Geirþjófsfjörður
Geirþjófsfjörður er einn af Suðurfjörðum í Arnarfirði, langur og mjór fjörður, um 10 km frá Ófærunesi þar sem hann mætir Trostansfirði (frá Kópanesi ysti í Arnarfirði og inn í fjarðarbotn í Geirþjófsfirði eru um 40 km). Há fjöll liggja að firðinum á báða bóga og brattar hlíðar niður í sjó. Helsta undirlendi er í fjarðarbotninum en þó fremur lítið. Enginn bílvegur liggur í fjörðinn en vegurinn um Dynjandisheiði milli Vatnsfjarðar og Dynjanda í Arnarfirði liggur ofan við botn fjarðarins og blasir hann við af heiðinni.
Þrír bæir voru í firðinum og eru allir nú í eyði, þar að auki var bærinn Steinanes utar í hlíðum Langaness. Þar stenda enn rústir af steinsteyptu húsi.
Norðan við fjörðinn var jörðin Krosseyri á sérkennilegum tanga sem myndast af andstæðum straumum, annars vegar innan úr Geirþjófsfirði og hinn utan frá Arnarfirði. Þar stendur enn steypt íbúðarhús. Sagnir herma að sjávarskrímsli hafi sést síðast hér á landi í fjöru á Krosseyri.
Sunnan við fjörðinn var Sperðlahlíð. Þar má sjá tóftir eftir bústaðs- og gripahús enda var þar búið í torfhúsi þangað til jörðin fór í eyði á fjóra áratug tuttugustu aldar.
Innst í firðinum og stærsta jörðin var Langibotn þar sem Geirþjófur Valþjófsson landnámsmaður er talinn hafa búið og Auðarbær þar sem kona útlagans Gísla Súrssonar bjó í útlegð hans. Dalurinn upp af botni Geirþjófsfjarðar einkennist af allmiklum birkiskógi með ívafi af reyni. Hluti hans var afgirtur og friðaður um 1930 og hófst þá gróðursetning barrtrjáa af ýmsum tegundum og var því haldið áfram fram á áttunda áratuginn. Hafa sumar tegundir tekið vel við sig, sérlega furur, og eru þar nokkur væn tré. Þegar Langibotn fór í eyði 1969 komst hann í eigu Skógræktar ríkisins, síðar Landgræðslusjóðs. Þar stendur enn íbuðarhús úr timbri, upphaflega flutt til Siglufjarðar af norskum hvalveiðimönnum um 1840 en til Geirþjófsfjarðar um 1880.
Gísla saga Súrssonar
[breyta | breyta frumkóða]Geirþjófsfjörður er eitt meginsögusvið Gísla sögu Súrssonar og hefur það verið lifandi söguhefð í Arnarfirði að hún hafi þar átt sér stað í raun. Meðal annars má sjá rústir nálægt bæjaránni sem sagðar eru vera af bæ Auðar, konu Gísla. Einnig hafa fundist tóftir sunnan við ánna sem taldar eru hafi verið fylgsni Gísla. Samkvæmt sögunni var Gísli veiginn á klettinum Einhamri þar sem hann varist liðsmönnum Eyjólfs gráa. Í samband við Alþingishátíðina 1930 var höggvin í Einhamar minning um Gísla Súrsson og Auði Vésteinsdóttur.