Fara í innihald

Ísabella 2. Spánardrottning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Búrbónaætt Drottning Spánar
Búrbónaætt
Ísabella 2. Spánardrottning
Ísabella 2.
Ríkisár 29. september 183330. september 1868
SkírnarnafnMaría Isabel Luisa de Borbón y Borbón-Dos Sicilias
Fædd10. október 1830
 Madrid, Spáni
Dáin9. apríl 1904 (73 ára)
 París, Frakklandi
GröfEl Escorial
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Ferdinand 7. Spánarkonungur
Móðir María Kristín af Sikileyjunum tveimur
EiginmaðurFrans, hertogi af Cádiz
Börn4, þ. á m. Alfons 12.

Ísabella 2. (10. október 1830 – 9. apríl 1904) var drottning Spánar frá 1833 til 1868. Hún kom til ríkis þegar hún var smábarn en Karlistar, sem studdu tilkall Karls greifa af Molina til krúnunnar, neituðu lengi að viðurkenna lögmæti valdatöku hennar vegna þess að hún var kona. Eftir stormasama valdatíð var Ísabellu steypt af stóli í dýrlegu byltingunni árið 1868 og hún sagði formlega af sér árið 1870. Sonur hennar, Alfons 12., varð konungur árið 1874.

Ísabella var dóttir Ferdinands 7. Spánarkonungs og Maríu Kristínar af Sikileyjunum tveimur. Þar sem konungshjónin eignuðust enga syni lýsti Ferdinand því yfir að Ísabella myndi erfa ríkið eftir dauða hans.

Þegar Ferdinand lést árið 1833 gerðist María Kristín ríkisstjóri í nafni dóttur sinnar. Á þessum tíma dró bróðir Ferdinands, Karl, erfðarétt Ísabellu í efa og lagði grunninn að Karlistahreyfingunni, sem átti eftir að valda samfélagsóeirð og borgarastyrjöldum næstu áratugina á Spáni. Eftir að Karlistar tóku til vopna gegn ríkisstjórninni kom María Kristín í gegn ýmsum umbótum sem gerðu það að verkum að stuðningur alþýðunnar við málstað Karls dvínaði. Þegar Karl gafst upp á baráttu sinni árið 1840 hóf María Kristín að draga umbæturnar til baka. Þessi viðsnúningur var henni til svo mikilla óvinsælda að hún neyddist til að segja af sér og hershöfðinginn Baldomero Espartero gerðist ríkisstjóri í hennar stað. Espertero varð einnig óvinsæll og neyddist hann til þess að segja af sér og flýja land árið 1843.

Valdatíð Ísabellu

[breyta | breyta frumkóða]

Ísabella var lýst lögráða árið 1843, þá þrettán ára að aldri, og tók sjálf við stjórnartaumunum. Eftir valdatöku hennar hófst afar stormasamt tímabil í spænskum stjórnmálum sem einkenndist af stöðugum stjórnarskiptum. Aðför Ísabellu gegn héraðsstjórnum Spánar leiddi til þess að Karlistar risu upp að nýju en uppreisn þeirra lognaðist í sundur árið 1849. Pólitískur óstöðugleiki hélt þó áfram og árið 1854 var gerð mun stærri uppreisn vegna matarskortar. Uppreisnin leiddi til þess að Espartero sneri aftur til valda, en hann neyddist fljótt til að segja af sér vegna deilna um nýja stjórnarskrá sem hann hugðist setja. Leopoldo O'Donnell gerðist forsætisráðherra og var við völd í fimm ár.

Tvær uppreisnir árin 1866 og 1868 neyddu Ísabellu loks til að segja af sér og yfirgefa Spán. Hún settist að í setri í París sem fékk nafnið Kastilíuhöll. Í stað hennar gerðist Francisco Serrano Domínguez ríkisstjóri til ársins 1870. Afsögn Ísabellu varð ein kveikjan að fransk-prússneska stríðinu árið 1870 því Prússar stungu upp á því að meðlimur Hohenzollern-ættarinnar, sem réð yfir Prússlandi, tæki við spænsku krúnunni. Þetta vildi Napóleon 3. Frakkakeisari alls ekki, því hann óttaðist að Frakkland yrði umkringt þýskum valdaættum ef fallist yrði á tillögu Prússa. Prússar drógu tillöguna til baka en samband þeirra við Frakka stirðnaði mjög við þessa krúnudeilu.

Amadeus hertoga af Savojaættinni var að endingu boðið að gerast konungur Spánar. Amadeus var steypt af stóli árið 1873 og lýðveldi stofnað á Spáni. Lýðveldið varð ekki langlíft og leið undir lok strax næsta ár. Ísabella hafði þá þegar afsalað sér tilkalli til spænsku krúnunnar og því fór svo að sonur hennar, Alfons 12., tók við krúnunni við endurreisn konungdæmisins árið 1874. Alfons var opinberlega sonur Ísabellu með eiginmanni hennar, Frans hertoga af Cádiz, en Karlistar héldu því fram að hann væri í raun sonur hennar með lífvarðaforingjanum Enrique Puigmoltó y Mayans.[1]

Eftir endurreisn konungdæmisins sneri Ísabella aftur til Spánar og bjó ýmist þar eða í París sem konungsmóðir. Hún lést í París þann 9. apríl árið 1904. Hún var grafin í El Escorial.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Juan Sisinio Pérez Garzón, Isabel II: Los Espejos de la Reina (2004).


Fyrirrennari:
Ferdinand 7.
Drottning Spánar
(29. september 183330. september 1868)
Eftirmaður:
Amadeus 1.