Markús Árelíus
Markús Árelíus | |
Rómverskur keisari | |
Valdatími | 161 – 180 með Luciusi Verusi (161 – 169) með Commodusi (177 – 180) |
---|---|
Fæddur: |
26. apríl 121 |
Fæðingarstaður | Róm |
Dáinn: |
17. mars 180 |
Dánarstaður | Vindobona (Vínarborg) |
Forveri | Antónínus Píus |
Eftirmaður | Commodus |
Maki/makar | Faustina yngri |
Börn | 14 börn, þ.á.m: Lucilla Commodus |
Faðir | Marcus Annius Verus |
Móðir | Lucilla Domitia |
Fæðingarnafn | Marcus Annius Verus |
Keisaranafn | Caesar Marcus Aurelius Antoninus Augustus |
Ætt | Antónínska ættin |
Tímabil | Góðu keisararnir fimm |
Markús Árelíus Antonínus Ágústus (26. apríl 121 – 17. mars 180) var keisari Rómaveldis á árunum 161 – 180. Hann var fimmti og síðasti keisarinn af hinum „fimm góðu keisurum“ sem ríktu frá 96 til 180. Markús Árelíus var einnig stóískur heimspekingur og ritaði Hugleiðingar.
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Markús Árelíus var fæddur árið 121, sonur hjónanna Domitiu Lucillu og Marcusar Anniusar Verusar. Marcus Annius Verus var ættaður frá Baeticu, á núverandi Spáni. Afi hans (langafi Markúsar Árelíusar) var fyrsti öldungaráðsmaðurinn (senator) í ættinni, en fjölskylda hans hafði efnast á ólífurækt. Föðurafi Markúsar Árelíusar (sem einnig hét Marcus Annius Verus) varð ræðismaður (consul) þrisvar sinnum og hjá honum ólst Markús að miklu leiti upp. Markús átti eina yngri systur, sem hét Annia Cornificia Faustina, og var hún um tveimur árum yngri en hann. Faðir Markúsar lést þegar hann var um þriggja ára. Móðir hans, Domitia Lucilla, var af efnuðu fólki komin og átti fjölskylda hennar þakflísaverksmiðju, sem Markús erfði.[1]
Markús giftist Faustinu yngri árið 145. Faustina var dóttir Antónínusar Píusar og hafði áður verið trúlofuð Luciusi Verusi. Markús og Faustina áttu 14 börn saman, þ.á.m. Lucillu og Commodus. Lucilla giftist síðar Luciusi Verusi, en Commodus varð keisari Rómaveldis að föður sínum látnum, árið 180. Faustina hafði orð á sér að eiga marga elskhuga aðra en Markús en engu að síður entist hjónaband þeirra í þrjátíu ár, eða til ársins 175, þegar Faustina lést.
Leiðin til valda
[breyta | breyta frumkóða]Marcus Annius Verus var frændi Trajanusar keisara og einnig var hann mágur Antónínusar Píusar, sem síðar varð keisari. Árið 138 kaus Hadríanus, þáverandi keisari, Antónínus Píus sem eftirmann sinn og ættleiddi hann þann 25. febrúar. Sama dag, að fyrirmælum Hadríanusar, ættleiddi Antónínus Píus Markús Árelíus og Lucius Verus, son Aeliusar Verusar, með það fyrir augum að þeir yrðu eftirmenn hans. Markús var þá 16 ára en Lucius Verus var aðeins 7 ára.[2]
Eftir ættleiðinguna urðu Markús og Antónínus nánir og Markús fór að taka að sér opinber störf og skyldur. Árið 139 fékk hann titilinn Caesar sem þýddi að hann væri þá undirkeisari og árið 140 var hann ræðismaður ásamt Antónínusi.[3]
Keisari
[breyta | breyta frumkóða]Sameiginleg stjórn
[breyta | breyta frumkóða]Við dauða Antónínusar Píusar, 7. mars 161, tók Markús Árelíus við keisaratigninni. Antónínus hafði gert það ljóst skömmu fyrir dauða sinn að Markús ætti að verða arftaki hans með því að senda honum styttu af gyðjunni Fortunu. Valdataka Markúsar var algjörlega átakalaus og það fyrsta sem hann gerði var að deila völdum með Luciusi Verusi, líkt og Hadríanus hafði kveðið á um.[4] Þetta var í fyrsta skipti sem tveir keisarar deildu völdum í Rómaveldi, en slíkt fyrirkomulag varð algengt síðar. Á þessum tíma var orðið illmögulegt að kljást bæði við germanska þjóðflokka í norðri og á sama tíma við Parþa í austri. Lucius Verus barðist við Parþa framan af valdaferli sínum. Hann giftist Lucillu dóttur Markúsar Árelíusar. Lucius Verus lést árið 169 og varð Markús þá einn keisari.
Stríð
[breyta | breyta frumkóða]Parþar
[breyta | breyta frumkóða]Lucius Verus þurfti snemma á valdaferli þeirra Markúsar að berjast við Parþa um yfirráð yfir Armeníu. Þar hafði verið konungur hliðhollur Rómverjum en Parþar steyptu honum af stóli árið 161. Verus hélt til austur-landamæra ríkisins til að mæta Pörþum og barðist við þá frá 162 til 166. Verus endurheimti Armeníu úr höndum Parþa árið 163, og þar var á ný settur konungur hliðhollur Rómverjum. Parþar voru lagðir að velli árið 166. Verus fagnaði sigrinum í Róm með Markúsi seint á árinu 166 og báðir tóku þeir sér titlana „Armeniacus“, „Parthicus Maximus“ og „Medicus“ af þessu tilefni.
Þegar herdeildirnar sneru til baka úr stríðinu báru þær með sér plágu, sem breiddist út og varð að faraldri árið 167. Plágan geisaði í mörg ár og varð Rómarborg sérstaklega illa úti.
Germanir
[breyta | breyta frumkóða]Germanskir þjóðflokkar höfðu ráðist ítrekað á norðanverð landamæri Rómaveldis. Sérstaklega inn í Gallíu og yfir Dóná. Árið 168 héldu Markús og Lucius Verus til norður-landamæranna við Dóná til þess að bregðast við árásunum en ekki reyndist þörf á miklum aðgerðum á þeim tímapunkti og því sneru þeir til baka vorið 169. Á leiðinni heim varð Verus skyndilega alvarlega veikur og lést nokkrum dögum síðar. Eftir að hafa séð um útför Verusar í Róm þurfti Markús fljótlega að halda aftur norður til að mæta germönunum. Germanirnir höfðu náð að ráðast allt suður til Aquileia, borgar á Norður-Ítalíu, og markmið Markúsar var að reka þá aftur norður fyrir landamærin við Dóná. Herbragð Markúsar í stríðinu var að einangra hvern og einn ættbálk innan þjóðflokkanna og berjast við þá sér, og neiða þá þannig til að semja um frið. Þessi stefna Markúsar var árangursrík en einnig tímafrek og varð til þess að keisarinn varði mestum sínum tíma, það sem eftir var valdaferils síns, á vígstöðvunum.[5] Rómverjar börðust undir stjórn Markúsar við germanska þjóðflokka á árunum 169 til 175 og 178 til 180, einkum við Marcomanni og Quadi 172 og 173 og svo við Sarmatia 174. Minntust menn þessara herferða með reisn. Í Róm var reist Súla Markúsar Árelíusar þar sem saga herferðanna var skráð.
Árið 175 lýsti landsstjórinn í Sýrlandi, Avidius Cassius, sjálfan sig keisara. Avidius hafði verið einn helsti hershöfðinginn í stríðinu gegn Pörþum, undir stjórn Luciusar Verusar. Þessi uppreisn virðist reyndar hafa verið byggð á þeim miskilningi að Markús hefði látist í stríðinu gegn germönum. Avidius hélt uppreisninni engu að síður áfram eftir að hafa gert sér grein fyrir miskilningnum, og fékk stuðning víðs vegar um austanvert heimsveldið. Markús hélt af stað til þess að mæta honum en Avidius var myrtur, af hermanni hliðhollum Markúsi, áður en til átaka kom.
Árið 177 gerði Markús Árelíus Commodus, son sinn, að meðkeisara og stýrði Rómaveldi með honum til dauðadags.
Dauði
[breyta | breyta frumkóða]Markús Árelíus andaðist 17. mars 180 í herleiðangri gegn Marcomönnum og Quadum þar sem nú er Vínarborg. Skömmu síðar voru Germönsku þjóðflokkarnir sigraðir. Ýmsir álita að Rómarfriði hafi lokið við andlát Markúsar Árelíusar.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Benario, Herbert W., „Marcus Aurelius (A.D. 161-180) Geymt 1 febrúar 2013 í Wayback Machine.“ De Imperatoribus Romanis (2001).
- „'Marcus Aurelius' Marcus Annius Verus (AD 121 - AD 180) Geymt 25 maí 2013 í Wayback Machine.“ Illustrated History of the Roman Empire.
- Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).
- http://www.livius.org/di-dn/divi_fratres/marcus.html Geymt 9 febrúar 2007 í Wayback Machine
Fyrirrennari: Antónínus Píus |
|
Eftirmaður: Commodus |