Fara í innihald

Karl Rove

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl Rove

Karl Christian Rove (fæddur 25. desember 1950) gegndi störfum ráðgjafa og starfsmannastjóra Hvíta hússins í forsetatíð George W. Bush. Innan Hvíta hússins hefur hann einnig verið yfirmaður í ýmsum öðrum deildum. Eftir starfstíma hans í Hvíta húsinu hefur hann unnið fyrir Fox fréttastöðina, Newsweek og The Wall Street Journal en þar fékkst hann við greiningu á sviði pólitíkur. Fyrir starfstíma hans í Hvíta húsinu fékkst hann við störf tengd ótal kosningabaráttum fyrir Repúblikanaflokkinn.

Karl Rove er fæddur í Denver í Colorado en ólst upp í Sparks í Nevada. Hann er alinn upp af móðir sinni og stjúpföður. Þegar Karl Rove var 15 ára gamall flutti hann til Salt Lake City og gekk þar í menntaskóla (e. High school) og nam þar rökræðu. Í framhaldsnámi komu fram hæfileikar hans í stjórnun kosningabarátta því hann var kjörinn forseti nemendaráðs.[1] Árið 1981 þegar Karl Rover varð 31 árs missti hann móður sína er hún tók eigið líf.[2]

Þátttaka í stjórnmálum

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta innkoma Karl Rove í stjórnmál var aðkoma hans að kosningarbarráttu öldungadeildar þingmannsins Wallace F. Bennet en Bennet varð seinna leiðbeinandi hans. Karl Rove fór í háskólann í Utah en samhliða skólagöngu sinni hélt hann áfram aðkomu sinni að kosningabaráttum. Þegar Karl Rove var 19 ára braust hann inn í kosningaskrifstofu Alan J. Dixon og stal þar dreifimiðum og bjó til nýja með fölskum skilaboðum. Engu að síður vann Dixon kosningarnar. Karl Rove hefur þurft að svara fyrir þetta atvik og hefur hann afsakað þetta sem meinlausan hrekk.[3]

Ungir repúblikanar og aðkoma hans að Watergate málinu

[breyta | breyta frumkóða]

Karl Rove hætti í framhaldsnámi og gekk til liðs við unga repúblikana og tók meðal annars virkan þátt í kosningabaráttu Richard Nixon. Þegar upp komst um Watergate-málið og Alríkislögreglan hóf rannsókn á því kom nafn Karl Rove upp þar sem hann hafði áður tekið þátt í spillingu gegn demókrötum. Hann var boðaður til skýrslutöku af frumkvæði George H W. Bush en mál hans fellt niður.[4] Eftir að mál hans var fellt niður gerir Bush eldri hann að formanni ungra repúblikana en seinna gerði Bush eldri hann að sérstökum ráðgjafa í ráði Repúblikanaflokksins á landsvísu (e. Republican National Committee) en Bush eldri var þá formaður þess. Á þessum tíma kynntist Karl Rove George W. Bush í fyrsta skipti og átti starfsamband þeirra eftir að blómstra með tímanum.[5]

Karl Rove og kosningabaráttur

[breyta | breyta frumkóða]

1977 – 1981

[breyta | breyta frumkóða]

Karl Rove var aðstoðarmaður fulltrúadeildarþingmanns í Texas, Fred Agnich, árið 1977 og var það hans fyrsta starf í Texas.[6] Hann aðstoðaði repúblikanann Bill Clements til sigurs í ríkisstjórakosningunum í Texas árið 1978 en yfir 100 ár höfðu liðið frá því repúblikani hafði gegnt því embætti síðast.[7] Hann var fyrstur þeirra sem George H.W. Bush réði í kosningabaráttu forkosninga repúblikana til forsetaframboðs árið 1980, sem fóru á þann veg að Bush tapaði en varð varaforsetaefni Ronalds Reagan í sjálfum kosningunum.[8]

1981 – 1991

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1981 stofnaði Karl Rove auglýsinga- og ráðgjafafyrirtæki og á meðal fyrstu viðskiptavina þess voru Bill Clements og Bill Gramm, þingmaður demókrata sem seinna varð þingmaður repúblikana.[9] Karl Rove aðstoðaði Phil Gramm til sigurs gegn Ron Paul í forkosningum repúblikana, og gegn demókratanum Lloud Doggot í sjálfum kosningunum, í baráttunni um öldungadeildarsætið í Texas árið 1984.[10] Karl Rove aðstoðaði Bill Clements við að ná kjöri í kosningunum um ríkisstjóraembættið í annað sinn árið 1986 en Clements hafði tapað ríkisstjóraembættinu til Mark White fjórum árum áður.[11] Rove aðstoðaði Thomas R. Phillips við að verða fyrsti repúblikaninn til að ná kjöri forseta hæstaréttar í Texas árið 1988.[12]

1992 – 2004

[breyta | breyta frumkóða]
George W. og Laura Bush ásamt Karl Rove

Árið 1991 sagði Dick Thornburgh af sér embætti dómsmálaráðherra og bauð sig fram fyrir repúblikana í öldungadeildaþingkosningunum í Pennsylvaníu. Auglýsinga- og ráðgjafafyrirtæki Karl Rove vann við kosningabaráttu Thornburgh en úrslitin urðu óvænt tap fyrir frambjóðanda demókrata, Harris Wofford.[13] Karl Rove starfaði við kosningabaráttu George H.W. Bush í forsetakosningunum árið 1992 en var rekinn þaðan fyrir að hafa komið fyrir neikvæðum fréttum um óánægju með fjármögnunarstjóra kosningabaráttunnar, Robert Moshbacher Jr.[14] Karl Rove veitti George W. Bush ráðgjöf í aðdraganda kosninganna um ríkisstjóraembættið í Texas árið 1994. Bush tilkynnti framboð sitt í nóvember 1993 og strax í janúar 1994 hafði hann eytt yfir 600.000 dollurum í kosningabaráttuna, sem var gegn Ann Richards, frambjóðanda demókrata, og fóru þar af 340.000 dollarar til auglýsinga- og ráðgjafafyrirtæki Rove. Karl Rove veitti George W. Bush einnig ráðgjöf í kosningabaráttu sinni til endurkjörs ríkisstjóra Texas árið 1998. Á sex mánaða tímabili, frá júlí og fram í desember 1998, greiddi kosningasjóður Bush um 2,5 milljónir dollara til auglýsinga- og ráðgjafafyrirtækis Rove.[15] Árið 1999 seldi Karl Rove auglýsinga- og ráðgjafafyrirtæki sitt. Hann var að taka að sér starf kosningastjóra í kosningabaráttu George W. Bush til embættis forseta Bandaríkjanna árið 2000 og var salan á fyrirtækinu skilyrði sem Bush setti honum fyrir starfinu.[16] Bush sigraði í þeim kosningum, gegn frambjóðenda demókrata, Al Gore, á sögulegan hátt. Bush sigraði einnig forsetakosningarnar 2004, þá gegn John Kerry, og þakkaði í kjölfarið Karl Rove fyrir snilli sína og kallaði hann „arkitektinn“ í sigurræðu sinni.[17]

Ríkisstjórn George W. Bush

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar George W.Bush var fyrst vígður í embætti forseta í janúar árið 2001 þáði Rove embætti æðsta ráðgjafa. Honum var síðar veitt staða starfsmannastjóra Hvíta hússins eftir hinar árangursríku forsetakosningar 2004.

Í apríl 2006 var Rove úthlutað nýrri stöðu, áður hafði hann sinnt hlutverki að þróa áfram stefnumótun en það fólst í því að einblína á að undirbúa herferð fyrir þingkosningarnar sem væntanlegar voru í nóvember 2006.[18]

Rove sagði þeirri stöðu lausri frá og með 31.ágúst 2007.[19]

Afdrif Karl Rove að loknum störfum í Hvíta húsinu

[breyta | breyta frumkóða]

Skömmu eftir að hafa sagt starfi sínu lausu í Hvíta húsinu var Rove ráðinn til að skrifa um forsetakosningar sem voru árið 2008 fyrir tímaritið Newsweek.[20] Hann var einnig ráðinn sem ráðgjafi hjá Wall Street Journal og sérfræðingur á sviði stjórnmála fyrir Fox News. Rove var óformlegur ráðgjafi John McCain sem bauð sig fram fyrir hönd Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum árið 2008 en einnig styrkti hann þá kosningabaráttu sjálfur um 2300 dollara.[21] Ævisaga hans Courage and Consequence var síðan gefin út í mars árið 2010.

Rove hefur einnig eytt miklum tíma í það að halda fyrirlestra víðs vegar í skólum og fyrir hina ýmsu hópa. Í mars árið 2008 var Rove ráðinn til að halda fyrirlestur við háskólann í Iowa en á þann fyrirlestur mættu um 1000 manns. Þar var honum ekki vel tekið og honum sýndur fjandskapur en lögreglan þurfti að fjarlægja tvo nemendur eftir að þeir reynda að handsama hann með borgaralegri handtöku fyrir meinta glæpi hans á meðan hann starfaði innan stjórnar Bush.[22]

22. maí árið 2008 fékk Rove stefnu frá formanni dómstóla fulltrúadeildarinnar (e. House Judiciary Committee) John Conyers en hann átti að bera vitni um stjórnmálavæðingu dómsmálaráðuneytisins. Rove neitaði hins vegar að viðurkenna löggjafarstefnuna og bar fyrir sig sérréttindi framkvæmdastjóra sem ástæðuna.[23][24]

Þann 23. febrúar árið 2009 var Rove aftur gert skylt að mæta fyrir dómstól fulltrúadeildar með löggjafarstefnu til að bera vitni um vitneskju hans hvað varðaði uppsagnir á opinberum saksóknurum (e. U.S. attorneys) og meintri málsókn á hendur ríkisstjóra Alabama, Don Siegleman, en mætti ekki fyrir rétt. Hann og fyrrum ráðgjafi Hvíta hússins hafa síðan samþykkt að bera vitni eiðsvarnir frammi fyrir þinginu um mál sem þessi.[25]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Banaszak, B og Elving, R (13. júní 2006). Karl Rove, the President's 'Boy Genius'. NPR.org. Sótt 12. nóvember 2010.
  2. Romney, M (5. mars 2010). The Situation Room. Transcripts.cnn.com. Sótt 12. nóvember 2010.
  3. Balz, D (1999). Karl Rove The Strategist. Washingtonpost.com. Sótt 12. nóvember 2010.
  4. Talbot, D (30. mars 2004). Creepier than Nixon Geymt 14 apríl 2010 í Wayback Machine. Salon.com. Sótt 12. nóvember 2010.
  5. Borger, J (9. mars 2004). The brains. Theguirdian.co.uk Sótt 12. nóvember 2010.
  6. Museumstuff.com (e.d.). Karl Rove: The Texas Years And Notable Political Campaigns. Sótt 12. nóvember 2010.
  7. Museumstuff.com (e.d.). Karl Rove: The Texas Years And Notable Political Campaigns. Sótt 12. nóvember 2010.
  8. Museumstuff.com (e.d.). Karl Rove: The Texas Years And Notable Political Campaigns. Sótt 12. nóvember 2010.
  9. Notablebiographies.com (e.d.). Karl Rove. Sótt 12. nóvember 2010.
  10. Museumstuff.com (e.d.). Karl Rove: The Texas Years And Notable Political Campaigns. Sótt 12. nóvember 2010.
  11. Museumstuff.com (e.d.). Karl Rove: The Texas Years And Notable Political Campaigns. Sótt 12. nóvember 2010.
  12. Museumstuff.com (e.d.). Karl Rove: The Texas Years And Notable Political Campaigns. Sótt 12. nóvember 2010.
  13. Museumstuff.com (e.d.). Karl Rove: The Texas Years And Notable Political Campaigns. Sótt 12. nóvember 2010.
  14. Xtimeline.com (e.d.). "Rove fired from Bush campaign"[óvirkur tengill]. Sótt 12. nóvember 2010.
  15. Reference.com (e.d.). Karl Rove Geymt 12 janúar 2013 í Wayback Machine. Sótt 12. nóvember 2010.
  16. Brodsky, R (e.d.). Consultans Geymt 6 júlí 2010 í Wayback Machine. The Center for the Public Integrity. Sótt 12. nóvember 2010.
  17. Milbank, D (12. apríl 2005). Frontline: Karl Rove. PBS. Sótt 12. nóvember 2010.
  18. Jackson, D og Benedetto, R (20. apríl 2006). White House 'transition' continues. USA Today. Sótt 12. nóvember 2010.
  19. Baker, P og Fletcher, M (14. ágúst 2007). Rove to Leave White House Post. The Washington Post. Sótt 12. nóvember 2010.
  20. Kurtz, H (15. nóvember 2007). Karl Rove's New Gig. The Washington Post. Sótt 12. nóvember 2010.
  21. Kuhn, D (8. mars 2008). Mehlman, Rove boost McCain campaign Geymt 25 febrúar 2008 í Wayback Machine. Politico. Sótt 12. nóvember 2010.
  22. Mooney, A (10. mars 2008). Rove taunted at University of Iowa Geymt 25 febrúar 2008 í Wayback Machine. CNN Politics. Sótt 12. nóvember 2010.
  23. Evans, B (10. júlí 2008). Rove ignores subpoena, refuses to testify on Hill. USA Today. Sótt 12. nóvember 2010.
  24. Johnson, C (23. maí 2008). House Panel Subpoenas Rove Over Role in Justice Dept. Actions. The Washington Post. Sótt 12. nóvember 2010.
  25. Carroll, J (26. júní 2008). Rove, critics try to pin 'arrogant' label on Obama[óvirkur tengill]. CNN Politics. Sótt 12. nóvember 2010.