Purrkur Pillnikk
Purrkur Pillnikk var íslensk hljómsveit sem starfaði á árunum 1981-1982, hún var í forsvari fyrir nýja íslenska tónlist, sem spratt upp úr síðpönkbylgju áttunda áratugarins. Purrkur Pillnikk var afkastamikil hljómsveit, en hún gaf út 10 laga smáskífuna Tilf í apríl 1981, síðan fylgdi Ekki enn þá um haustið. Vorið 1982 kom út önnur stór plata þeirra, Googooplex. No time to think var 4 laga smáskífa. Maskínan var tónleikaplata. Einnig kom hljómsveitin fram á yfir 60 tónleikum á þeim stutta tíma sem hún starfaði. Hljómsveitin kom fyrir í myndinni Rokk í Reykjavík eftir Friðrik Þór Friðriksson.
Meðlimir Purrks Pillnikk voru: Ásgeir Bragason trommuleikari, Bragi Ólafsson bassaleikari, Einar Örn Benediktsson rödd og Friðrik Erlingsson gítarleikari.
Nýlega gaf hljómsveitin Gus Gus út lagið If You Don't Jump(You're English) á plötunni Forever þar sem notast er við hljóðbút úr lagi sveitarinnar, "Augum úti".