John A. Macdonald

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sir John A. Macdonald
Forsætisráðherra Kanada
Í embætti
1. júlí 1867 – 5. nóvember 1873
ÞjóðhöfðingiViktoría
LandstjóriVísigreifinn af Monck
Lisgar lávarður
Jarlinn af Dufferin
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurAlexander Mackenzie
Í embætti
17. október 1878 – 6. júní 1891
ÞjóðhöfðingiViktoría
LandstjóriJarlinn af Dufferin
Markgreifinn af Lorne
Markgreifinn af Lansdowne
Stanley lávarður af Preston
ForveriAlexander Mackenzie
EftirmaðurJohn Abbott
Persónulegar upplýsingar
Fæddur11. janúar 1815
Glasgow, Skotlandi
Látinn6. júní 1891 (76 ára) Ottawa, Kanada
DánarorsökHeilablóðfall
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiIsabella Clark (g. 1843; d.1857)
Agnes Bernard (g. 1867)
Börn3
StarfLögfræðingur
Undirskrift

Sir John Alexander Macdonald (11. janúar 1815 – 6. júní 1891) var fyrsti forsætisráðherra Kanada, í embætti á árunum 1867–1873 og 1878–1891. Macdonald var einn helsti hvatamaðurinn á bak við sameiningu bresku nýlendanna í Norður-Ameríku í eitt fylkjasamband sem varð grunnurinn að Kanada nútímans.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

John A. Macdonald fæddist í Glasgow á Skotlandi árið 1815 en fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Ontario í Norður-Ameríku þegar hann var drengur. Fjölskyldan settist að í Kingston og Macdonald gekk þar í skóla.[1] Macdonald gerðist lögfræðingur og varð velkunnur meðal íbúa Kingston eftir að hafa tekið fyrir ýmis réttarmál sem vöktu mikla athygli.

Macdonald var kjörinn á þing fyrir Kingston árið 1844. Þremur árum áður höfðu Ontario og Québec færst undir sömu stjórn og kusu hvort um sig 40 þingmenn á sameiginlegt þing. Macdonald varð leiðtogi Frjálslyndra íhaldsmanna á þinginu og fékk til liðs við flokkinn þingmenn frá bæði Québec og Ontario. Einn helsti keppinautur Macdonalds, George Brown, var vanur að gagnrýna hann fyrir drykkjuskap en Macdonald svaraði gagnrýninni: „Það er satt, en ég veit og George Brown veit að fólkið treystir mér betur fullum heldur en George Brown ófullum.“[1]

Macdonald var meðforsætisráðherra stjórnar Ontario og Québec með tveimur hléum frá 1856 til 1867. Hann gerðist forvígslumaður þess að allar nýlendur Bretlands í Norður-Ameríku skyldu sameinast í eitt ríki. Árið 1866 var hann kjörinn forseti sérstakrar ráðstefnu í London þar sem rætt var um stofnun kanadísks fylkjasambands í Norður-Ameríku sem skyldi telja til sín Ontario, Québec, Nova Scotia og Nýju-Brúnsvík. Macdonald sjálfur samdi fimmtíu af sjötíu og tveimur greinum lagabálksins sem samþykktur var á ráðstefnunni og lagði grunn að nútímaríkinu Kanada. Eftir stofnun fylkjasambandsins Kanada var Macdonald skipaður fyrsti forsætisráðherra landsins.[1]

Forsætisráðherratíð[breyta | breyta frumkóða]

Eitt af verkefnum Macdonalds á ráðherratíð sinni var gerð fyrirhugaðrar járnbrautarlínu til vesturstrandar Kanada. Járnbrautarverkefnið varð hins vegar kveikirinn að hneykslismáli þegar fréttist að Macdonald og aðrir ríkisstjórnarmeðlimir hefðu tekið við mútufé frá Hugh Allan, eiganda skipalínunnar sem átti að leggja járnbrautina. Macdonald sagði því af sér árið 1873 og Alexander Mackenzie úr Frjálslynda flokknum varð forsætisráðherra í hans stað næstu fimm árin. Macdonald komst aftur til valda að loknu kjörtímabili Mackenzie og var áfram forsætisráðherra til dauðadags.[1]

Árið 1869 keypti stjórn Macdonalds landsvæði sem tilheyrði Hudsonflóafélaginu vestan við Ontario. Margir íbúar á svæðinu, sem flestir voru Métisar, afkomendur frumbyggja og franskra kaþólikka með eigin menningu, voru ekki hrifnir af því að vera skyndilega seldir undir stjórn Kanada. Því kom til uppreisnar þar sem maður að nafni Louis Riel stofnaði eigin bráðabirgðastjórn. Eftir að Riel lét skjóta mann frá Ontario sendi Macdonald herlið vestur til þess að kveða niður óeirðirnar og koma svæðinu undir kanadíska stjórn.[2]

Louis Riel gerði aðra uppreisn gegn stjórn Macdonalds fimmtán árum síðar. Þessi uppreisn gekk mun lengra en sú fyrri og endaði með því að Macdonald lét hengja Riel eftir að uppreisnarmenn höfðu verið sigraðir. Sú ákvörðun Macdonalds að taka Riel af lífi var mjög umdeild og kostaði Íhaldsflokkinn stuðning fjölmargra franskra kaþólikka.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Jóhann G. Jóhannsson (31. janúar 1963). „John A. Macdonald“. Lögberg-Heimskringla. bls. 19-20.
  2. 2,0 2,1 Jóhann G. Jóhannsson (7. febrúar 1963). „Sir John A. Macdonald“. Lögberg-Heimskringla. bls. 5; 7.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forsætisráðherra Kanada
(1. júlí 18675. nóvember 1873)
Eftirmaður:
Alexander Mackenzie
Fyrirrennari:
Alexander Mackenzie
Forsætisráðherra Kanada
(17. október 18786. júní 1891)
Eftirmaður:
John Abbott