Gjallgígur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eldgos á Fimmvörðuhálsi 2010
Kerið

Gjallgígur og klepragígur eru algengastir eldstöðva á Íslandi.[1] Þeir myndast í blandgosum (úr hraungosum og sprengigosum).[2]

Þeir liggja gjarnan í röðum, svokölluðum gígaröðum, á gossprungum þar sem jarðeldur kemur aðeins upp einu sinni. Þekktasta dæmið eru gígaraðirnar á Lakasvæðinu.[1]

Lögun[breyta | breyta frumkóða]

Hver gígur er frá því að vera 5-10 m á hæð upp í það að rísa fáeina tugi eða jafnvel 100-200 metra yfir umhverfi sitt. (sbr. Eldfell á Heimaey).

Gígaröðin er oftast slitrótt, þ.e. sést sem röð af sprunguhlutum og er hver hluti jafnan hliðraður miðað við þann næsta.[1]

Gjallgígar eru lausir í sér og fremur reglulega lagaðir og hafa þá lögun keilu eða haugs (t.d. Rauðamelskúlur). Klepragígar, sem eru mjög líkir hinum, eru fastari fyrir og þar mynda hraunkleprarnir kleggja og klif, enda verða gígarnir flestir ólögulegir og hnúskóttir (t.d. gígarnir við Leirhnjúk á Kröflusvæði). Gígarnir eru líka mjög oft skeifulaga vegna þess að hraunrennsli heldur opinni rás frá gosopinu og þar rís ekki veggur úr gjalli eða kleprum (sbr. Stóra-Grábrók). [1]

Hins vegar er líka algengt að gígarnir í röðum séu einhvers konar blanda af báðum fyrirbærunum, semsagt blanda gjall- og klepragíga.[1]

Gos[breyta | breyta frumkóða]

Efnið sem kemur upp í sprungugosum gjall- og klepragíga er basalt.En til þess að einmitt slíkir gígar myndist þarf basaltið að vera af nokkru seigari og þróaðri tegund en mest þunnfljótandi og frumstæðasta basaltið, sem leiðir til myndunar eldborga eða dyngja.[1]

Eldgosið atast með mestum krafti fyrstu klukkustundirnar eða dagana. Misháir kvikustrókar standa þá upp úr gossprungunum. Algeng hæð kvikustrókanna er 50-100 m, en þeir geta líka verið allt upp í 1000 m háir. Því aflmeiri - og hér er ekki síst átt við gasinnihald – sem strókurinn er, þeim mun meira af gjósku sáldrast úr honum. [1]

Í flestum tilvikum dregst gosvirknin fljótlega nokkuð saman. Kvikan gusast upp í aðgreindum strókum og grófa efnið úr þeim sest til utan um hvern strók, nær að loða saman og byggir upp gígveggi og -rima úr hálfbráðnu efni.[1] *Svoleiðis byggist gígurinn upp á meðan gosið er í gangi. Í gígveggjunum eru líka skörð sem hraunið rennur út um.[2]

Kerið í Grímsnesi[breyta | breyta frumkóða]

Alllengi var talið að Kerið í Grímsnesi væri sprengigígur en komið hefur komið ljós að svo er ekki.

Kerið er gjallgígur sem nær niður að grunnvatnsborði. Á gígveggnum innanverðum má sjá hraunsletturnar sem runnið hafa saman í lög og linsur.[3]

Kerið er 5000-6000 ára gamalt.[3] Á þeim tíma gæti grunnsvatnsborðið á þessum stað einfaldlega hafa verið lægra en núna.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 Ari Trausti Guðmundsson, Ragnar Th. Sigurðsson: Íslenskur jarðfræðilykill. Reykjavík, Mál og Menning, 2004
  2. 2,0 2,1 http://www.ismennt.is/not/helgahe/lokaverkefni/Eldfjoll.htm Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine Ismennt; skoðað: 30.10.2015
  3. 3,0 3,1 http://www.visindavefur.is/svar.php?id=5681 Vísindavefurinn; skoðað: 30.10.2015

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Haugur úr gjalli við Leirhnjúk
Gjall