Bjarnarflag
Bjarnarflag er jarðhitasvæði skammt austan Reykjahlíðar við Mývatn. Þar reis 3 MW jarðgufuvirkjun á vegum rekstrarfélags Laxárvirkjunar árið 1969 sem var sú fyrsta á Íslandi og með þeim fyrstu í heiminum. Bjarnarflagsvirkjun heitir í dag Gufustöðin er rekin af Landsvirkjun síðan 1983.[1]
Vélbúnaður Gufustöðvarinnar var endurnýjaður árið 2019 og var þá gamli hverfillinn fjarlægður eftir áratuga rekstur, en hann hafði upphaflega verið tekinn í notkun í sykurverksmiðju í Bretlandi árið 1934. Uppsett afl hennar er 5 MWe. [2]
Áform hafa verið uppi um nýja og mun stærri virkjun við Bjarnarflag sem hefði uppsett afl á bilinu 45 til 90 MW. Orkunni frá þeirri virkjun er ætlað að nýtast við uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka við Húsavík. Mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar hefur þegar farið fram en eftir að Alþingi samþykkti ívilnanir til kísilvers á Bakka í mars 2013 hefur vaknað umræða um að umhverfismatið sé úrelt og taki ekki tillit til nýrrar þekkingar á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjanna. Sérstaklega er óttast um áhrif virkjunarinnar á grunnvatnsstreymi til Mývatns og efnasamsetningu vatnsins sem kunni að raska lífríki vatnsins. Mývatn og Laxá eru eitt þriggja votlendissvæða á Íslandi sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt Ramsar-samningnum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Bjarnarflag“. Landsvirkjun. [skoðað 29-03-2013].
- ↑ „Gufustöðin“. www.landsvirkjun.is. Sótt 1. september 2023.