Q4U
Q4U er íslensk pönkhljómsveit, sem stofnuð var veturinn 1980-1981. Upphaflegir meðlimir voru Elínborg Halldórsdóttir (Ellý) söngkona, Berglind Garðarsdóttir (Linda) söngkona, Steinþór Stefánsson gítarleikari, Gunnþór Sigurðsson bassaleikari, Helgi trommari og Már hljómborðsleikari. Helgi hætti fljótlega og Már einnig. Í stað Helga kom Kormákur Geirharðsson.
Hljómsveitin æfði og spilaði fjölmörg lög og kom fram á mörgum hljómleikum. Meðal annars hitaði hún upp fyrir hljómsveitina The Fall á Hótel Borg haustið 1981. Um vorið kom hljómsveitin fram í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík og vakti þar mikla athygli fyrir spennandi útlit og tónlist.
Þessi útgáfa hljómsveitarinnar lognaðist út af skömmu síðar. Sama vor fór Ellý að vinna með Árna Daníel Júlíussyni í hljómsveitinni Handan grafar. Þessi samvinna leiddi til þess að Gunnþór Sigurðsson kom til liðs við Ellý og Árna og Q4U nafnið var endurreist. Óðinn Guðbrandsson úr Taugadeildinni var ráðinn gítarleikari en í stað trommuleikarans Kormáks var ráðinn trommuheilinn Elísabet II (TR-808 trommuheili frá Roland). Gunnþór lék á bassa en Árni Daníel á hljómborð.
Óðinn hætti um haustið og Danny Pollock, sem áður hafði verið gítarleikari í Utangarðsmönnum, tók við hlutverki hans. Þannig skipuð tók hljómsveitin upp sex laga plötuna Q1. Platan kom út vorið 1983 og skömmu síðar gekk Kormákur aftur til liðs við hljómsveitina. Þannig skipuð tók hljómsveitin upp fjögur lög í hljóðveri Labba í Mánum, Glóru, en hætti síðan störfum.
Hljómsveitin kom aftur saman sumarið 1996, lék á tónleikum og kom fram í sjónvarpi. Um haustið var gefin út geisladiskurinn Q2 með 34 lögum hljómsveitarinnar og tengdra hljómsveita, T42 og Þetta er bara kraftaverk. Í þessari útgáfu hljómsveitarinnar voru Ellý, Gunnþór, Árni Daníel, Ingólfur Júlíusson á gítar og Guðmundur Gunnarsson úr Tappa tíkarrass á trommur.
Árið 2010 kom hljómsveitin saman enn á ný. Nú voru í henni Ellý, Gunnþór, Árni Daníel, Ingólfur og Guðjón Guðjónsson trommuleikari. Hljómsveitin hefur leikið á tónleikum, m.a. Iceland Airwaves 2011, og tvær erlendar útgáfur hafa gefið út safnplötur með efni hljómsveitarinnar. Í júlí 2011 kom út safnplatan Best of Q4U á vegum brasilísku útgáfunnar Wave Records í Sao Paulo. Í apríl 2013 kom síðan út 16 laga LP-plata (vínyl) á vegum bandarísku útgáfunnar Dark Entries í San Fransisco. Í sama mánuði féll gítarleikari hljómsveitarinnar, Ingólfur Júlíusson, frá af völdum hvítblæðis. Hann varð 42 ára gamall. Áður en hann lést hafði hljómsveitin samið og æft efni á nýja plötu. Að ósk Ingólfs varð staðgengill hans frændi þeirra Árna Daníels, Egill Viðarsson.
Nýja platan nefnist Qþrjú og kom út 1. október 2016. Á henni eru 11 ný lög og þrjú lög tekin upp á tónleikum í Hörpu 28. febrúar 2013 til stuðnings Ingólfi og fjölskyldu hans.
Útgefið efni
[breyta | breyta frumkóða]Q1 (Gramm 12 1983)
Q2 (Norður og niður 1996)
Best of Q4U (Wave Records 2011)
Q1 Deluxe Edition 1980-1983 (Dark Entries 2013)
Qþrjú (Norður og niður 2016)
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Vefsíða um Q4U Geymt 12 mars 2007 í Wayback Machine
- Vefsíða Wave Records um Best of Q4U Geymt 18 apríl 2012 í Wayback Machine
- Vefsíða Dark Entries um Q1 Deluxe Geymt 12 mars 2007 í Wayback Machine