Fara í innihald

Ríkisútvarpið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rúv)
Ríkisútvarpið ohf.
Rekstrarform Opinbert hlutafélag
Slagorð Útvarp allra landsmanna
Hjáheiti Útvarpið, RÚV
Stofnað 1930 (útvarp)
1966 (sjónvarp)
Staðsetning Efstaleiti 1
Reykjavík
Lykilpersónur Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri
Starfsemi Fjölmiðlun; útvarp, sjónvarp, fréttir
Vefsíða ruv.is

Ríkisútvarpið ohf. (skammstafað RÚV) er opinbert hlutafélag staðsett á Íslandi, sem hóf göngu sína árið 1930 og sér um útsendingar á útvarpi og sjónvarpi. Útvarpsstjóri frá 2020 er Stefán Eiríksson.

Það sendir út eina sjónvarpsstöð sem heitir Sjónvarpið en er oft í daglegu tali kölluð Stöð 1 eða RÚV. Það rekur þrjár útvarpsstöðvar, Rás 1 sem einbeitir sér að dagskrárgerð um menningu af ýmsum toga, Rás 2 sem hefur það verksvið að fjalla um tónlist, dægurmál og fleira í þeim dúr og Rondó sem sendir stafrænt út á höfuðborgarsvæðinu og spilar klassíska tónlist og djass allan sólarhringinn. Einnig sendir ungmennaþjónustan RÚV Núll út tónlist á netinu allan sólarhringinn.

Einnig starfrækir RÚV fjórar deildir á landsbyggðinni sem sinna fréttaþjónustu á sínum svæðum og senda út staðbundna dagskrá á vissum tímum, deildirnar eru á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Þar að auki rekur Ríkisútvarpið frétta- og dagskrárvefinn ruv.is og textavarpið. Ríkisútvarpið er fjármagnað með auglýsingum en einkum framlagi úr ríkissjóði. Áður var innheimt afnotagjald sem öllum eigendum sjónvarps- og útvarpstækja bar skylda til að greiða en afnotagjöldin voru afnumin árið 2009 og upp tekinn nefskattur sem á að renna óskiptur í reksturinn.

Útvarp[breyta | breyta frumkóða]

Ríkisútvarpið hóf útsendingar 20. desember 1930, en fyrir þann tíma höfðu verið starfræktar einkareknar útvarpsstöðvar í Reykjavík og á Akureyri, sú fyrsta var H.f. Útvarp. Fyrstu ár útvarpsins var bara sent út á einni rás og í nokkra klukkutíma á kvöldi. Fyrsti útvarpstjórinn var Jónas Þorbergsson. Ríkisútvarpið þurfta að fara eftir ákveðnum útvarpreglum svo sem að rækta íslenska tungu og sögu íslands. Einnig þurftu þeir að vera með einhverskonar fréttir og láta í ljós mismunandi skoðanir fyrir fólk til umhugsunar. Það þurfti líka að huga að hafa skemmtiefni fyrir almenning og einnig eitthvað uppbyggilegt barnaefni fyrir krakka á öllum aldri. Útvarpið hóf rekstur sinn í Austurstræti 12, því húsi sem nú er English Pub. Árið eftir stofnun flutti það í Landssímahúsið við Austurvöll, þar sem það var til húsa til ársins 1959. Þá flutti útvarpið á Skúlagötu 4, hús sem í dag er þekkt sem Sjávarútvegshúsið. Árið 1987 flutti útvarpið í núverandi húsnæði, Útvarpshúsið í Efstaleiti. Í ágúst 1982 hófust útsendingar RÚVAK á Akureyri, en sú deild hafði bæði umsjón með að skaffa deildum fyrir sunnan frétta- og dagskrárefni, sem og svæðisbundnar útsendingar með áherslu á málefni svæðis. Árið 1983 hóf svo Rás 2 útsendingar sínar. Í fyrstu átti sú stöð að vera fyrir yngri kynslóðina t.d fyrir unglingana – þar voru t.d. spilaðir poppþættir og nútímalegra efni en á Rás 1 – en í dag er dagskráin mjög fjölbreytt. Sama má reyndar segja um Rás 1, en þó eru gerðar þar meiri kröfur um að efni sé meira unnið, meira lagt í dagskrárgerðina. Dagskrárfólk á Rás 1 keppist við að vinna vandað efni af öllu tagi. Þar má heyra reglulega leikritaflutning. Útvarpsleikhúsið hefur starfað reglubundið frá árinu 1947 og sendir jafnan út á Rás 1, þó stundum séu einnig útsendingar frá leikhúsinu á Rás 2. Á Rás 1 er sendir út reglulega tónleikar frá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eldra fólk hlustar mikið á Rás 1 en það er víðari hlustendahópur á Rás 2. 17. júní 1996 hóf Ríkisútvarpið útsendingar á netinu.[1] Sumarið 2004 hóf RÚV tilraunaútsendingar útvarpsstöðvarinnar Rondó, sem leikur klassíska tónlist og djass í ókynntri sjálfvirkri dagskrá.[1] Í mai 2018 bættist svo ungmennaþjónustan Rúv Núll í flóruna, útsending á netinu sem er í gangi allann sólarhringinn, megni tímans er send út ókynnt tónlist en á kvöldin eru sjónvarpsþættir[2]. Það mætti því skilgreina RÚV núll streymið sem blöndu af sjónvarps- og útvarpsstöð, þó stofnunin sjálf skilgreinir þjónustuna sem vefsíðu[3].

Sjónvarp[breyta | breyta frumkóða]

Aðalgrein: Sjónvarpið.

Sjónvarpið hóf göngu sína þann 30. september árið 1966.

Almennt[breyta | breyta frumkóða]

Útvarpshúsið í Efstaleiti.

Sjónvarpið og útvarpið eru nú í sama húsi eða frá árinu 2000 við Efstaleiti 1. Ríkisútvarpið er eini fjölmiðillinn hér á landi sem leiðbeinir starfsmönnum um íslenskt mál og hefur markað sér stefnu í þeim málum.

Útvarpsstjóri síðan 2020 er Stefán Eiríksson og hefur hann það hlutverk að annast rekstur og fjármál ríkisútvarpsins. Útvarpsstjóri gegnir starfi sínu í fimm ár í senn en þá skipar menntamálaráðherra nýjan.

Ætlunarverk ríkisútvarpsins samkvæmt vef þeirra er að vera í fararbroddi íslenskra fjölmiðla með því að bjóða landsmönnum fjölbreytta og vandaða dagskrá í samræmi við menningar- og lýðræðishlutverk sitt.

Með lögum sem sett voru 23. janúar 2007 var Ríkisútvarpinu breytt í opinbert hlutafélag. Mikil óánægja var um frumvarpið meðal stjórnarandstöðunnar sem að beitti málþófi til þess að tefja framgöngu þess en yfir 100 klukkustundir fóru í umræður. Frumvarpið var á endanum samþykkt með 29 atkvæðum gegn 21, 13 þingmenn voru fjarstaddir og tók það gildi 1. apríl 2007.

Miklir niðurskurðir voru hjá Ríkisútvarpinu frá 2008. Almennrar óánægju gætti með uppsagnahrinu í desember 2013 og var efnt til mótmæla fyrir utan útvarpshúsið og fundar í Háskólabíói í kjölfarið þar sem fulltrúar fjölda aðila í samfélaginu fordæmdu aðgerðina.

Markmið[breyta | breyta frumkóða]

Meginmarkmið Ríkisútvarpsins eru samkvæmt útvarpslögum:

 • Að vera vettvangur og hvati lýðræðislegrar umræðu
 • Að endurspegla íslenska menningu og stuðla að varðveislu tungunnar
 • Að upplýsa og fræða landsmenn um íslensk og erlend málefni
 • Að vera vettvangur fyrir nýsköpun í dagskrárgerð
 • Að efla dagskrárgerð utan höfuðborgarsvæðisins
 • Að tryggja öfluga dreifingu dagskrárefnis
 • Að varðveita dagskrárefni fyrir komandi kynslóðir
 • Að standa vörð um öryggishlutverk sitt.

Útvarpsstjórar[breyta | breyta frumkóða]

Sjá grein: Útvarpsstjóri

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir
 1. „RÚV okkar allra | RÚV“. www.ruv.is. Sótt 21. mars 2019.
 2. „Ný vefsíða á vegum RÚV farin í loftið“. Kjarninn. 19. maí 2018. Sótt 21. mars 2019.
 3. „Ný vefsíða á vegum RÚV farin í loftið“. Kjarninn. 19. maí 2018. Sótt 21. mars 2019.