Fara í innihald

Auður Vésteinsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Auður Vésteinsdóttir (10. öld) var kona Gísla Súrssonar. Hún var dóttir Vésteins Végeirssonar og Hildar Bjartmarsdóttur, konu hans. Auður og Gísli bjuggu fyrst á Sæbóli í Haukadal í Dýrafirði, síðan á Hóli í Haukadal og loks í Geirþjófsfirði. Þeim varð ekki barna auðið en ólu upp fósturdóttur sem hét Guðríður.

Auður var systir Vésteins Vésteinssonar, sem sagan gefur í skyn að Þorkell, bróðir Gísla hafi drepið. Fyrir það morð drap Gísli hins vegar Þorgrím goða, sem var mágur hans, giftur Þórdísi Súrsdóttur. Fyrir það varð Gísli sekur og var hann lengur í sekt en nokkur annar maður á ÍslandiGretti Ásmundarsyni frátöldum.

Börkur hinn digri var seinni maður Þórdísar og að auki bróðir Þorgríms goða. Hann var því til eftirmála gagnvart Gísla, mági sínum. Börkur fékk Eyjólf gráa bónda í Otradal til að annast málið fyrir sig. Eyjólfur fór til Geirþjófsfjarðar og hafði vissu fyrir því að Gísli færi þar huldu höfði. Fór hann með digran silfursjóð og reyndi að múta Auði til að framselja Gísla. Hún lét líklega í fyrstu og taldi silfrið og sópaði því síðan niður í pyngju. Að því búnu sló hún með silfurpyngjunni svo fast sem hún gat í andlit Eyjólfi, sem fékk miklar blóðnasir af högginu. Las hún honum pistilinn og sagði þá meðal annars: „ ... Engin von var þér þess að eg myndi selja bónda minn í hendur illmenni þínu. Haf nú þetta og með bæði skömm og klæki. Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig. En þú munt ekki að heldur fá það er þú vildir.“ Með það hvarf Eyjólfur grái til baka í það skiptið og hafði mikla skömm af för sinni.

Eftir dráp Gísla fór Auður ásamt Gunnhildi mágkonu sinni (ekkju Vésteins) til Danmerkur og tóku þær kristna trú í Heiðabæ (Hedeby, þá í Danmörku en nú í Þýskalandi). Fóru þær síðan í suðurgöngu til Rómar og komu aldrei til baka. Ekkert er vitað um ævilok þeirra.