Mývatnssveit
Mývatnssveit er sveitin umhverfis Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu og setur vatnið mjög svip á sveitina, náttúru hennar og lífríki, en það er um 37 ferkílómetrar og mjög vogskorið.
Landslag og náttúra
[breyta | breyta frumkóða]Landslag sveitarinnar er einnig mjög mótað af eldstöðvum og eldfjöllum sem hafa spúð ösku og hrauni yfir sveitina og má þar nefna Kröflu og Hverfell eða Hverfjall, sem er einn stærsti sprengigígur heims, um 1 km í þvermál og myndaðist í öflugu þeytigosi fyrir um 2500 árum. Auðvelt er að ganga upp á brún gígsins.
Í Mývatnssveit eru einnig gervigígar, sem verða til þegar hraun rennur yfir vatn eða votlendi. Verður þá gufusprenging undir hrauninu og gervigigarnir myndast. Þekktastir eru Skútustaðagígar, sem eru friðlýstir sem náttúruvætti frá 1973.
Mikilfenglegastar þykja hraunmyndanirnar þó í Dimmuborgum, austan vatnsins. Þar eru alls konar furðulegar hraunmyndanir, hellar og gatklettar. Dimmuborgir mynduðust í gosi í Þrengslaborgum fyrir um 2000 árum. Síðustu gos í sveitinni voru Mývatnseldar árin 1724-1729 og Kröflueldar 1975-1984.
Af öðrum þekktum fjöllum sem umkringja sveitina má nefna Vindbelg, Sellandafjall, Bláfjall og Reykjahlíðarfjall. Austan við Námafjall er mikið brennisteinshversvæði og þar voru brennisteinsnámur fyrr á öldum og brennisteinninn fluttur út. Mikill jarðhiti er í Mývatnssveit og í Bjarnarflagi er elsta gufuaflsvirkjun landsins en Kröfluvirkjun er þó mun stærri og þekktari.
Byggð
[breyta | breyta frumkóða]Áður var talið að Mývatnssveit hefði byggst í lok landnámsaldar, þegar láglendið var fullbyggt, og Landnámabók eru taldir upp þrír menn sem fyrstir bjuggu í sveitinni en enginn þeirra er kallaður landnámsmaður. Þetta voru þeir Þorsteinn Sigmundarson, sem líklega bjó í Reykjahlíð, Þorkell hái, sem bjó á Grænavatni, og Geiri, sem bjó á Geirastöðum sunnan Mývatns. Hins vegar hafa fornleifarannsóknir gefið til kynna að sveitin hafi byggst strax um 870. Mikill fornleifauppgröftur og rannsóknir hafa farið fram á Hofstöðum í Mývatnssveit á undanförnum árum.[1]
Sauðfjárbúskapur og silungsveiði voru löngum aðalatvinnuvegir Mývetninga. Á síðustu öld var starfrækt þar kísilþörungavinnsla í nærri fjörutíu ár og höfðu margir atvinnu í kísiliðjunni en rekstri hennar var hætt árið 2004. Nú er ferðaþjónusta mikilvægur atvinnuvegur í sveitinni. Þéttbýlt er við Mývatn og í Reykjahlíð er þorp, auk þess sem dálítill byggðarkjarni er á Skútustöðum.
Jarðböð
[breyta | breyta frumkóða]Jarðböð eða gufuböð hafa lengi verið stunduð við Mývatn og eru ýmsar fornminjar og sagnir til merkis um það, svo og örnefnið Jarðbaðshólar. Grjótagjá var vinsæll baðstaður í helli hálffullum af heitu vatni en í Kröflueldum um 1977 hækkaði hitastig vatnsins í gjánni svo mjög að ógerlegt var að baða sig þar. Það hefur þó lækkað eitthvað að nýju á síðustu árum. Stóragjá tók að einhverju leyti við sem baðstaður en var þó mun óhentugri en Grjótagjá hafði verið. Árið 2004 voru Jarðböðin við Mývatn opnuð en þar er baðlón með hveravatni og náttúruleg gufuböð.[2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Menningarminjar. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn. Skoðað 13. nóvember 2010.
- ↑ Jarðböðin við Mývatn. Sagan. Skoðað 13. nóvember 2010.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Um Mývatnssveit. Á vefnum www.visitmyvatn.is, skoðað 13. nóvember 2010“.
- „Um Skútustaðahrepp. Á vef Skútustaðahrepps, skoðað 13. nóvember 2010“.