Breiðamerkursandur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Breiðamerkursandur er stórt svæði á milli Suðursveitar og Öræfa, þakið grófum sandi, sem jöklar hafa rutt fram ásamt með jökulám á svæðinu. Á milli jökuls og strandar var aðeins örmjótt haft þegar Breiðamerkurjökull gekk lengst fram um og upp úr 1800. Á sandinum eru miklir jökulruðningar, sem sýna hversu langt jökull náði. Jökulsporðurinn gróf sig niður í gljúpan jarðveginn og skildi eftir sig djúpt og víðáttumikið lón, Jökulsárlón, sem talið er vera dýpsta stöðuvatn Íslands, 248 metrar. Úr lóninu rennur Jökulsá á Breiðamerkursandi, fyrrum mikill farartálmi og hættuleg yfirferðar. Hún var brúuð árið 1967 en áður var ferja á ánni.

Á Breiðamerkursandi eru aðalvarpstöðvar skúms á Íslandi. Breiðá, bær Kára Sölmundarsonar og Hildigunnar Starkaðardóttur, sem frá er greint í Njálu, stóð vestarlega á sandinum. Þegar jökullinn gekk fram lagðist hann yfir bæjarstæðið og jörðina alla og er nú ekki vitað með fullri vissu hvar bærinn stóð.

Hluti Breiðamerkursands varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði árið 2017.