Navarra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Navarra.

Navarra (baskneska: Nafarroa) er sjálfstjórnarsvæði á Norður-Spáni, að mestu í og undir rótum Pýreneafjalla. Höfuðstaður þess er Pamplona. Hluti íbúanna er Baskar.

Navarra var eitt sinn sjálfstætt konungsríki, Konungsríkið Navarra, en er nú sjálfsstjórnarsvæði með eigið þing og stjórn, sem ber ábyrgð á heilbrigðismálum, atvinnumálum, menntun, félagsþjónustu, húsnæðismálum og fleiru eins og önnur spænsk sjálfsstjórnarsvæði. Það eru þó aðeins Navarra og Baskaland sem hafa yfirráð í skatta- og fjármálum sínum en verða þó að fylgja reglum sem spænska stjórnin setur.

Navarra skiptist í 272 sveitarfélög. Íbúatalan árið 2006 var 601.874 og þar af bjó um helmingur í Pamplona og nærliggjandi bæjum. Enginn annar stórbær er á svæðinu.

Þótt Navarra sé ekki ýkja stórt um sig - aðeins 2,2% af flatarmáli Spánar - má þar finna mikla fjölbreytni í landslagi, frá tindum og hlíðum Pýreneafjalla (hæsti tindurinn er Hiru Erregeen Mahaia, 2.428 m) í norðri til sléttanna við Ebro-fljót í suðri. Þar er ræktað hveiti, grænmeti, vínviður og ólífutré.

Navarra er leiðandi í nýtingu sjálfbærrar orku. Árið 2004 var 61% rafmagnsnotkunar svæðisins framleitt á sjálfbæran hátt, ýmist með vindmyllum, litlum vatnsorkuvirkjunum eða sólarorkuverum. Stefnt er á að 100% orkunvinnslunnar verði sjálfbær.

Spænska er opinbert tungumál Navarra og baskneska einnig í þeim sveitarfélögum þar sem baskneskumælandi íbúar eru í meirihluta en það er einkum í norðvesturhluta landsins.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]