Egils saga
Egils saga, eða Egla er ein elsta Íslendingasagan. Aðalpersóna hennar er Egill Skallagrímsson, 10. aldar höfðingi, vígamaður, sjóræningi og ljóðskáld.
Egla kom fyrst út í prentaðri útgáfu árið 1782. Sagan er ekki síst þekkt fyrir þann mikla forna skáldskap sem hún hefur að geyma. Mörg afrit af handriti Eglu hafa verið rituð eftir 13. öldina en einungis tvö þeirra, frá 19. öld, eru varðveitt í Landsbókasafninu. Eldri afrit en frá árinu 1700 eru geymd í erlendum bókaskemmum.
Egils saga er ólík öðrum Íslendingasögum að því leyti að hún gerist að mestu annars staðar en á Íslandi. Sagan hefst í Noregi þar sem segir frá Kveldúlfi afa Egils, Skallagrími föður hans og Þórólfi föðurbróður hans. Eftir víg Þórólfs fóru þeir feðgar til Íslands. Kveldúlfur andaðist í hafi en Skallagrímur varð einn fyrsti landnámsmaðurinn. Egill fæddist og ólst upp á Borg á Mýrum, þar sem hann varð strax í æsku mikið skáld og bardagamaður. Egill ferðaðist víða um Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin og England. Hann átti í deilum við jafnt merka sem ómerka menn. Hann var einn fárra víkinga sem náði háum aldri og í sögulok deyr hann á Mosfelli hjá stjúpdóttur sinni Þórdísi. Þá var komið undir lok 10. aldar.
Með hinstu orðum sínum[1] minntist Egill á laug þegar hann mælti: „Vil eg fara til laugar“.[2]
Ef trúa má þeirri frásögn að hann hafi sjö ára að aldri orðið andstæðing sínum í knattleik að bana er ekki ósennilegt að hann eigi Íslandsmet sem yngsti manndrápari Íslandssögunnar og er á hann minnst í þessu tilliti í Íslandsmetabók.
Höfundur Egils sögu
[breyta | breyta frumkóða]Segja má að höfundaleysi sé eitt höfuðeinkenna Íslendingasagna, fræðimönnum til þónokkurrar armæðu, og þar er Egils saga ekki undanskilin. Lengi hafa fræðimenn þó talið, að Snorri Sturluson hafi verið höfundur sögunnar. Fyrstur manna til þess að bendla Snorra við Egils sögu var danski bókmenntafræðingurinn Svend Grundtvig og kastaði hann þeirri hugmynd fram í byrjun 19. aldar. Árið 1904 birti Björn M. Ólsen ritgerð um höfund Egils sögu í Aarböger og taldi hann sterkar líkur á því að Snorri hafi með réttu verið höfundur sögunnar. Þá taldi Sigurður Nordal prófessor og fyrrum sendiherra, að Egils saga hafi verið rituð af Snorra einhvern tímann á árunum 1220-1235 á meðan hann dvaldi í Reykholti, ólíkt skoðun Bjarnar M. Ólsen sem taldi að Snorri hafi skrifað söguna á meðan hafði bú að Borg á Mýrum fyrir árið 1206.
Eitt og annað
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Grunnvíkingur var til þess fenginn að leggja mat á Íslendingasögur, hvort þýða skyldi á dönsku og prenta síðan. Hann sagði um Eglu: Má translaterast, en ei þrykkjast. Nóta, hversu svívirðilega Agli fórst við sinn merkilega vin og Wohltäter [velgjörðamann], Arinbjörn.[3]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Læknablaðið- Heitar laugar á Íslandi til forna
- ↑ Egils saga á Snerpu
- ↑ Morgunblaðið 1990
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Egils saga Skalla-Grímssonar
- Egils saga
- Egils saga, ásamt þýðingum Geymt 27 desember 2007 í Wayback Machine
- Sverðin þrjú; grein í Morgunblaðinu 1993
- Sagan af Agli Skallagrímssyni gefin út í Hrappsey 1782
- Torfi Tulinius, Um margræðni í Egils sögu, Skírnir, 1. tölublað (01.04.1994), Blaðsíða 109