu Kópavogs“. Jafnréttisstofa. Sótt 7. maí 2024.
  9. „Women's Forum Global Meeting Whitebook 2009“.
  10. „Halla verður nýr forstjóri B Team“. Kjarninn. 14. júní 2018.
  11. „Halla Tómasdóttir býður sig fram“. www.mbl.is. Sótt 7. maí 2024.
  12. Hrólfsson, Ragnar Jón (17. mars 2024). „Halla Tómasdóttir býður sig fram til forseta - RÚV.is“. RÚV. Sótt 7. maí 2024.
  13. Halla Tómasdóttir verður forseti Íslands Rúv, 2. júní 2024
  14. „Fjármagnið svo lítið að það breytir engu“. mbl.is. 25. maí 2024. Sótt 17. júlí.
  15. Ólafur Björn Sverrisson (6. júní 2024). „„Hroka­full af­staða" að skil­yrða stuðning við Úkraínu“. Vísir. Sótt 17. júlí.
  16. „Halla Tómasdóttir sjöundi forseti Íslands“. Ríkisútvarpið. 1. ágúst 2024.
  17. Hrólfsson, Ragnar Jón (27. september 2024). „Tæpur helmingur ánægður með störf Höllu Tómasdóttur - RÚV.is“. RÚV. Sótt 2. október 2024.
  18. Halla talar ensku við kónginn: „Ég held að það sé kannski nýi tíminn“ Vísir, sótt 17. október, 2024
  19. Ríkisráðsfundur á Bessastöðum: Vinstri græn formlega hætt Rúv, sótt 17. október, 2024


Fyrirrennari:
Guðni Th. Jóhannesson
Forseti Íslands
(1. ágúst 2024 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti