Fara í innihald

Príor

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Príor (titill))

Príor (úr latínu hinn fyrsti, sá fremsti) var embættistitill í kaþólskri munkaklausturshefð. Upphaflega var það notað í elstu klausturreglunni, Benediktsreglu, um forstoðumann klausturútibús sem var undirmaður ábóta aðalklaustursins. Síðar var hugtakið einnig notað um aðstoðarmann abóta. Að jafnaði var ábóti æðsti maður klausturs af Benediktsreglu og príor er næstur ábóta að tign.

Í reglu dómeníkana var yfirmaður klaustursins nefndur príor og samsvaraði þar með ábóta.

Í klaustrum af Ágústínusarreglu voru munkarnir prestvígðir, og átti forstöðumaðurinn að vera fremstur meðal jafningja. Var hann kallaður præpositus og síðar príor. Klaustrin voru þá undir yfirstjórn biskups, sem fór með ábótavaldið, og voru munkarnir þá jafnframt prestar í þjónustu biskupsdæmisins. Þetta átti t.d. við um Möðruvallaklaustur í Hörgárdal, þar fór Hólabiskup með ábótavaldið og hafði príor sem umboðsmann sinn á klaustrinu. Að jafnaði var miðað við að príor tæki engar meiriháttar ákvarðanir án samráðs við yfirmann sinn.

Samsvarandi titill í nunnuklaustri var príorissa eða príorína, sem var næst undir abbadís að tign, og gat stýrt klaustrinu tímabundið í umboði hennar.

  • Gunnar F. Guðmundsson: Kristni á Íslandi II; Reykjavík 2000, bls. 212-213.