Fara í innihald

Einhamar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einhamar er klettur í Geirþjófsfirði sem frægur er úr Gísla sögu Súrssonar. Kletturinn stendur í sunnanverðri fjallshlíðinni í landi Langabotns og er nú allhár birkiskógur allt í kringum hann. Frásagan í Gísla sögu er mikil hetjufrásögn þó með öllu sé óvíst um sannleiksgildi né samræmi milli nafngifta sögusviðs og nútíma. Eftir að andstæðingar Gísla fundu fylgsni hans í skóginum á hann að hafa hlaupið upp á hamar nokkur sem nefndur er Einhamar. Klettur sá er nú er svo nefndur er allhár og þverhníptur að framanverðu en nokkuð flatur að ofan, enda varði Gísli sig þar frábærlega samkvæmt sögunni og varð átta manna bani áður enn hann féll sjálfur. Segir svo frá í sögunni:

Og er minnst er vonin vinst Gísli við og hleypur upp á hamar þann er heitir Einhamar og af kleifunum. Þar snýst Gísli við og verst. Þetta kom þeim að óvörum; þykir þeim nú mjög óhægjast sitt mál, mennirnir dauðir fjórir en þeir sárir og móðir. Verður nú hvíld á aðsókninni. Þá eggjar Eyjólfur menn sína allfast og heitir þeim miklum fríðindum ef þeir næðu Gísla. Eyjólfur hafði einvala lið með sér að hreysti og harðfengi.

Maður er nefndur Sveinn er fyrstur réðst í móti Gísla. Gísli heggur til hans og klýfur hann í herðar niður og fleygir honum ofan fyrir hamarinn. Nú þykjast þeir eigi vita hvað staðar næmi manndráp þessa manns.

Gísli mælti þá til Eyjólfs: "Það mundi eg vilja að þau þrjú hundruð silfurs er þú hefur tekið til höfuðs mér, skaltu hafa dýrast keypt og það mundi eg vilja að þú gæfir til þess önnur þrjú hundruð silfurs að við hefðum aldrei fundist og muntu taka svívirðing fyrir mannskaða."

Nú leita þeir sér ráðs og vilja eigi fyrir líf sitt frá hverfa. Sækja þeir nú að honum tveggja vegna og fylgja þeir Eyjólfi fremstir er annan heitir Þórir en annar Þórður, frændur Eyjólfs; þeir voru hinir mestu garpar. Og er aðsóknin þá bæði hörð og áköf og fá þeir nú komið á hann sárum nokkrum með spjótalögum en hann verst með mikilli hreysti og drengskap. Og fá þeir svo þungt af honum af grjóti og stórum höggum svo að enginn var ósár, sá er að honum sótti, því að Gísli var eigi missfengur í höggum. Nú sækja þeir Eyjólfur að fast og frændur hans; þeir sáu að þar lá við sæmd þeirra og virðing. Leggja þeir þá til hans með spjótum svo að út falla iðrin en hann sveipar að sér iðrunum og skyrtunni og bindur að fyrir neðan með reipinu.

Þá mælti Gísli að þeir skyldu bíða lítt það, "munuð þér nú hafa þau málalok sem þér vilduð." Hann kvað þá vísu:

Fals hallar skal Fulla
fagrleit, sús mik teitir,
rekkilát at rökkum,
regns, sínum vin fregna;
vel hygg ek, þótt eggjar
ítrslegnar mik bíti;
þá gaf sínum sveini
sverðs minn faðir herðu.

Sjá er hin síðasta vísa Gísla. Og jafnskjótt er hann hafði kveðið vísuna hleypur hann ofan af hamrinum og keyrir sverðið í höfuð Þórði, frænda Eyjólfs, og klýfur hann allt til beltisstaðar enda fellur Gísli á hann ofan og er þegar örendur. En þeir voru allir mjög sárir förunautar Eyjólfs. Gísli lét líf sitt með svo mörgum og stórum sárum að furða þótti í vera. Svo hafa þeir sagt að hann hopaði aldrei og eigi sáu þeir að högg hans væri minna hið síðasta en hið fyrsta.

Lýkur þar nú ævi Gísla og er það alsagt að hann hefur hinn mesti hreystimaður verið þó að hann væri eigi í öllum hlutum gæfumaður.

Nú draga þeir hann ofan og taka af honum sverðið, götva hann þar í grjótinu og fara ofan til sjávar. Þá andaðist hinn sjötti maður við sjó niðri. Eyjólfur bauð Auði að hún færi með honum en hún vildi eigi.

Eftir þetta fara þeir Eyjólfur heim í Otradal og andaðist þegar hina sömu nótt hinn sjöundi maður en hinn átti liggur í sárum tólf mánuði og fær bana. En aðrir verða heilir, þeir sem sárir voru, og fengu þó óvirðing. Og er það alsagt að engin hafi hér frægari vörn veitt verið af einum manni svo að menn viti með sannindum.

 
— úr Gísla sögu Súrssonar[1]

Samkvæmt sögunni var því Gísli dysjaður í urðinni undir Einhamri. Árið 1930 létu Arnfirðingar höggva þessa rúnaáletrun á Einhamar: „Minning um Gísla Súrsson óg Auði konu hans. 1930".

Tryggvi Magnússon listmálari hjó letrið í drekamunstri og innan í mynd af vopnum Gísla, sverði, öxi og skildi.[2]

Gísla saga Súrssonar

Geirþjófsfjörður

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]