Brian Mulroney

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brian Mulroney
Brian Mulroney árið 1984.
Forsætisráðherra Kanada
Í embætti
17. september 1984 – 25. júní 1993
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
LandstjóriJeanne Sauvé
Ray Hnatyshyn
ForveriJohn Turner
EftirmaðurKim Campbell
Persónulegar upplýsingar
Fæddur20. mars 1939(1939-03-20)
Baie-Comeau, Québec, Kanada
Látinn29. febrúar 2024 (84 ára) Palm Beach, Flórída, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiMila Pivnički ​(g. 1973)
Börn4
HáskóliHáskóli Heilags Frans Xavier
Dalhousie-háskóli
Laval-háskóli
StarfStjórnmálamaður, lögfræðingur, athafnamaður
Undirskrift

Martin Brian Mulroney (20. mars 1939 – 29. febrúar 2024) var kanadískur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Kanada frá 17. september 1984 til 25. júní 1993.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Á ráðherratíð sinni stóð Mulroney fyrir stórtækum efnahagsumbótum, þar á meðal fríverslunarsamningi Kanada við Bandaríkin og nýjum vöru- og þjónustuskatti. Áður en Mulroney hóf stjórnmálaferil sinn var hann kunnur lögfræðingur og viðskiptamaður í Montréal. Hann varð leiðtogi Framsækna íhaldsflokksins árið 1983 og leiddi flokkinn til stórsigurs í þingkosningum næsta ár gegn sitjandi ríkisstjórn Johns Turner úr Frjálslynda flokknum. Íhaldsmenn unnu í hverju einasta fylki og landsvæði, hrepptu meirihluta allra greiddra atkvæða í fyrsta skipti frá árinu 1958 og juku þingsætafjölda sinn um 111 sæti. Alls náði flokkurinn 211 þingsætum, sem er mesti fjöldi þingsæta sem nokkur flokkur hefur unnið í sögu Kanada. Flokkurinn vann 6,3 milljónir atkvæða, sem var einnig hæsti atkvæðafjöldi eins flokks í kosningum þar til Frjálslyndi flokkurinn sló það met árið 2015.

Á stjórnartíð sinni árið reyndi Mulroney að gera breytingar á stjórnarskrá Kanada með Meech Lake-sáttmálanum svokallaða, sem átti að fá fylkisstjórn Québec til að samþykkja frumvarp að stjórnarskrárbreytingum frá árinu 1982.[2] Fylkisstjórnirnar í Manitoba og Nýfundnalandi neituðu að staðfesta sáttmálann og því féll hann um sjálfan sig árið 1990. Mulroney hélt áfram samningaviðræðum í Charlottetown árin 1991 og 1992 sem leiddu til Charlottetown-sáttmálans. Sáttmálinn gerði ráð fyrir umtalsverðum breytingum á stjórnarskránni, meðal annars viðurkenningu á Québec sem sérstöku samfélagi. Þessum sáttmála var hafnað með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu í október árið 1992.[3] Endalok Meech Lake-sáttmálans árið 1990 leiddi til sundrungar í landinu og stuðlaði að uppgangi sjálfstæðishreyfingarinnar í Québec, meðal annars með stofnun sjálfstæðisflokksins Bloc Québécois (BQ).[4]

Mulroney var andstæðingur aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku og á stjórnartíð sinni fundaði hann með mörgum suður-afrískum stjórnarandstæðingum. Með afstöðu sinni lenti Mulroney uppi á kant við stjórnir Bretlands og Bandaríkjanna en aftur á móti ávann hann sér virðingu með henni annars staðar. Fyrsta kjörtímabil Mulroney markaðist af mannskæðri hryðjuverkaárás þegar farþegaflugvél á Air India flugi 182 sprakk í loft upp yfir Atlantshafi á leið frá Montréal til Delí í gegnum London. Um var að ræða mannskæðustu fjöldamorð í sögu Kanada og stjórn Mulroney sætti harðri gagnrýni fyrir viðbrögð sín við atvikinu. Stjórn Mulroney var afar mótfallin stuðningi Bandaríkjastjórnar við kontraskæruliða gegn stjórn sandínista í Níkaragva. Á stjórnartíð hans tóku Kanadamenn við flóttamönnum frá El Salvador, Gvatemala og öðrum einræðisríkjum sem nutu stuðnings Reagan-stjórnarinnar í Bandaríkjunum.

Mulroney lagði áherslu á náttúruvernd sem forsætisráðherra og á stjórnartíð hans varð Kanada fyrsta iðnríkið sem fullgilti bæði samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og loftslagssamninginn sem saminn var á Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun. Stjórn hans stofnaði nýja þjóðgarða (Bruce Peninsula, Suður-Moresby og Grasslands-þjóðgarðinn) og setti ný lög um umhverfismat og umhverfisvernd.[3]

Mulroney vann endurkjör í kosningum árið 1988. Var þetta í fyrsta skipti á 20. öldinni sem Íhaldsflokkurinn gat myndað meirihlutastjórn eftir tvær kosningar í röð.[5] Á öðru kjörtímabili sínu setti Mulroney nýjan söluskatt, svokallaðan vöru- og þjónustuskatt (enska: Goods and Services Tax eða GST). Skatturinn varð mjög óvinsæll og samþykki hans á efri deild kanadíska þingsins varð mjög umdeilt. Óvinsældir skattsins ásamt efnahagskreppu í byrjun tíunda áratugarins og endalokum Charlottetown-sáttmálans leiddi til þess að vinsældir Mulroney báðu verulegan hnekki. Hann ákvað að endingu að segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Kim Campbell var kjörin eftirmaður hans og tók við sem forsætisráðherra Kanada þann 25. júní 1993.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Norman Hilmer, "Brian Mulroney" Geymt 19 október 2019 í Wayback Machine. The Canadian Encyclopedia, 22. apríl 2013.
  2. G. Pétur Matthíasson (31. ágúst 1990). „Quebéc og sjálfstæðið“. Þjóðviljinn.
  3. 3,0 3,1 Blake, ed., Transforming the Nation: Canada and Brian Mulroney (2007)
  4. H. Graham Rawlinson and J.L. Granatstein, The Canadian 100: The 100 Most Influential Canadians of the 20th century, Toronto: McArthur & Company, 1997, bls. 19–20.
  5. Ágúst Hjörtur Ingþórsson (22. nóvember 1988). „Glæsilegur sigur Íhaldsflokksins“. Dagblaðið Vísir.
  6. Raymond B. Blake, ritstj., Transforming the Nation: Canada and Brian Mulroney (2007)


Fyrirrennari:
John Turner
Forsætisráðherra Kanada
(17. september 198425. júní 1993)
Eftirmaður:
Kim Campbell