Fara í innihald

Keila (fiskur)

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Brosme)
Keila
Keila á færeysku frímerki
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Þorskfiskar (Gadiformes)
Ætt: Vatnaflekkaætt (Lotidae)
Ættkvísl: Brosme
Tegund:
B. brosme

Tvínefni
Brosme brosme
(Peter Ascanius, 1772)
Útbreiðsla keilu sýnd með bláum lit.
Útbreiðsla keilu sýnd með bláum lit.

Keila (fræðiheiti: Brosme brosme) er nytjafiskur af vatnaflekkaætt, sem er ný ætt, en tilheyrði áður þorskaætt. Hún lifir í Norður-Atlantshafi bæði austan og vestan megin við Ísland. Keilan er löng, með sívalan bol, einn bakugga eftir endilöngu bakinu og einn langan raufarugga, sem báðir eru með einkennandi dökkri rönd yst og hvítum jaðri, auk eyrugga og kviðugga. Sporðurinn er lítill og hringlaga. Hún er með skeggþráð á neðri vör sem skagar eilítið fram fyrir þá efri og rönd eftir bolnum endilöngum. Roðið er þykkt og hreistrið smátt. Hún er móleit á lit sem fer frá rauðbrúnu og yfir í gulbrúnan eftir umhverfi. Yngri fiskar eru með sex ljósar þverrákir á síðunni.

Heimkynni, næring og vöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Keilan finnst beggja vegna Norður-Atlantshafsins, við Nýfundnaland og suðurodda Grænlands. Helstu keilumiðin eru við strendur Íslands (út frá Austfjörðum og Snæfellsnesi, á Reykjaneshrygg, við Svalbarða, meðfram strönd Noregs allt frá Múrmansk, norðan við Bretlandseyjar og við Færeyjar. Hún finnst líka í Skagerrak og Kattegat en er sjaldséð þar.

Keila er botnfiskur sem heldur sig við grýttan botn í 0-10° heitum sjó á 20-1000 metra dýpi þar sem hún syndir dreift eða í litlum hópum. Hún lifir aðallega á krabbadýrum, litlum botnfiskum og jafnvel krossfiskum. Hún hrygnir tveimur milljónum hrogna í apríl-júlí sem klekjast út eftir tíu daga. Seiðin eru sviflæg og berast með öðru svifi langt út á haf. Þegar fiskurinn er orðinn um 5 sm langur syndir hann djúpt niður á botn. Við Ísland hrygnir keilan við brún landgrunnsins í 5-9° heitum sjó undan Suður- og Suðvesturlandi, en uppeldisstöðvar hennar virðast vera við Norður- og Austurland. Mikilvægustu hrygningarstöðvar keilunnar eru á landgrunni Íslands, Færeyja og Hjaltlandseyja. Keilan er seinvaxta og verður ekki kynþroska fyrr en átta til tíu ára gömul. Þá er hún hálfur metri á lengd og vegur 1-2 kg. Fullvaxin getur hún orðið yfir metri á lengd en í afla er hún oftast 40-75 sm og 0,5-3 kg. Stærsta keilan sem veiðst hefur við Ísland (og líklega í heiminum) var 120 sm á lengd. Hún er talin geta orðið allt að 40 ára gömul.

Helstu óvinir keilunnar eru selur og hákarl og aðrir ránfiskar: þorskur, langa og skata. Hringormar geta tekið sér bólfestu í kjöti keilunnar.

Veiðar og nytjar

[breyta | breyta frumkóða]
Næringargildi í 100g:[1]
Vatn: 76,4 - 81,9g
Prótein: 16,1 - 19,0g
Fita: 0,2 - 3,8g
Ómega-3: 0,1- 1,3 mg,
Orka: 66-82 kcal.

Keilan er vinsæll matfiskur og líkt og aðrir þorskfiskar er hún með hvítt kjöt. Kjötið af keilunni er mjög þétt, fíngert og magurt miðað við kjöt af þorski. Bragðið er sætt og minnir eilítið á humar. Fyrr á öldum var keilan yfirleitt kæst á Íslandi og þótti ekki sérlega góð til matar þótt hún væri eftirsótt víða í Evrópu. Hugsanlega eimir enn eftir af þessu viðhorfi á Íslandi þar sem keila er sjaldgæf í fiskborðum og hlutfallslega ódýr fiskur. Í Noregi og Svíþjóð er keilan eftirsótt söltuð og kæst, en hún er líka borin fram reykt, soðin eða steikt.

Helst eru það Norðmenn, Íslendingar og Færeyingar sem veiða keilu og þá aðallega á línu sem aukaafla með öðrum fiski, en stundum slæðist hún í botnvörpur. Í Maine-flóa er hún líka veidd á sjóstöng af sportveiðimönnum. Veiðar á Keilu voru litlar við Ísland fram til 1950 en þá jókst veiðin úr 2000 tonnum að jafnaði í 6000 tonn en náði hámarki 1960 þegar yfir 10.000 tonn veiddust á Íslandsmiðum. Farið var að veiða keiluna skipulega um 1990 og mikilvægi hennar jókst samfara minnkandi þorskafla. Frá sama tíma hafa mælingar bent til minnkandi stofns og undanfarin ár hefur verið mælt með 3.500 tonna veiði á ári.

Heildarafli frá 1950 til 2003 samkvæmt tölum frá FAO

Heildarafli í heiminum var tæp 22 þúsund tonn árið 2003, en var mestur yfir 50 þúsund tonn árið 1980 sem bendir til þess að ofveiði hafi skaðað stofninn, en ekki er vitað hversu stór heildarstofninn er. Af stofnmælingum Hafrannsóknarstofnunar Íslands að dæma hefur vísitala veiðistofns lækkað frá 1990 en fer hækkandi frá því um 2001 sem gefur tilefni til að ætla að stofninn sé í hægum vexti.[2] Norðmenn veiða langmest af keilu í heiminum, eða 65% af heildaraflanum, en Íslendingar fylgja þar á eftir[3]. Mest af því sem veiðist af keilu er saltað til útflutnings, en lítill hluti er frystur. Keila er ekki á rauða lista IUCN yfir tegundir í hættu, en hún er skráð af bresku samtökunum Marine Conservation Society sem fiskur sem neytendur ættu að forðast að kaupa vegna hættu á ofveiði[4].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Andersson, Kent, „Lubb“. Sótt 11. apríl 2006.
  2. „Nytjastofnar sjávar 2004/2005 - aflahorfur 2005/2006“ (PDF). Sótt 11. apríl 2006.
  3. „FIGIS - FAO/SIDP Species Identification Sheet: Brosme brosme“. Sótt 11. apríl 2006.
  4. „Fishonline.org - Tusk“. Sótt 11. apríl 2006.

Aðrar heimildir

[breyta | breyta frumkóða]