Geiri (landnámsmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Geiri var landnámsmaður sem að sögn Landnámabókar byggði fyrstur manna á Geirastöðum í Mývatnssveit. Hann er sagður hafa verið „maður norrænn“ og hefur því líklega verið nýlega kominn til Íslands þegar hann settist að á Geirastöðum, sem hefur verið í lok landnámsaldar eða eftir að henni lauk, enda talar Landnáma ekki um landnámsmenn í Mývatnssveit, heldur aðeins þá menn sem „byggðu þar fyrstir“.

Geiri og synir hans, Glúmur skáld og Þorkell, börðust við Þorberg höggvinkinna og Þorstein son hans og féll Þorsteinn. Fyrir það voru þeir gerðir útlægir úr héraðinu. Þá segir Landnáma að þeir hafi farið vestur til Breiðafjarðar og búið að Geiradal í Króksfirði. Sonur Þorkels Geirasonar var Þórður Ingunnarson, annar maður Guðrúnar Ósvífursdóttur.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Bogi Th. Melsted: Íslendinga saga I. Gefin út af Hinu íslenska bókmenntafjelagi. Kaupmannahöfn, 1903.
  • „Landnámabók; af snerpu.is“.