Opinbert hlutafélag
Opinbert hlutafélag (skammstafað sem ohf.) er afbrigði af hlutafélagi sem innleitt var í íslensk lög 2006. Opinber hlutafélög eru að öllu leyti í eigu hins opinbera, annaðhvort ríkis eða sveitarfélaga eða bæði. Opinber hlutafélög eru frábrugðin venjulegum hlutafélögum í eftirfarandi atriðum:
- Nóg að það sé einn hluthafi en þurfa að vera minnst tveir í hf.
- Skylda er að hafa sem jöfnust kynjahlutföll í stjórnum.
- Stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum ber skylda til að gefa stjórninni skýrslu um eign sína í félögum ef það skiptir máli varðandi starf þeirra.
- Fjölmiðlamenn mega vera viðstaddir aðalfundi.
- Kjörnir fulltrúar eigenda mega mæta á aðalfundi og bera fram skriflegar tillögur. Þetta á við alþingismenn ef ríkið er hluthafi og sveitarstjórnarmenn ef sveitarfélög eru hluthafar.
- Skylda er lögð á opinber hlutafélög að birta samþykktir sínar, reikninga og starfsreglur stjórnar á netinu.
Tilgangurinn með innleiðingu opinberra hlutafélaga í lög var samkvæmt frumvarpi sá að bæta aðgengi almennings og annarra að upplýsingum um hlutafélög sem hið opinbera á að öllu leyti. Reyndin hefur þó verið sú eftir innleiðingu félagaformsins að það hefur mest verið notað þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í opinber hlutfélög. Þeirri breytingu fylgir m.a. að stjórnsýslulög, lög um upplýsingaskyldu og lög um réttindi opinbera starfsmanna hætta að gilda um viðkomandi stofnun. Þetta hefur skapað nokkrar deilur, t.d. þegar Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi. Fylgismenn þessara umbreytinga segja þær auka sveigjanleika í rekstri viðkomandi stofnanna en andstæðingar segja að þær geti bitnað á réttindum starfsmanna og minnkað gegnsæi í rekstrinum.
Jöfn kynjahlutföll í opinberum hlutafélögum eru skyldug samkvæmt lögum (Lög um hlutafélög nr. 2, 1995). Kafli IX, grein 63 lýsir skyldum opinberra hlutafélaga að jöfnum kynjahlutföllum sem svona:
- Ef 3 fulltrúar eru í stjórn skal hvort kyn hafa minnst 1 fulltrúa.
- Ef fulltrúar eru fleiri en 3 í stjórn skal hvort kyn hafa minnst 40% hlutfall.
- Sama gildir um varamenn fulltrúa
- Fulltrúar og varamenn í heild sinni skulu vera sem jöfnust í kynjahlutfalli (Ekkert nákvæmt hlutfall um heild)
- Hlutfall kynja í stjórn skal birtast í ársreikningi.
Opinber hlutafélög
[breyta | breyta frumkóða]Opinbert hlutafélag | Eignarhlutfall ríkisins | Eignarhlutfall sveitarfélaga | Starfsemi | Athugasemd |
---|---|---|---|---|
Betri samgöngur | 75% | 25% | Uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu | 6 sveitafélög eiga hlut[1]:
Reykjavík ~ 14,1% Kópavogur ~ 4,1% Hafnarfjörður ~ 3,0% Garðabær ~ 1,8% Mosfellsbær ~ 1,3% Seltjarnarnesbær ~ 0,5% |
Carbfix | 0% | 90% | Þróun og útbreiðsla á Carbfix kolefnisbindingaraðferðarinnar | 99,9% eignarhlutfall er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur ohf[2]
0,1% eignarhlutfall er í eigu Háskóla Íslands[3] |
Harpa | 100% | 0% | Tónlistar- og ráðstefnuhús | [4] |
Isavia | 100% | 0% | [4] | |
Íslandspóstur | 100% | 0% | [4] | |
Lánasjóður sveitarfélaga | 0% | 100% | 64 sveitarfélög eiga hlut. Reykjavík stærsti hluti með 17,5% og eini hluthafi með meira en 10%. 10 stærstu hluthafar samtals 56%[5] | |
Matís | 100% | 0% | [4] | |
Neyðarlínan | 100% | 0% | [4] | |
Nýr landspítali | 100% | 0% | [4] | |
ON Power | 0% | 100% | Er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur[2] | |
Orka náttúrunnar | 0% | 100% | Er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur[2] | |
Orkubú Vestfjarða | 100% | 0% | [4] | |
Orkuveita Húsavíkur | 0% | 100% | Raf-, vatns- og hitaveita Húsavíkur | Norðurþing[6] |
Orkuveita Reykjavíkur | 0% | 100% | 3 sveitarfélög eiga hlut[2]:
Reykjavík ~ 93,5% Akranes ~ 5,5% Borgarbyggð ~ 0,9% | |
RARIK | 100% | 0% | Dreifing á raforku og heitu vatni | [4] |
Ríkisútvarpið | 100% | 0% | [4] | |
Veitur | 0% | 100% | Er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur[2] |
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Betri samgöngur ohf. (2021). „Betri samgöngur ohf. - Ársreikningur 2021“.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Orkuveita Reykjavíkur (2022). „Ársreikningur samstæðu 2022 - Orkuveita Reykjavíkur“ (PDF).
- ↑ Carbfix ohf. (2023). „Carbfix ohf. - Ársreikningur 2023“ (PDF).
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 4,6 4,7 4,8 „Félög í eigu ríkisins“. www.stjornarradid.is. Sótt 10. maí 2023.
- ↑ Lánasjóður Sveitarfélaga (2022). „Ársreikningur 2022 - Lánasjóður sveitarfélaga ohf“ (PDF).
- ↑ Norðurþing (2021). „Norðurþing - Ársreikningur 2021“ (PDF). Norðurþing. bls. 16.