Fara í innihald

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sinfóníuhljómsveit Íslands er íslensk sinfóníuhljómsveit sem er sjálfstæð opinber stofnun sem heyrir undir Menntamálaráðuneytið. Aðalhljómsveitarstjóri hljómsveitarinnar er finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen. Árið 2011 flutti hljómsveitin úr Háskólabíói í Hörpu, nýtt tónlistar og ráðstefnuhús við Reykjavíkurhöfn. Þar eru allar skrifstofur, æfingarsalir og tónleikasalir sem hljómsveitin notar. Sinfóníuhljómsveit Íslands er stundum kölluð Melabandið eða Sísí frænka í hálfkæringi.

Áður en Sinfóníuhljómsveit Íslands tók til starfa höfðu ýmsar tilraunir verið gerðar til stofnunar sinfóníuhljómsveitar og má þar nefna Útvarpshljómsveitina sem starfrækt var í nokkur ár. Einn aðalhvatamaður að stofnun hennar var Jón Þórarinsson. Sínfóníuhljómsveitin var stofnuð fimmtudagskvöldið 9. mars 1950 þegar 39 manna sveit, þar af 5 erlendir tré- og málmblásturshljóðfæraleikarar hélt fyrstu tónleikana í Austurbæjarbíói. Aðgangseyrið var 20 kr. og á tónleikunum var m.a. leikinn Egmont-forleikurinn eftir Beethoven og Ófullgerða sinfónían eftir Schubert. „Hefur aldrei áður heyrst svo stór og fullkomin íslenzk hljómsveit hér,“ mátti lesa í blöðunum og var mikið rætt um fagnaðarlætin sem brutust út í lokin. Það var nokkrum vandkvæðum bundið að tryggja hljómsveitinni rekstrargrundvöll, þannig var hljómsveitin rekin af Ríkisútvarpinu fram að 1983 þegar lög voru samþykkt sem tryggðu sjálfstæði hljómsveitarinnar.Aðalstyrktaraðilar hennar 2013-2020 er fjármálafyrirtækið Gamma[1].

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

[breyta | breyta frumkóða]

Öflugt og fjölþætt fræðslustarf er mikilvægur þáttur í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur verið allt frá stofnun hennar. Hluti af fræðslustarfi SÍ er Ungsveitin sem var stofnuð árið 2009. Markmið Sinfóníuhljómsveitarinnar með hljómsveitarskóla Ungsveitarinnar er að gefa tónlistarnemendum innsýn og vettvang til að kynnast hinum sinfóníska heimi af eigin raun og njóta þjálfunar og leiðsagnar í hljómsveitarleik eins og um atvinnumennsku væri að ræða. Hljóðfæraleikarar Ungsveitarinnar þurfa að standast prufuspil sem líkir eftir aðstæðum prufuspila hjá Sinfóníuhljómsveitinni.

  Þessi tónlistargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


  1. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/09/07/styrkir_sinfo_um_90_milljonir/