Gísla saga Súrssonar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gísla saga Súrssonar er ein Íslendingasagnanna. Hún hefur sennilega verið skráð í lok 13. aldar. Ágúst Guðmundsson gerði kvikmyndina Útlagann eftir Gísla sögu árið 1981.

Vestfirðir, einkum Dýrafjörður, Arnarfjörður og Breiðafjörður, eru meginsögusvið Gísla sögu. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um hversu sannsöguleg sagan er en allflestir eru þó sammála um að kjarni söguþráðarins sé sannur þótt hann hafi fengið skáldlegan búning. Sagan er til í tveimur gerðum. Lengri gerðin í pappírshandritum sem eru afrit af fornum skinnbókum sem nú eru glötuð. Styttri gerðina er að finna í skinnbók frá 15. öld sem er varðveitt á Árnastofnun og er kallað AM 556 A 4to. Gísla saga var fyrst prentuð á Hólum í Hjaltadal árið 1756.

Sagan segir frá ósættum og mannvígum frá sjónarmiði hins forna siðar frændseminnar að virðing ættarinnar krefjist hefnda ef vegin eru ættmenni. Það hefur verið talið líklegt að atburðir sögunnar, að því leyti sem þeir eru sannsögulegir, hafi gerst á árunum 940 til 980.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Gísli Súrsson flutti frá Noregi um 950 ásamt fjölskyldu sinni, þar á meðal bróður sínum Þorkatli. Þorbjörn faðir þeirra var nefndur súr vegna þess að hann hafði bjargað sjálfum sér úr eldi með því að dýfa hafurskinnum í sýruker (mjólkursýru) og slökkva eldinn með þeim. Hann keypti sér land í Dýrafirði og bjó á Sæbóli í Haukadal. Eftir lát Þorbjörns bjó Þorkell áfram á Sæbóli en Gísli á Hóli innar í dalnum. Kona Gísla var Auður Vésteinsdóttir.

Í sögunni segir svo frá að svonefndir Haukdælir úr Dýrafirði, Gísli, bróðir hans Þorkell, mágur þeirra Þorgrímur Þorsteinsson goðorðsmaður, sem giftur var Þórdísi, systur þeirra, og Vésteinn Vésteinsson, mágur Gísla, sem var bróðir Auðar, konu Gísla, ganga í fóstbræðralag. Í fóstbræðralagi fólst það, að óskyldir menn tengdust eins og um fjölskyldumeðlimi væri að ræða. Hefndarskyldan var mikilvægust í fóstbræðralaginu eins og hún var í fjölskylduheiðri norðurlandamanna á þessum tíma.

Fóstbræðralag Haukdæla verður hinsvegar til lítils. Þorgrímur lætur fljótlega í ljós þá skoðun að hann eigi litlum skyldum við Véstein að gegna þar sem þeir séu ekki tengdir fjölskylduböndum. Gísli bregst hart við orðum Þorgríms og sver af sér frekari vináttu við hann. Hefjast nú mannvíg mikil. Vésteinn er myrtur af óþekktum árásarmanni í rekkju sinni um nótt (og eru hinstu orð hans „hneit þar“). Sagan gefur sterklega í skyn að Þorkell, bróðir Gísla, hafi verið morðinginn. Gísli hefur Þorgrím sterklega grunaðan um verknaðinn og drepur hann síðar í lokrekkju hans.

Ættmenn Þorgríms, Börkur hinn digri bróðir hans fremstur í flokki, leita eftir hefndum og vilja Gísla dauðan. Þeir fá Gísla dæmdan sekan á vorþingi Vestfirðinga. Börkur gengur að eiga Þórdísi, systur Gísla og ekkju Þorgríms. Börkur leitar liðsinnis Eyjólfs gráa og býður honum fúlgur fjár (þrjú hundruð silfurs) fyrir að drepa Gísla. Gísli selur land sitt í Dýrafirði og flytur í Geirþjófsfjörð innst inni í Arnarfirði ásamt konu sinni, Auði. Næstu árin er Gísli í felum til skiptis í Geirþjófsfirði og nokkrum öðrum stöðum á Barðaströnd og í Hergilsey í Breiðafirði. Þrettán árum eftir að hann var dæmdur fundu liðsmenn Eyjólfs gráa hann í Geirþjófsfirði. Þar hafði hann búið sér fylgsni, bæði við bæinn og í skógi norðan við ána. Voru liðsmenn Eyjólfs 15 saman þegar þeir fundu Gísla. Hljóp Gísli, að því er sagan segir upp á hamar uppi í hlíðinni sem kallaður er Einhamar. Varðist hann af mikilli hreysti en féll að lokum eftir að hafa sært 8 árásarmenn til ólífis.

Eftir að Gísli hafði verið veginn reyndi Þórdís að drepa Eyjólf en það misheppnaðist hjá henni og hún særði hann aðeins á læri. Börkur bauð Eyjólfi hvað sem hann vildi í skaðabætur og við það sagði Þórdís skilið við Börk. En Auður fór til Danmerkur ásamt Gunnhildi, konu Vésteins, og gerðist kristin, hún fór í pílagrímsferð til Rómar og sneri aldrei aftur.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Íslendingasögur, Svart á hvítu, Reykjavík, 1987

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni


Íslendingasögurnar

Bandamanna saga · Bárðar saga Snæfellsáss · Bjarnar saga Hítdælakappa · Brennu-Njáls saga · Droplaugarsona saga · Egils saga · Eiríks saga rauða · Eyrbyggja saga · Finnboga saga ramma · Fljótsdæla saga · Flóamanna saga · Fóstbræðra saga · Færeyinga saga · Grettis saga · Gísla saga Súrssonar · Grænlendinga saga · Grænlendinga þáttur · Gull-Þóris saga · Gunnars saga Keldugnúpsfífls · Gunnlaugs saga ormstungu · Hallfreðar saga vandræðaskálds · Harðar saga og Hólmverja · Hávarðar saga Ísfirðings · Heiðarvíga saga · Hrafnkels saga Freysgoða · Hrana saga hrings · Hænsna-Þóris saga · Kjalnesinga saga · Kormáks saga · Króka-Refs saga · Laxdæla saga · Ljósvetninga saga · Reykdæla saga og Víga-Skútu · Svarfdæla saga · Valla-Ljóts saga · Vatnsdæla saga · Víga-Glúms saga · Víglundar saga · Vopnfirðinga saga · Þorsteins saga hvíta · Þorsteins saga Síðu-Hallssonar · Þórðar saga hreðu