Fara í innihald

Síðpönk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Síð-pönk)

Síðpönk (e. post-punk) er rokktónlistarstefna sem átti upptök sín á seinni hluta áttunda áratugar tuttugustu aldar. Hún var ein af þeim mörgu tónlistargreinum sem spruttu út frá pönkbyltingunni árið 1977. Fyrstu síðpönk hljómsveitirnar sóttu innblástur sinn í hráa hljóm pönksins en í stað þess að reyna að herma eftir honum fóru þær að skapa tilraunakenndari hljóm, oft með áhrifum frá raftónlist, krátrokki, fönki, dubtónlist og tilraunakenndu rokki. Greinin var ólík hliðstæðu sinni, svokallaðri nýbylgjutónlist, á þann hátt að síðpönkið fjallaði oftar um alvarlegri málefni og var ekki eins „poppvænt“. Síðpönkið varð síðan með helstu forverum öðruvísi rokks á níunda áratugnum.[1] Klassísk dæmi um flytjendur síðpönk tónlistar eru Joy Division, New Order, The Cure, Talking Heads, Public Image Ltd., Echo & the Bunnymen og tónlistarmaðurinn Nick Cave.[2]

Stíleinkenni[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðgervill.

Síðpönkið var listrænna og dulúðlegra heldur en pönkið og er almennt talið tónlistarlega séð útpældara. Stefnan hafði minna að gera með rokk og ról heldur stóð í þakkarskuld við tilraunakennda tónlist sjöunda áratugarins. Í heildina séð var bandarískt síðpönk listrænt sjálfsmeðvitaðra og vitsmunalegra heldur en það breska, en það var yfirleitt drungalegra og tilfinningaríkara. Fyrsta bylgja breska síðpönksins bar með sér sveitirnar Gang of Four, Siouxsie & the Banshees og Joy Division sem voru allar stofnaðar vegna innblásturs frá pönksveitum á borð við Sex Pistols. En í stað þess að líkja eftir uppreisnargjarni reiði pönksins þá tóku þær reiðina inn á sig og sköpuðu innhverfari og þungbúnari hljóma sem voru fullir af spennu og kvíða. Siouxsie & the Banshees gáfu út plötur sem einkenndust af hrjáróma hljómborðum og fluttu tilgerðarmikla tónleika sem minntu alla helst á pönkið. Joy Division voru ekki talin eins listsnobbuð hljómsveit, en plötur þeirra Unknown Pleasures og Closer lögðu hornstein fyrir gotneskt rokk, undirstefnu sem The Cure og Bauhaus urðu seinna þekktar fyrir. The Cure spilaði upprunalega nokkuð hrjúfa og grípandi tónlist en þegar leið á ferilinn hægðist á töktum þeirra og notkun hljóðgervla varð meira áberandi. Svo átti vinstri sinnuð pólitík og fönktaktar Gang of Four eftir að hafa mikil áhrif á komandi tónlist þrátt fyrir að hafa ekki náð mikilli útbreiðslu í byrjun.

Síðpönkið lagði grundvöllinn fyrir öðruvísi rokk með því að víkka svið pönktónlistar. Innblástur var sóttur frá krátrokkinu og varð til þess að notkun hljóðgervla varð mjög vinsæl innan greinarinnar. Áhersla var lögð á hrá eða drungaleg hljóð, samtvinnuð með áhrifum frá fönki, avant-garde og dubtónlist. Nýsýrurokkið var einnig algengur áhrifavaldur og með helstu frumkvöðlum á því sviði má nefna Echo & the Bunnymen, The Teardrop Explodes[3] og Spacemen 3.[4] Sumar sveitir eins og Orange Juice nálguðust þessa tónlist á aðeins öðruvísi hátt, áhersla var lögð á léttari gítarhljóð en þrátt fyrir það kollvörpuðu lögin oft hefðbundinni byggingu popp/rokktónlistar með dýpri og dimmari lagatextum.[5] Einnig mátti heyra áhrif djasstónlistar hjá nokkrum þessara sveita og voru The Monochrome Set fylgismenn Cantenburysenunnar.[6]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Á meðan fyrsta bylgja pönksins stóð yfir, frá um 1975-1977, fóru hljómsveitir eins og Sex Pistols, The Clash og Ramones að ögra ríkjandi stílvenjum rokktónlistar með áherslum á hraðari takta og árásargjarnari hljóma. Með pólítískum eða uppreisnagjörnum lagatextum breiddist þessi hugmyndafræði svo um heiminn og náði mestu fylgi í enskumælandi löndum eins og Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu, en líkt og víðar myndaðist einnig áberandi pönksena á Íslandi. Breska pönkið var síðan dregið inn í klofin stjórnmál samfélagsins og það mætti segja að um 1979 hafði það eytt sjálfu sér með því að skiptast í nýjungagjarnari stefnur. Áhrifa pönks hefur þó gætt í tónlistariðnaðinum allar götur síðan, til dæmis með útbreiðslu sjálfstæðra plötufyrirtækja sem setti einmitt svip sinn á framvindu síðpönksins.[7] Það að söngvari Sex Pistols, John Lydon, var orðinn leiður á sviðspersónu sinni Johnny Rotten, ásamt því að hafa orðið fyrir vonbrigðum með framþróun pönksins, varð til þess að sveitin hætti störfum árið 1978. Lydon stofnaði þá nýrri og nokkuð fágaðari hljómsveit, Public Image Ltd., sem opnaði gáttir fyrir tilraunastarfsemi síðpönksins.[8]

Fyrir marga tónlistarmenn markaði pönkbyltingin hvarf frá tónlistarlegum hefðum og takmörkunum og tíðarandinn var þannig að hver sem er gat skapað tónlist ef viljinn var fyrir hendi. Margir nýttu sér þá tækifærið til þess að vera ögrandi og þar með var lagður grundvöllur fyrir harðkjarnapönkið. Aðrir túlkuðu þessa byltingu sem leið til þess að láta reyna á takmörk tónlistargerðar, síðpönkið kom fram á sjónarsviðið. Upphaflega voru flytjendur þess flokkaðir sem hluti nýbylgjunnar en það kom fljótt í ljós að um tvær mismunandi stefnur væri að ræða. Síðpönksveitirnar voru yfirleitt nýjungagjarnari og meira ögrandi. Svo náðu þær heldur sjaldan eins mikilli útbreiðslu og nýbylgjusveitirnar þar sem þær þóttu ekki nógu „poppvænar“ og einblíndu ekki aðeins á velgengni. Jafnvel þó þær hafi almennt fengið minni umfjöllun í fjölmiðlum, þá hlutu plötur þeirra oft meiri lof gagnrýnenda. Tvær bandarískar sveitir höfðuðu þó til stærri áheyrendahópa. Önnur var Talking Heads sem spilaði bæði síðpönk og nýbylgjutónlist en jók fjölbreytileika sinn enn frekar með hjálp plötuframleiðandans Brian Eno, hin var Devo sem náði til tónlistarstöðvarinnar MTV með grípandi hljóðgervla pönki og áhugaverðum sjónrænum stíl sínum.[3]

Margar síðpönksveitir voru stuttlífar, þær sem þraukuðu áttu eftir að þróast mikið tónlistarlega séð en sumar héldu áfram í nýjum búningi. Árið 1980 kaus Ian Curtis, söngvari Joy Division, að enda líf sitt aðeins 23 ára að aldri eftir að hafa glímt við síversnandi þunglyndi og flogaveiki. Hljómsveitarmeðlimir höfðu verið miklir frumkvöðlar stefnunnar vegna tilrauna sinna með hljóðgervla og raftrommur. Eftirlifandi meðlimir komu síðan saman undir nýju nafni, New Order, og byrjuðu enn frekar að prófa sig áfram í notkun hljóðgervla og sköpuðu með þeim dansvænni tónlist.[9] Á þessum tíma byrjuðu flestar upprunalegu síðpönksveitirnar að þróast í burtu frá hráum og dulúðlegum hljómum í átt að hreinni tónum. Til dæmis varð ástralska sveitin The Birthday Party að hinni mun stílhreinnari Nick Cave & the Bad Seeds.[10] Svo þegar fylgi skosku sveitarinnar The Wake fór dvíandi gafst hún upp á drungalegu síðpönkinu og fór að beita hljóðgervlum sínum á poppaðari hátt. Þannig fjaraði síðpönkið hægt og bítandi út úr aðal tónlistarsenunni.[11]

Síðpönk á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Þeyr, Purrkur Pillnikk og Tappi Tíkarrass komu allar fram í myndinni Rokk í Reykjavík árið 1982.[12]

Í byrjun níunda áratugarins fór að bera á síðpönk tónlist á Íslandi. Fyrirbærið var einnig kallað depró-pönk og var í mörgum tilfellum erfitt að greina það frá tónlist nýbylgjunnar en sú síðarnefnda náði meiri vinsældum hér á landi. Hljómsveitin Þeyr spilaði þó tónlist í dimmari kantinum og sótti innblástur frá síðpönksveitum á borð við Joy Division. Þeyr tældu áheyrendur ekki fram á dansgólfið, heldur var dulúðleg stemning sköpuð með sterkum trommuleik Sigtryggs Baldurssonar, skerandi gítarhljóðum og andstuttum söngstíl Magnúsar Guðmundssonar. Tónlistin átti það til að láta næmt fólk finna fyrir einskonar hugleiðslu og minnti að því leyti á sýrurokkið, þótt stemningin væri drungalegri og magnaðari. Í sumum lögum af plötu þeirra Mjötviður Mær, sem kom út árið 1981, var fjallað um nasisma og notkun meðlima á hakakrossum varð til þess að orð fór af Þeysurum sem nýfasistum, þó að sveitin héldi því sjálf fram að slíkt væri túlkun þeirra á and-fasisma. Vinátta meðlima við ensku síðpönk sveitina Killing Joke spratt upp orðrómi um einhverskonar samruna hljómsveitanna beggja, en eftir stutta utanlandsför hættu Þeyr störfum.[13]

Þeyr var ekki eina síðpönkhljómsveitin á Íslandi. Taugadeildin kom fram vorið 1981. Hún var undir síðpönk áhrifum frá sveitum eins og Joy Division, Wire, Gang of Four og fleirum. Taugadeildin sendi frá sér eina fjögurra laga EP-plötu haustið 1981, en hafði þá þegar lagt upp laupana. Önnur hljómsveit sem upphaflega var nánast hrein pönkhljómsveit en þróaðist í átt að síðpönki var Q4U. Hún gaf út sína fyrstu plötu vorið 1983, og á þeirri plötu léku trommuheili og hljóðgervlar stórt hlutverk. Á plötu þeirra frá 1996 er meira efni í þessum anda, og hefur tónlist Q4U frá þessu tímabili vakið athygli erlendra tónlistargagnrýnenda, sem telja að hér sé á ferðinni svokölluð minimal-wave tónlist, ákveðin tegund af síðpönki. Í júlí 2011 kom út í Brasilíu plata með Q4U, Best of Q4U. Í apríl 2013 kom síðan út LP-vínylplata með 16 lögum hljómsveitarinnar í San Fransisco, hjá hljómplötufyrirtækinu Dark Entries. Hún nefnist Q1 Deluxe Edition 1980-1983.

Síðpönk senan var byrjuð að ná svo mikilli útbreiðslu í Reykjavík í byrjun níunda áratugarins að tala mætti um byltingu. Einn frumkvöðla hennar var söngkonan Björk Guðmundsdóttir sem, á unglingsárum sínum, stofnaði síðpönksveitirnar Exodus og Tappa Tíkarrass.[14] Á sama tíma fékk Purrkur Pillnikk þann heiður að hita upp fyrir síðpönksveitina The Fall á tónleikaferðalagi hennar um Ísland. Á plötu sinni Hex Enduction Hour, sem var að hluta til tekin upp á Íslandi, tileinkaði The Fall landinu lagið Iceland. Einar Örn Benediktsson var söngvarinn í Purrkur Pillnikk og einn stofnenda Grammsins,[15] plötufyrirtæki sem fékk ýmsa erlenda tónlistarmenn til Íslands á þessum árum og þar á meðal var síðpönkarinn Nick Cave.[16] Þegar ferill Purrkur Pillnikk var á enda komu Einar Örn, Björk og Sigtryggur Baldursson, fyrrverandi trommuleikari Þeys, saman og stofnuðu til nýrrar hljómsveitar árið 1984 sem hlaut nafnið Kukl. Sú sveit spilaði nokkuð gotneskt síðpönk, hljómurinn var undirokaður af tréblásturshljóðfærum og bjöllum og lagatextarnir þóttu óhugnarlegir.[17] Hljómsveitin þróaðist svo yfir í Sykurmolana árið 1986 en hún hélt svo í tónleikaferð með New Order og Public Image Ltd. sem skapaði þeim frekari orðstír á erlenda grundu.[18]

Arfleið[breyta | breyta frumkóða]

Síðpönksenan dó aldrei út, þó svo að vinsældum hennar hafi farið dvínandi á miðjum níunda áratugnum. Upprunalegu hreyfingunni lauk þó þegar flytjendur hennar fóru að beita sér á sviðum annarra tónlistarstefna, rétt eins og þeir sjálfir höfðu upprunalega horfið frá pönkinu til þess að skapa nýja hljóma. Sem dæmi um flytjendur sem fengu innblástur frá síðpönkinu en þróuðu með sér afleiddar tónlistargreinar mætti nefna skóglápsrokkarana í My Bloody Valentine[19] og The Jesus And Mary Chain, ásamt Sonic Youth sem spilaði svokallaða No Wave tónlist, einskonar mótsvar neðanjarðarsenu New York við nýbylgjunni. Á meðan þessar sveitir voru starfandi nutu nokkrir forfeðra þeirra enn mikilla vinsælda. The Cure, New Order, Siouxsie & the Banshees, Nick Cave og The Fall voru áfram virkar þó að tónlist þeirra hefði glatað upprunalega heillandi hljóm sínum. Þó er mögulegt að finna fyrir áhrifum síðpönksins í gegnum nútíma tónlist hjá hljómsveitum á borð við Radiohead,[3] The Horrors,[20] Interpol, Franz Ferdinand og The Strokes. Þessar sveitir áttu það sameiginlegt að spila tónlist undir áhrifum síðpönks og nýbylgjutónlistar og talið er að þetta hafi markað einskonar endurreisn slíkrar tónlistar. Líkt og með síðpönksveitir áttunda og níunda áratugarins, þá var mikil fjölbreytni í því hvernig þessar hljómsveitir nálguðust tónlistina, allt frá hráu pönki til grípandi popps. Talið er að endurreisnin hafi byrjað seint á tíunda áratugnum[21] en áhrifa hennar gætir enn í dag meðal sveita eins og S.C.U.M[22] og Ariel Pink, en báðar spila þær einskonar samblöndu af sýrurokki, krátrokki og síðpönki.[23]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Post-punk“, Rateyourmusic Skoðað 29. febrúar 2012.
 2. „Classic Post-Punk Artists“, Post-punk.com Skoðað 2. mars 2012.
 3. 3,0 3,1 3,2 Erlewine, Stephen Thomas. „Post-punk“ Geymt 12 september 2011 í Wayback Machine, Allmusic Skoðað 9. mars 2012.
 4. „Spacemen 3: History & Discography“ Geymt 13 október 2011 í Wayback Machine, Spacemen 3.net Geymt 13 október 2011 í Wayback Machine Skoðað 9. mars 2012.
 5. „Explore: Post-punk“ Geymt 9 nóvember 2010 í Wayback Machine, Allmusic. Skoðað 26. febrúar 2012.
 6. Scaruffi, Piero (2003). A History of Rock Music: 1951-2000. iUniverse, Inc. ISBN 0-595-29565-7. Bls. 193.
 7. Savage, Jon. „Punk“, Encyclopædia Britannica. Skoðað 3. mars 2012.
 8. Reynolds, Simon (2006). Rip It Up and Start Again: Postpunk 1978-1984. Penguin Books. ISBN 0143036726.. Sýnishorn skoðað á Amazon.
 9. Savage, Jon. „Joy Division/New Order“, Encyclopædia Britannica. Skoðað 10. mars 2012.
 10. Sheridan, David. „Nick Cave and the Bad Seeds“, Trouser Press. Skoðað 11. mars 2012.
 11. Mason, Stewart. „The Wake“, Allmusic Skoðað 11. mars 2012.
 12. „Rokk í Reykjavík“, Tónlist.is Skoðað 9. mars 2012.
 13. Gestur Guðmundsson (1990). Rokksaga Íslands frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990. Forlagið. ISBN 9979-53-015-4. Bls. 199-200.
 14. Erlewine, Stephen Thomas. „Björk: Biography“, Allmusic. Skoðað 8. mars 2012.
 15. Fricke, David. „Purrkur Pillnikk“, Trouser Press. Skoðað 8. mars 2012.
 16. Gestur Guðmundsson (1990). Rokksaga Íslands frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990. Forlagið. ISBN 9979-53-015-4. Bls. 244.
 17. Sheridan, David & Ira Robbins. „Sugarcubes“, Trouser Press. Skoðað 8. mars 2012.
 18. Gestur Guðmundsson (1990). Rokksaga Íslands frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990. Forlagið. ISBN 9979-53-015-4. Bls. 248.
 19. Fisher, David R. „My Bloody Valentine's Loveless Geymt 8 febrúar 2012 í Wayback Machine, The Florida State University College of Music Geymt 30 maí 2012 í Archive.today Skoðað 9. mars 2012.
 20. „Post-Punk Revival Artists“, Post-punk.com Skoðað 9. mars 2012.
 21. Erlewine, Stephen Thomas. „New Wave/Post-Punk Revival“ Geymt 17 mars 2012 í Wayback Machine, Allmusic Skoðað 9. mars 2012.
 22. Cole, Rachel. „S.C.U.M“ Geymt 14 mars 2012 í Wayback Machine, Vman Skoðað 9. mars 2012.
 23. Samadder, Rhik „Ariel Pink: 'I'm not that guy everyone hates'“, The Guardian. Skoðað 19. janúar 2017.

Erlendir tenglar[breyta | breyta frumkóða]