Gröf í Öræfum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gröf í Öræfum er nafn á býli sem lagðist í eyði af völdum eldsumbrota í Öræfajökli 1362 sem þá hét Knappafellsjökull. Gröf í Öræfum er skammt norðan við bæinn Hof á milli Skeiðarársands og Breiðamerkursands.

Elsta heimild um gangabæ[breyta | breyta frumkóða]

Elstu íveruhús á Íslandi eru skálar með sveigðum langveggjum og eldstæði á miðju gólfi. Fljótlega var farið að bæta viðbyggingum við sjálfan aðalskálann en bæjarrústin á Gröf er sú elsta dæmið um gangabæ. Í gangabæ er inngangurinn í miðju og skiptir bænum í tvennt og er gengið í öll aðalherbergi hússin úr göngunum. Eldstæðið er ekki lengur í skálanum eins og áður og í Gröf voru eldhús og skemma við sitthvorn enda bæjarins. Talið hefur verið að kólnandi veðurfar og skortur á eldiviði eigi þátt í þessari þróun.[1] Geymt 30 september 2011 í Wayback Machine

Blómleg sveit í Litlahéraði[breyta | breyta frumkóða]

Öræfasveit kallaðist áður Litlahérað til aðgreiningar frá Fljótsdalshéraði en af heimamönnum var sveitin einfaldlega nefnd Hérað. Svo virðist sem byggð í Litlahéraði hafi verið blómleg. Samkvæmt máldögum voru guðshús þar sautján: tvær hálfkirkjur, ellefu bænhús og fjórar sóknarkirkjur ásamt öðrum bæjum og er fjöldi bæja áætlaður að minnsta kosti 30.[2]

Ásamt hefðbundnum bústörfum sinntu sveitungar í Litlahéraði kornrækt, einkum ræktun á byggi. Við uppgröft sem þar fór fram 19551957 var grafið upp sofnhús (hús þar sem korn var þurrkað í sérstökum ofni, sofni) og fannst þar einnig kolað bygg. Smæð byggkjarnanna benti til lélegra vaxtarskilyrða. Kristján Eldjárn gerði rannsóknir á sofnhúsinu 1957.

Eldsumbrotin 1362[breyta | breyta frumkóða]

Öræfajökulsgosið 1362 var geysiöflugt gjóskugos og því fylgdi hrikalegt jökulhlaup sem lagði ekki einungis Gröf í Öræfum í eyði, heldur urðu að minnsta kosti 20 bæir hamförunum að bráð þannig að þeir byggðust ekki aftur. Sumir sópuðust burtu í jökulhlaupinu og aðrir urðu undir aur ásamt því að vikur færði mörg bæjarstæði í kaf enda eru gjóskulögin eftir þetta hamfaragos 20 – 40 cm á þykkt. Rannsóknir á þessu svæði hafa gefið vísbendingar um ákveðna tegund af gjóskuflóði eða svokallað gusthlaup. Gusthlaupið gæti hafa grandað bæjum í Litlahéraði. Gusthlaup fara með gríðarlegum hraða, allt að 300 km á klukkustund. Þau draga til sín allt súrefni og það ásamt miklum hita sem er í þeim er grandar öllu lífi sem fyrir verður. Forrannsóknir benda til þess að býlið Bær sem ekki er langt frá Gröf gæti hafa orðið fyrir gusthlaupi en fleiri rannsókna er þörf. [3]

Elstu heimildir um eldsumbrotin 1362[breyta | breyta frumkóða]

Stuttu eftir gosið er ritað í Skálholtsannál: „Eldar uppi í þrem stöðum fyrir sunnan og hélst það frá fardögum til hausts með svo miklum býsnum, að eyddi allt Litlahérað og mikið af Hornafirði og Lónshverfi, svo að eyddi fimm þingmannaleiðir. Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó, þar sem áður var þrítugt djúp, með grjótfalli, aur og saur, að þar urðu síðan sléttir sandar. Tók og af tvær kirkjusóknir með öllu, að Hofi og Rauðalæk. Sandurinn tók í miðjan legg á sléttu, en rak saman í skafla, svo að varla sá húsin.“[4] Fyrsta heimild um að aftur sé komið fólk í Öræfi, er máldagi Hofskirkju frá 1387 sem talinn er ritaður af Mikael Skálholtsbiskup eða skrifurum hans.

Fornleifarannsóknir og uppgreftir á 20. öld[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 1954 ætluðu bændur á Hofi að gera kálgarð og tóku þá eftir gamalli tóft er þeir tóku að jafna út garðlandið. Þjóðminjaverði var tilkynnt um fundinn og í kjölfarið var hafist handa við rannsóknir og uppgröft 3. júní 1955. Gísli Gestsson safnvörður Þjóðminjasafnsins gróf upp rústir Grafar og honum til fulltingis var Sigurður Þórarinsson sem frægur var fyrir rannsóknir sínar á gjóskulögum og Kristján Eldjárn þjóðminjavörður. Uppgreftinum lauk 1957. Forngripir úr uppgreftrinum voru 75 talsins.[5] Má nefna sem dæmi:

Að sumu leyti er hægt að líkja atburðum 1362 við atburðina í Pompeii árið 79, þó ekki sé hægt að fullyrða hvort menn og dýr hafi farist í hamförunum á Litlahéraði. Í seinni tíð hafa verið gerðar grunnrannsóknir til að fá enn meiri vitneskju um þetta mjög svo spennandi svæði sem án efa geymir vitneskju um forna tíma.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]