Fara í innihald

Karl 5. keisari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Karl V (HRR))
Skjaldarmerki Habsborgarar Konungur Spánar og keisari Heilaga rómverska ríkisins
Habsborgarar
Karl 5. keisari
Karl 1. og 5.
Ríkisár 23. janúar 1516 – 16. janúar 1556 (sem konungur Spánar); 28. júní 1519 – 27. ágúst 1556 (sem keisari Heilaga rómverska ríkisins)
SkírnarnafnCarlos (spænska); Karl (þýska); Carlo (ítalska); Karel (hollenska); Carolus (latína); Charles Quint (franska)
Fæddur24. febrúar 1500
 Gent, spænsku Niðurlöndum
Dáinn21. september 1558
 San Gerónimo de Yuste, Spáni
GröfEl Escorial, San Lorenzo de El Escorial, Spáni
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Filippus 1. af Kastilíu
Móðir Jóhanna af Kastilíu
DrottningÍsabella af Portúgal
BörnFilippus (1527-1598), María (1528-1603), Jóhanna (1535-1573)

Karl 5. keisari (24. febrúar 1500 í Gent21. september 1558 í klaustrinu San Gerónimo de Yuste á Spáni) var konungur Spánar, sem Karl 1., og keisari hins heilaga rómverska ríkis, sem Karl 5., á fyrri hluta 16. aldar. Hann var fyrsti keisari ríkisins sem páfi krýndi ekki til keisara. Eftir hans daga fór krýningin fram í Frankfurt og var í höndum biskups.

Karl fæddist í Gent á Niðurlöndum (Belgía í dag) árið 1500. Faðir hans var Filippus 1. af Kastilíu, Hann var annar Habsborgarinn sem varð konungur á Spáni, en samtímis var hann hertoginn af Búrgúnd. Filippus var sjálfur sonur Maximilíans 1. keisara og Maríu af Búrgund. Móðir Karls var Jóhanna hin vitskerta af Kastilíu, dóttir Ferdinands 2. af Aragóníu og Ísabellu drottningar í Kastilíu.

Hertogi af Búrgúnd

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Karl var aðeins 6 ára lést faðir hans. Karl varð því næsti hertogi af Búrgúnd, sem í þá daga náði yfir Holland, Belgíu og norðaustasta hérað Frakklands í dag. Karl ólst upp í Brussel, en prófasturinn í Utrecht, Adrian, veitti honum kristinfræðikennslu. Adrian varð seinna Hadríanus 6.. páfi.

Konungur Spánar

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1516 lést Ferdinand af Aragóníu, afi hans (og eiginmaður Ísabellu drottningar). Karli var þá boðin spænska krúnan, þótt hann væri aðeins 16 ára að aldri, og þáði hann hana. Reyndar var móðir hans enn á lífi, en hún var álitin vitskert og því ekki í standi til að stjórna stóru ríki. Með Karli sameinuðust konungsdæmin Kastilía og Aragnónía í eitt stórt ríki (Spán). En undir Spán heyrðu einnig héruðin Navarra, Granada, Sikiley og Sardinía, að ógleymdum öllum nýju nýlendunum sem voru að spretta upp í Ameríku. Því er Karl oft nefndur fyrsti eiginlegi konungur Spánar.

Keisari hins heilaga rómverska ríkis

[breyta | breyta frumkóða]
Karl ríkti yfir mjög víðlendu ríki. Málverk eftir Rubens.

Árið 1519 lést Maximilían 1. (afi Karls). Þá söfnuðust kjörfurstarnir saman í Frankfurt og réðu ráðum sínum. Fjórir menn höfðu gefið kost á sér og áttu þeir allir einhvers konar tilkall.

Kjörfurstarnir völdu Karl. Krýningin, bæði til konungs og keisara, fór fram árið 1520 í dómkirkjunni í Aachen og sá erkibiskupinn Hermann af Wied um vígsluna. Þetta var í fyrsta sinn í sögu hins Heilaga rómverska ríkis sem páfi sá ekki um vígslu nýs keisara. Hins vegar samþykkti Leó 10. páfi gjörninginn og Klemens 7. staðfesti keisarakrýninguna árið 1530 þegar hann sat í Bologna. Þetta var í síðasta sinn sem páfi hafði með keisarakjör í hinu heilaga rómverska ríki að gera. Karl var því höfuðerfingi alls Habsborgarríkisins, sem þá náði yfir Þýskaland (með Austurríki), Búrgúnd (með Niðurlöndum) og Spán (með ítölskum lénum). Ef nýlendurnar í Ameríku eru taldar með má segja að sjaldan hafi verið til keisari yfir eins víðfeðmu svæði. Karl sjálfur var aðeins 19 ára gamall við kjörið og tvítugur við krýninguna. Sagt var að sólin settist aldrei í ríki hans.

Karl 5. og Frans 1. Frakkakonungur háðu blóðuga bardaga um yfirráð yfir Norður-Ítalíu, sérstaklega borginni Mílanó. Þetta var langvinnt stríð sem stóð nær sleitulaust frá 1521 til 1544. Ekki var aðeins barist á Ítalíu, heldur einnig á Niðurlöndum. Í orrustunni við Pavía 1525 náði Karl að handsama Frans og setja hann í varðhald. Í Madridarsáttmálanum undirritaði Frans yfirlýsingu þess efnis að hann hætti öllu tilkalli til Ítalíu og Niðurlanda. Við svo búið var hann látinn laus. En Frans rauf skilmálana og Ítalíustríðin héldu áfram. Frans náði að gera bandalag við Feneyjar, sem jafnvel páfi lagði blessun sína yfir. Karl lét því heri sína ræna Róm 1527. En bardagarnir skiluðu litlum árangri, hvorki fyrir keisara né fyrir Frans. Alls háðu þessir aðilar fjórar styrjaldir og lauk þeim ekki fyrr en 1544 þegar Englendingar og Karl réðust saman inn í Frakkland. Frans lést 1457 er hann var að undirbúa enn frekara stríð við hið Heilaga rómverska ríki.

Þýskaland

[breyta | breyta frumkóða]
Karl á ríkisþinginu í Ágsborg.

Strax árið 1521 bauð Karl Marteini Lúther á þingið í Worms. Lúther fékk þar tækifæri til að gera grein fyrir afstöðu sinni til kaþólsku kirkjunnar. Hann neitaði að taka til baka mótmæli sín gegn kaþólsku kirkjunni og studdi málstað sinn af þvílíkum krafti að enginn fékk að gert. Á hann var lagt ríkisbann, en Lúther flúði af vettvangi að næturlagi til að komast hjá handtöku. Karl gerði sér hins vegar enga grein fyrir þeirri holskeflu sem Lúther átti eftir að leysa úr læðingi með siðaskiptunum. Hann var reyndar svo upptekinn á Ítalíu að hann átti erfitt með að bregðast við þegar siðaskiptin fóru í gang fyrir alvöru. Bændauppreisnin mikla geisaði í ríkinu á árunum 1524-26 og árið 1531 mynduðu siðaskiptamenn með sér bandalag (Schmalkaldischer Bund) sem keisari þurfti að berja niður. Sökum anna eftirlét hann bróður sínum, Ferdinand, þessi mál. Árið 1530 kallaði Karl ríkisþing saman í Ágsborg. Þar samdi hann fyrstu eiginlegu stjórnarskrá ríkisins og gaf út tilskipun um rétt þeirra sem aðhylltust siðaskiptin, til að lifa í friði. Þegar kaþólska kirkjan hóf gagnsiðbót sína árið 1545, vann Karl þó ötullega að því að fá fursta og greifa til liðs við kirkjuna á ný. Auk þess gekk hann endanlega milli bols og höfuðs á her mótmælenda.

Á 16. öld fór Mið- og Vestur-Evrópu fyrst að standa fyrir alvöru einhver ógn af Tyrkjum. Árið 1521 féll Belgrad og 1529 stóð Súleiman mikli með 120 þúsund manna lið fyrir utan Vínarborg. Tyrkjaógnin magnaðist enn meir við það að Frans 1. Frakklandskonungur gerði bandalag við þá, í þeirri von að binda Karl í stríði við Tyrki, þannig að Frakkar ættu auðveldara með að vinna lönd á Ítalíu og í Niðurlöndum. Ógnin af Tyrkjum var við lýði svo lengi sem Karl var keisari.

Árið 1556 ákvað Karl að segja af sér sem keisari hins Heilaga rómverska ríkis. Hann var þá orðinn 56 ára og hafði ekki heilsu til að ferðast fram og til baka um hið stóra ríki og berja á erlendum herjum. Löndunum skipti hann í tvennt milli sonar síns og bróður. Sonur hans, Filippus, fékk Spán og Búrgúnd. Bróðir hans, Ferdinand 1., varð keisari hins Heilaga rómverska ríkis. Hann tilkynnti kjörfurstunum um afsögn sína, en það var einstakt í allri sögu hins Heilaga rómverska ríkis að keisari segði af sér. Þegar búið var að sjá um öll málin, dró hann sig í hlé og settist að í klaustrinu San Jerónimo de Yuste í héraðinu Extremadura á Spáni. Tveimur árum seinna var hann allur. Talið er að hann hafi látist úr malaríu. Það fékkst staðfest 2007 er efnagreining var gerð á einum fingra hans. Karl var jarðaður á staðnum. Seinna flutti Filippus sonur hans líkið í kastalaklaustrið El Escorial fyrir norðan Madrid.

Eitt dæmi um hve víðlent ríki Karls var er lítil setning sem hann sjálfur ritaði. „Ég tala spænsku við Guð, ítölsku við konur, frönsku við menn mína og þýsku við hestinn minn.“

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1526 kvæntist Karl Ísabellu frá Portúgal, systur Jóhanns 3. konungs þar (sem sjálfur var kvæntur Katrínu, systur Karls). Þau áttu þrjú börn sem komust upp:

Auk þess átti Karl í ástarsambandi við ýmsar konur og gekkst við nokkrum óskilgetnum börnum. Þeirra helst voru:

Fyrirmynd greinarinnar var „Karl V. (HRR)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.


Fyrirrennari:
Jóhanna
(sem drottning Kastilíu)
Ferdinand
(sem konungur Aragóníu)
Konungur Spánar
(15161556)
Eftirmaður:
Filippus 2.
Fyrirrennari:
Maximilían 1. keisari
Keisari þýska ríkisins
(15191556)
Eftirmaður:
Ferdinand 1. keisari