Fara í innihald

Iðnó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Iðnaðarmannahúsið)
Iðnó (hægra megin), Tjörnin og ráðhús Reykjavíkur.
Iðnó um 1900. Hægra megin við miðju.
Megas og Spilverk þjóðanna á leiksviðinu í Iðnó
Opinn borgarafundur í Iðnó árið 2009.

Iðnaðarmannahúsið, oftast kallað Iðnó, er veitingahús og samkomuhús sem stendur við Vonarstræti 3 í miðbæ Reykjavíkur. Þar var Leikfélag Reykjavíkur lengi til húsa.

Húsið var reist á landfyllingu í norðausturhorni Tjarnarinnar 1896. Fyrstu tvo áratugina var rekinn húsmæðraskóli á efri hæð hússins. Leikfélag Reykjavíkur hóf starfsemi sína í Iðnó með frumsýningu á tveimur dönskum gamanleikjum 18. desember 1897 og hafði aðsetur í húsinu til ársins 1989 er það flutti í Borgarleikhúsið. Einar Pálsson trésmíðameistari teiknaði og byggði húsið. Einar sá einnig um byggingu á Búnaðarfélagshúsinu og Iðnskólanum gamla en þessi hús eru öll byggð í ný-klassískum stíl.

Húsið var um árabið helsta samkomuhús Reykjavíkur. Þar var heimastjórn fagnað 1. febrúar 1904, sýning á lifandi myndum hófst þar árið 1903 og í húsinu var haldin veisla þegar Kristján 10. Danakonungur kom til Íslands árið 1921. Á fjórða og fimmta áratug tuttugustu aldar voru þar vinsælar revíusýningar. Salurinn rúmaði á fyrstu árunum 256 manns í sæti og voru tveir fremstu bekkirnir ætlaðir börnum og nefndir barnabekkir.

Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur átti húsið til 1918 og seldi það þá dönskum bakarameistara, Frantz Håkansson að nafni. Hann rak veitingasölu í Iðnó til 1929 en þá keypti Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna húsið. Árið 1940 seldi Fulltrúaráðið húsið aftur hlutafélaginu Alþýðuhúsi Reykjavíkur. Sú sala var tilkomin vegna klofnings Alþýðuflokksins og mun hafa verið gjörningur til að hindra að húsið lenti í höndum pólítískra andstæðinga. Það urðu málaferli út af sölunni á Iðnó en Hæstiréttur dæmdi að hún skyldi standa óhögguð.

Iðnó endurgert og glerskáli byggður og rifinn

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Leikfélagið flutti úr Iðnó 1989 var allt óráðið um framtíð hússins. Alþýðuleikhúsið setti þar upp tvær leiksýningar, skömmu áður en það leið undir lok. Á sérstökum hátíðarfundi við vígslu Ráðhúss Reykjavíkur 1992 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að kaupa Iðnó í félagi við nokkra aðila og gera húsið upp. Viðbyggingar frá 1930 og sjöunda áratugnum voru fjarlægðar og í staðinn var settur glerskáli með dökku gleri. Hann þótti ekki fara vel við húsið og var hann fjarlægður. Í maí 1998 tóku Leikfélag Íslands og Iðnó við Tjörnina við lyklavöldum. Frá 2001-2017 hafði Iðnó ehf undir forystu Margrétar Rósu Einarsdóttur umsjón með rekstri hússins.

Rekstur Iðnó lá niðri í Covid-19-faraldrinum en haustið 2021 tók Guðfinnur Karlsson athafnamaður við rekstrinum og lagði áherslu á veitingar og viðburði. [1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Iðnó verður hús fólksins Vísir sótt 4/10 2021

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.