Kjörbréfanefnd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nefndarmenn
Birgir Ármannsson  D 
Björn Leví Gunnarsson  P 
Diljá Mist Einarsdóttir  D 
Inga Sæland  F 
Jóhann Friðrik Friðriksson  B 
Líneik Anna Sævarsdóttir  B 
Svandís Svavarsdóttir  V 
Vilhjálmur Árnason  D 
Þórunn Sveinbjarnardóttir  S 
Engin kjörbréfanefnd hefur verið kosin en ofangreindir hafa verið tilnefndir í undirbúningskjörbréfanefnd.[1]

Kjörbréfanefnd er ein af nefndum Alþingis. Nefndin er kosin á fyrsta fundi þingsins eftir kosningar og hefur það hlutverk að yfirfara kjörbréf sem Landskjörstjórn gefur út til væntanlegra þingmanna á grundvelli kosningaúrslita í einstökum kjördæmum. Samkvæmt 46. gr. stjórnarskrá er það Alþingi sjálft sem sker úr um það hvort að þingmenn séu löglega kjörnir en kjörbréfanefndin gerir tillögu til þingsins um það hvort að samþykkja beri eða hafna kjöri einstakra þingmanna. Nefndin fer yfir kærur sem fram koma vegna mögulegra ágalla á framkvæmd kosninga og tekur afstöðu til þeirra. Nefndin skoðar einnig kjörseðla sem ágreiningur er um hvort að telja skuli gilda eða ekki. Endanlegar niðurstöður Alþingiskosninga liggja því ekki fyrir fyrr en tekin hefur verið afstaða til þessara vafaatkvæða. Í framkvæmd er það svo að þeir flokkar sem ná mönnum á þing samkvæmt úrslitum kosninga skipa undirbúningskjörbréfanefnd áður en þing kemur fyrst saman til að hefja vinnu væntanlegrar kjörbréfanefndar.

Alþingi getur úrskurðað kjör einstakra frambjóðenda ógilt, t.d. vegna þess að frambjóðandinn var ekki kjörgengur eða ef hann var í framboði á fleiri en einum lista. Ef kjör framboðslista í heild er úrskurðað ógilt af Alþingi, þá skal samkvæmt ákvæðum kosningalaga fara fram uppkosning í því kjördæmi. Slík uppkosning fór fram í Seyðisfjarðarkaupstað 1909 eftir að Alþingi úrskurðaði kjör Valtýs Guðmundssonar í kosningunum árið áður ógilt. Valtýr beið lægri hlut gegn andstæðingi sínum Birni Þorlákssyni. Engin nýlegri dæmi eru um að kjörbréfanefnd hafi gert tillögu til Alþingis um að ógilda kjör þingmanna og láta fara fram uppkosningar.[2]

Í kjölfar kosninganna 2021 komu fram ágallar á framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi. Samkvæmt áliti Landskjörstjórnar var ekki hægt að fullyrða að meðferð kjörgagna á milli fyrstu talningar á kosninganótt og endurtalningar daginn eftir hafi verið með lögmætum hætti. Landskjörstjórn gaf engu að síður út kjörbréf til þeirra frambjóðenda sem náðu kjöri samkvæmt niðurstöðum endurtalningar í kjördæminu og benti á að einungis Alþingi hefði úrskurðarvald um það hvort að ágallar á framkvæmd kosninga ættu að leiða til ógildingar á þeim.[3] Þrír frambjóðendur í kosningunum (Magnús Norðdahl, Guðmundur Gunnarsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir) kærðu framkvæmd kosninganna til kjörbréfanefndar þingsins og kröfðust ógildingar á kosningunum. Þar að auki kærði Karl Gauti Hjaltason framkvæmd kosninganna til lögreglu.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Vísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Skipta út konu fyrir karl vegna jafn­réttis­­sjónar­miða - visir.is, 4.10.2021
  2. Ólafur Þ. Harðarson - Um ógildingu kosninga - frettabladid.is, 1.10.2021
  3. „Tilkynning um úrslit kosninga til Alþingis 25. september 2021 og úthlutun þingsæta - Landskjörstjórn, 1.10.2021“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. september 2022. Sótt 4. október 2021.