Fara í innihald

Hrauneyjafossvirkjun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hrauneyjafossstöð)

Hrauneyjafossvirkjun er vatnsaflsvirkjun staðsett á Sprengisandsleið í jaðri hálendisins. Hún var reist á árunum 1977-1981. Virkjunin er vatnsaflsvirkjun og nýtir 88 m vatnsfall við Hrauneyjar. Hrauneyjafossvirkjun var fyrst tekin í notkun árið 1981 og var þá 150 MW, árið 1990 fékk iðnaðarráðherra heimild til að stækka virkjunina upp í 280 MW og er hún þriðja stærsta raforkuvirkjun landsins í dag. Virkjunin tekur vatn úr Tungnaá og Þórisvatni, með dragár-, jökulár- og lindárinnrennsli. Inni í virkjuninni eru þrjár 70 MW vélasamstæður. Fyrsta vélin var tekin í notkun 28. október 1981, vél númer tvö 21. janúar 1982 og þriðja vélin 1. desember 1982. Vélarnar þrjár eru af gerðinni Francis með lóðrétta öxla.

Fremur lágreist jarðvegsstífla teygir sig eftir hraunflákunum á suðurbakka árinnar. Um eins kílómetra langur aðrennslisskurður liggur frá lóninu í norður um lægð í Fossöldu að inntaki við norðurbrún öldunnar. Þaðan liggja þrjár stálpípur (4,8 m í þvermál) 272 m niður hlíðina að stöðvarhúsi. Frárennslisskurður er rúmlega eins kílómetra langur og liggur út í Sporðöldukvísl sem síðan rennur í Tungnaá. Tengivirki stöðvarinnar er innan dyra í stöðvarhúsinu og er það einangrað með gasi.

Suðurhluti Íslands
Hrauneyjafoss

Tungnaá er stífluð á fremur flötu landi um 1,5 km ofan við Hrauneyjafoss og um 5 km neðan við Sigöldustöð. Hæðarmunurinn er þar á milli um 15 m. Við stífluna myndast 8,8 km² dægurmiðlunarlón.

Jarðlög og umhverfi

[breyta | breyta frumkóða]

Jarðlög virkjunarstaðarins við Hrauneyjafoss eru öll mynduð í eldgosum. Jarðlögin skiptast í tvær myndanir. Móberg, bólstraberg og jökulberg frá jökultímanum annars vegar og hraun runnin á eftir jökultíma hins vegar.

Stífla og lón verður að mestu á hrauni en önnur mannvirki á eða í móbergsmyndun

Hrauneyjafossvirkjun er í nágrenni við nokkrar af helstu náttúruperlum hálendis Íslands eins og Landmannalaugar, Þjórsárdal, Heklu, Sprengisand, Veiðivötn og Fjallabak. Virkjunin er um það bil 150 km frá Reykjavík og hefur Landsvirkjun lagt bundið slitlag á vegi þar á milli. Í nágrenni við virkjunina er Hálendismiðstöðin en hún er seinasti áningastaðurinn áður en haldið er upp á hálendi Íslands. Aðgengi að hálendinu ofan virkjunarinnar er talið hafa breyst mikið með tilkomu hennar og þess vegna er talið að hún hafi jákvæð áhrif á útivist og ferðamennsku á þessi svæði.

Landsvirkjun annaðist uppgræðslu í kringum Hrauneyjarfossstöð frá árinu 1979–1994, notast var við grastegundina túnvingul. Talið er að markmiðum hafi verið náð hvað varðar heftingu sandfoks og fegrun á umhverfi starfsfólks virkjunarinnar.

Búðarhálsvirkjun virkjar um 40 metra fall í Tungnaá milli Hrauneyjafossvirkjunar og Sultartangavirkjunar. Lón, Sporðöldulón, myndast þegar frárennslisfarvegur neðan Hrauneyjafossvirkjunar og Köldukvíslar stíflast. Lónið getur nýst til skammtímamiðlunar.