Echo & the Bunnymen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ian McCulloch á tónleikum 2006.
Echo & the Bunnymen (2010)

Echo & the Bunnymen er ensk nýbylgjuhljómsveit sem var stofnuð í Liverpool árið 1978. Upprunalegir meðlimir hljómsveitarinnar voru söngvarinn Ian McCulloch, Will Sergeant gítarleikari og Les Pattinson bassaleikari. Upphaflega notuðust þeir við trommuheila en 1980 kom trommarinn Pete de Freitas í hans stað. Þeir komust fyrst á topp breska vinsældalistans árið 1983 með laginu „The Cutter“ af breiðskífunni Porcupine og næsta hljómplata þeirra, Ocean Rain, sem kom út 1984 innihélt meðal annars smellinn „The Killing Moon“. Árið eftir gáfu þeir út safnplötu með lögum af smáskífum sveitarinnar Songs to Learn & Sing og Echo & the Bunnymen árið 1987.

1988 hætti McCulloch í sveitinni og árið eftir lést de Freitas í mótorhjólaslysi. Sergeant og Pattison fengu þá nýjan söngvara (Noel Burke), trommuleikara (Damon Reece) og hljómborðsleikara (Jake Brockman) til liðs við hljómsveitina og gáfu út hljómplötuna Reverberation árið 1990. Sú plata gekk illa og eftir útgáfuna hætti hljómsveitin störfum.

McCulloch, Sergeant og Pattison komu síðan aftur saman árið 1997 og gáfu út plötuna Evergreen sem náði á topp 10 lista vinsældalistans. 1999 kom What Are You Going to Do With Your Life? út og Pattison hætti í hljómsveitinni. McCulloch og Sergeant hafa síðan haldið áfram að koma fram sem Echo & the Bunnymen og gefið út plöturnar Flowers (2001) og Siberia (2005).