Urriðafossvirkjun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Urriðafoss í Þjórsá

Urriðafossvirkjun er fyrirhuguð virkjun við Urriðafoss í neðri hluta Þjórsár. Virkjunin var fyrst á teikniborðinu árið 1928, en vegna fjárskorts var ekki farið út í framkvæmdir.[1] Urriðafossvirkjun var aftur komin á teikniborðið árið 2007, en var mjög umdeild.[2] Fyrirhuguð virkjun yrði u.þ.b. 130 MW að afli og orkugeta virkjunarinnar yrði allt að 980 GWh/ári. Framkvæmdaraðili yrði Landsvirkjun.[3]

Um framkvæmdina[breyta | breyta frumkóða]

Virkjunin[breyta | breyta frumkóða]

Urriðafossvirkjun er ein þriggja vatnsaflsvirkjana sem fyrirhugað er að reisa í neðri hluta Þjórsár. Gangi áætlanir eftir verður hún þeirra stærst, 130 MW að afli og verður orkugeta hennar 980 GWh/ári. Nafn virkjunarinnar kemur frá Urriðafossi í Þjórsá. Gert er ráð fyrir að inntakslón virkjunarinnar, Heiðarlón, verði myndað með stíflu í Þjórsá við Heiðartanga og stíflugörðum á vesturbakka árinnar. Einnig er gert ráð fyrir að inntaksmannvirki verði í Heiðartanga og stöðvarhús verði neðanjarðar nærri Þjórsártúni. Frárennslisgöng munu liggja frá stöðvarhúsinu og opnast út í Þjórsá neðan Urriðafoss.[4]

Vatnasvið Þjórsár er um 7.600 km2 að stærð og er meðalrennsli árinnar 344 m3/sek. Virkjað rennsli verður 370 m3/sek. Áætluð hæð Heiðarlóns er 50 m.y.s. og mun stærð lónsins við þá hæð vera um 9 km2. Heildarlengd á stíflum og görðum verður um 7.600 m og verður mesta hæð þeirra 11 m. Stöðvarhúsið sjálft verður neðanjarðar og verður það 62 m að lengd, 16,3 m að breidd og 48 m langt. Mun stöðvarhúsið innihalda tvær 65 MW Kaplan vatnsvélar. Fallgöng verða tvö og verða hvor göngin 50 m löng og 7 m breið. Þá verða reist um 3000 m frárennslisgöng, 17 m há og 13,5 m breið. Virkjað fall verður 40,6 m.[5]

Áhrifa gætir víða[breyta | breyta frumkóða]

Framkvæmdasvæði virkjunarinnar mun ná til fjögurra hreppa í tveimur sýslum. Í Árnessýslu fellur svæðið undir Flóahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Í Rangárvallasýslu tilheyrir það Ásahreppi og Rangárþingi ytra. Um 20 kílómetrar eru í næstu þéttbýlisstaði beggja vegna Þjórsár og Þjóðvegur nr. 1 liggur um neðri hluta framkvæmdasvæðisins, því má segja að framkvæmdasvæðið sé í alfaraleið. Helsta landnotkun á framkvæmdasvæði er landbúnaður og kemur fyrirhugð framkvæmd til með að hafa áhrif á um 20 jarðir. Náttúrufar er fjölbreytt innan framkvæmdasvæðisins en áhrifa mannsins gætir þar víðast hvar og nokkur röskun hefur þegar orðið. Gróðurfar er nokkuð fjölbreytt á svæðinu og votlendi er að finna á nokkrum stöðum innan þess. Á svæðinu eru einnig eldhraun (Þjórsárhraunið mikla), strengir og flúðir í Þjórsá og heitar laugar en engin friðlönd eða friðlýst náttúruvætti. Fuglalíf er nokkuð fjölbreytt á svæðinu og sambærilegt við önnur lík svæði á Suðurlandi, eru mófuglar þar í meirihluta. Einnig er nokkuð um fornleifar á fyrirhuguðu virkjanasvæði og eru nokkrar þeirra taldar hafa hátt minjagildi.[6]

Framkvæmdir tengdar virkjuninni[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir utan þær framkvæmdir sem tilheyra virkjuninni sjálfri þurfa aðrar framkvæmdir einnig að eiga sér stað svo virkjunin starfi eins og áætlanir gera ráð fyrir. Ís- og krapamyndun í Þjórsá getur haft óæskileg áhrif og til að sporna við því er ætlunin að dýpka farveg árinnar á um 3 km kafla ofan Heiðarlóns, upp undir Árnessporð. Einnig þarf að leggja vegi að helstu mannvirkjum og athafnasvæðum. Ekki er gert ráð fyrir að nýjar námur verði opnaðar vegna virkjunarinnar þar sem jarðvinna í tengslum við framkvæmdina sjálfa muni sjá fyrir nægjanlegu efni. Umframefni verður komið fyrir á landi.[7] Einnig er gert ráð fyrir að flutningskerfi Landsvirkjunar verði nýtt til orkuflutninga en það krefst breytinga á Búrfellslínu 2 sem liggur í næsta nágrenni við fyrirhugaða Urriðafossvirkjun.[8]

Teikning frá 1918 eftir Gottfred Sætersmoen sem sýnir mögulega útfærslu Urriðafossvirkjunar.

Títan-félagið hyggur á virkjun[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndir um virkjun neðri hluta Þjórsár hafa verið til allt frá fyrri hluta 20. aldar. Árið 1928 veitti Alþingi atvinnumálaráðherra heimild til að leyfa Títan-félaginu norska að reisa 112 MW raforkuver við Urriðafoss, leggja þaðan háspennulínu og járnbraut til Reykjavíkur og reisa þar verksmiðju til framleiðslu á köfnunarefnisáburði. Heimild Alþingis var bundin því skilyrði að framkvæmdir væru hafnar 1. júlí 1933. Að öðrum kosti félli hún niður. Framkvæmdir voru ekki hafnar þá og því féll heimildin niður. Aðalorsök þess að menn hófust ekki handa var annars vegar heimskreppan og hins vegar ný tækni til framleiðslu köfnunarefnisáburðar sem ekki byggðist á raforku.[9]

Virkjunaráform Landsvirkjunar[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf og undirbúningur[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum var ljóst í upphafi að meta þyrfti umhverfisáhrif fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar þar sem uppsett afl hennar yrði meira en 10 MW.[10] Í ágúst 2001 lagði Landsvirkjun fram tillögu að matsáætlun. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var á þá leið að fallist var á tillöguna með athugasemdum.[11]

Er ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir hófst vinna við gerð matsskýrslunnar og lauk þeirri vinnu sumarið 2003 þegar skýrslunni var skilað til Skipulagsstofnunar til athugunar. Í ágúst 2003 úrskurðaði Skipulagsstofnun í málinu og féllst á framkvæmdina með skilyrðum. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður og í apríl 2004 lá fyrir úrskurður umhverfisráðherra sem staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar með viðbótarskilyrðum.[12][13]

Enn er unnið að undirbúningi[breyta | breyta frumkóða]

Miklar deilur hafa staðið um framkvæmd Urriðafossvirkjunar og annarra fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Hefur ágreiningur milli hagsmunaðila haft mikil áhrif á framgang undirbúningsvinnunnar. Landsvirkjun mun halda áfram undirbúningi vegna virkjananna auk þess sem beðið er niðurstöðu Rammaáætlunar sem fjallar um virkjanakosti í Neðri-Þjórsá.[14]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Fossafélagið Títan. Landsvirkjun - Nýjar virkjanir á Suðurlandi. http://www.thjorsa.is/category.aspx?catID=42 Geymt 14 júlí 2007 í Wayback Machine. Skoðuð 05.04.2011
 2. „Mótmæla Urriðafossvirkjun - Vísir“. visir.is. 20. júní 2007. Sótt 1. september 2023.
 3. Virkjanir í Þjórsá[óvirkur tengill]. Landsvirkjun. Skoðuð 06.04.2011
 4. Urriðafossvirkjun. Landsvirkjun - Nýjar virkjanir á Suðurlandi. http://www.thjorsa.is/category.aspx?catID=12 Geymt 22 júlí 2011 í Wayback Machine. Skoðuð 05.04.2011
 5. Virkjunin í tölum. Landsvirkjun - Nýjar virkjanir á Suðurlandi. http://www.thjorsa.is/category.aspx?catID=39 Geymt 14 júlí 2007 í Wayback Machine. Skoðuð 06.04.2011
 6. Framkvæmdasvæðið. Landsvirkjun - Nýjar virkjanir á Suðurlandi. http://www.thjorsa.is/category.aspx?catID=38 Geymt 14 júlí 2007 í Wayback Machine. Skoðuð 06.04.2011
 7. Tengdar framkvæmdir. Landsvirkjun - Nýjar virkjanir á Suðurlandi. http://www.thjorsa.is/category.aspx?catID=46 Geymt 14 júlí 2007 í Wayback Machine. Skoðuð 06.04.2011
 8. Urriðafoss - Mat á umhverfisáhrifum: Matsskýrsla. http://thjorsa.is/files/Mau_URR_matsskyrsla.pdf[óvirkur tengill]. Skoðuð 06.04.2011
 9. Lesbók Morgunblaðsins 2008, 20.09.
 10. Lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Alþingisvefurinn. Skoðað 06.04.2011
 11. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun. Skipulagsstofnun. http://www.skipulagsstofnun.is/focal/webguard.nsf/5ed2a07393fec5fa002569b300397c5a/b118f6280da9be8b00256e29005d7951/$FILE/2001010072.PDF[óvirkur tengill]. Skoðað 07.04.2011
 12. Mat á umhverfisáhrifum: Urriðafossvirkjun. Skipulagsstofnun. http://www.skipulagsstofnun.is/focal/webguard.nsf/key2/sasn5vmn6d.html[óvirkur tengill]. Skoðað 06.04.2011
 13. Úrskurður umhverfisráðherra. Skipulagsstofnun. http://www.rettarheimild.is/Umhverfis/UrskurdirRaduneytisins/2004/04/29/nr/1647. Skoðuð 07.04.2011
 14. Landsvirkjun í biðstöðu. Fréttavefur Morgunblaðsins mbl.is, frétt frá 11.02.2011. http://feeds.mbl.is/frettir/innlent/2011/02/11/landsvirkjun_i_bidstodu/. Skoðað 07.04.2011

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]