Alþýðuleikhúsið
Alþýðuleikhúsið var íslenskur leikhópur sem skilgreindi sig sem „gagnrýnið, framsækið leikhús“, en þau vildu fjalla um borgaralegan samtíðarveruleikann á listrænan hátt og vekja umræðu um þjóðfélagsmál[1]. Þau vöktu þó ekki síður athygli fyrir óvenju leikræna framsetningu, kröftuga og agaða stílfærslu, en félagslegan boðskap.[2]
Alþýðuleikhúsið stofnað
[breyta | breyta frumkóða]Alþýðuleikhúsið var stofnað á Akureyri 4. júlí 1975. Leikararnir Þórhildur Þorleifsdóttir, Arnar Jónsson og Þráinn Karlsson höfðu sagt upp stöðum sínum við Leikhúsið á Akureyri og voru kjarninn í þeim hóp sem stóð að stofnun leikhússins, en einnig má nefna Þráinn Bertelsson, Böðvar Guðmundsson, Kristínu Á Ólafsdóttur og Jón Hlöðver Áskelsson. Markmið leikhússins var að flytja leiklistarunnendum um allt land með einhverjum hætti efni sem vekti þau til umhugsunar og hvetja til umræðu um þjóðfélagsmál.[3] Skipulag leikhússins var nýstárlegt og var grunnhugmyndin sú að sjálfstæðir hópar gætu myndast innan þess, eftir áhugamálum félaganna, og sótt fjármagn í sameiginlegan sjóð. Ákvarðanir voru teknar á aðalfundum og varð stjórn að hlíta ákvörðunum þeirra.
Starfsemi
[breyta | breyta frumkóða]Alþýðuleikhúsið frumsýndi fyrstu sýningu sína, Krummagull eftir Böðvar Guðmundsson á Neskaupstað 28. mars 1976. Síðan var lagt af stað í leikför um landið og sýnt alls 62 sinnum á 44 stöðum. Leikritið var tekið upp fyrir sjónvarp í Dramatiska Institutet í Stokkhólmi, þar sem einn af stofnendum leikhússins, Þráinn Bertelsson, var við nám í kvikmyndaleikstjórn. Haustið 1976 var Skollaleikur Böðvars Guðmundssonar frumsýndur á Borgarfirði eystra og síðan á ýmsum stöðum á landinu. Haustið 1977 var farið með hann í leikför til Skandinavíu. Alls urðu sýningar á leiknum um hundrað og var hann síðast tekinn upp í sjónvarpi vorið 1978. Leikstjóri beggja sýninganna var Þórhildur Þorleifsdóttir.
Fyrstu árin var mest sýnt í Lindarbæ, en árið 1981 fékk leikhúsið inni í Hafnarbíói, sem stóð neðst við Barónsstíg, en þau sýndu einnig á Kjarvalsstöðum, í Þýska bókasafninu, Ásmundarsal, Hlaðvarpanum, Gamla bíói, Iðnó, Tjarnarbíói, Hafnarhúsinu og víðar.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Stéttabaráttan (nóvember 1975). „Alþýðuleikhúsið viðtal við Böðvar Guðmundsson“. Stéttabaráttan. Sótt apríl 2021.
- ↑ Leikminjasafn Íslands (mars 2020). „Alþýðuleikhúsið stofnað“. Leikminjasafn Íslands. Sótt apríl 2021.
- ↑ Ólafur Jónsson (nóvember 1976). „Af hverju ekki séra Jón“. Dagblaðið. Sótt apríl 2021.