Paul-Henri Spaak
Paul-Henri Spaak | |
---|---|
Forsætisráðherra Belgíu | |
Í embætti 15. maí 1938 – 22. febrúar 1939 | |
Þjóðhöfðingi | Leópold 3. |
Forveri | Paul-Emile Janson |
Eftirmaður | Hubert Pierlot |
Í embætti 13. mars 1946 – 31. mars 1946 | |
Þjóðhöfðingi | Leópold 3. |
Forveri | Achille Van Acker |
Eftirmaður | Achille Van Acker |
Í embætti 20. mars 1947 – 11. ágúst 1949 | |
Þjóðhöfðingi | Leópold 3. |
Forveri | Camille Huysmans |
Eftirmaður | Gaston Eyskens |
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins | |
Í embætti 16. maí 1957 – 21. apríl 1961 | |
Forveri | Hastings Ismay |
Eftirmaður | Dirk Stikker |
Forseti Evrópuþingsins | |
Í embætti 11. september 1952 – 11. maí 1954 | |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Alcide De Gasperi |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 25. janúar 1899 Schaerbeek, Belgíu |
Látinn | 31. júlí 1972 (73 ára) Braine-l'Alleud, Belgíu |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn Sósíalistaflokkurinn |
Háskóli | Fríháskólinn í Brussel |
Starf | Stjórnmálamaður, erindreki |
Paul-Henri Charles Spaak (25. janúar 1899 – 31. júlí 1972) var belgískur stjórnmálamaður og einn stofnenda Evrópusambandsins.[1]
Spaak kom úr áhrifamikilli stjórnmálafjölskyldu og gegndi í stuttan tíma herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið varð hann frægur sem tennisleikmaður og lögfræðingur og vakti athygli á heimsvísu árið 1929 þegar hann tók að sér málsvörn ítalsks stúdents sem hafði verið sakaður um að reyna að koma ítalska ríkisarfanum fyrir kattarnef. Spaak var sósíalisti og hóf þátttöku í belgískum stjórnmálum árið 1932 með belgíska Verkamannaflokknum (sem síðar varð belgíski Sósíalistaflokkurinn).[2] Hann varð ráðherra í fyrsta sinn árið 1935 í ríkisstjórn Pauls Van Zeeland og var síðan forsætisráðherra Belgíu frá 1938 til 1939. Í seinni heimsstyrjöldinni var Spaak utanríkisráðherra í útlagastjórn Huberts Pierlot og stofnaði í því embætti til Benelúx-efnahagssambandsins ásamt Hollandi og Lúxemborg. Eftir stríðið varð Spaak tvisvar forsætisráðherra á ný, fyrst í tæpan mánuð í mars 1946 og svo frá 1947 til 1949. Hann var utanríkisráðherra Belgíu í alls 18 ár á milli 1939 og 1966.
Spaak var ötull stuðningsmaður alþjóðasamstarfs og varð þekktur á heimsvísu fyrir vinnu sína í þágu þess. Árið 1945 var hann valinn forseti fyrsta allsherjarþings hinna nýstofnuðu Sameinuðu þjóða. Spaak hafði lengi kallað á eftir Evrópusamruna og byrjaði snemma að mæla með evrópsku efnahagsbandalagi líkt og því sem hann hafði stofnað með Benelúxlöndunum árið 1944. Hann var fyrsti forseti ráðgjafarnefndar Evrópuráðsins frá 1949 til 1950 og varð síðan fyrsti forseti Kola- og stálbandalags Evrópu frá 1952 til 1954. Árið 1955 var hann útnefndur í hina svokölluðu Spaak-nefnd til að kanna möguleikann á einum sameiginlegum markaði fyrir Evrópu. Hann tók síðan þátt í undirbúningi Rómarsáttmálans árið 1957 sem lagði grunninn að Efnahagsbandalagi Evrópu. Sama ár hlaut Spaak Karlsverðlaunin. Frá 1957 til 1961 var hann annar framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Spaak dró sig úr stjórnmálum árið 1966 og lést árið 1972. Hann nýtur enn mikilla áhrifa í evrópskum stjórnmálum. Meðal annars eru nefd eftir honum góðgerðasamtök, bygging á Evrópuþinginu og sérstök samningatækni.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Biographie de Paul-Henri Spaak“. Toute l'Europe. Sótt 10. júlí 2018..
- ↑ Michel Dumoulin (préf. Étienne Davignon), Spaak, Brussel, Éditions Racine, 15. júní 1999, 736 bls.