Vinnuhjúaskildagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Fardagar)

Vinnuhjúaskildagi, einnig kallaður hjúaskildagi, hjúafardagi eða hjúadagur var sá dagur ársins sem ráðning eða árvist vinnufólks miðaðist við frá fornu fari. Hann var upphaflega 3. maí, á krossmessu á vor, en þegar tímatalsbreytingin var gerð árið 1700 og teknir voru 11 dagar úr árinu, svo að 28. nóvember kom í stað 17. nóvember, þá færðist vinnuhjúaskildaginn frá 3. til 14. maí, annars hefðu húsbændur átt inni 11 daga hjá vinnuhjúum. Tilflutningurinn virðist líka hafa hentað betur sem vistaskiptadagur, þar sem sjósókn og fiskverkun voru farin að skipta æ meira máli á þessum tíma og 14. maí passaði betur upp á vertíðir.

Sú kvöð var að allt jarðnæðislaust fólk skyldi vera í vinnumennsku. Ef karl og kona réðu ekki eigin búi urðu þau að vera vinnuhjú á heimili bónda og eiga þar grið. Venjan var sú að fólk réði sig í ársvist í senn og mátti eingöngu skipta um vinnuveitanda á vinnuhjúaskildaga samkvæmt lögum um vistarband. Við því voru viðurlög ef því var ekki fylgt. Lausamennska og flakk var talið lögbrot en einstaka efnaðir einstaklingar úr hópi vinnufólks gátu keypt sér lausamennskubréf sem þýddi það að það réði sér sjálft og þurfti ekki að vera fastráðið á einhverjum bæ.

Elstu heimildir þess að vinnuhjúaskildagi væri miðaður við krossmessu á vor, eða 3. maí, er í samþykkt um vinnufólk og fiskimenn á alþingi frá því um 1400. Þar segir meðal annars: „Skulu allir vinnumenn vera komnir til sumarvistar sinnar að krossmessu forfallalaust, ellegar sé þeir sóttir að ósekju.“

Fardagar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir þann tíma miðuðust vistaskipti vinnandi fólks við fardaga, eða þá daga sem fólk skildi flytjast búferlum. En fardagar voru frá fimmtudagi í sjöundu viku sumars, frá 31. maí til 6. júní í nýja stíl og lauk með sunnudegi. Fardagar voru ennfremur viðmiðun í ýmsum viðskiptum og réttarathöfnum, einkum innheimtu, og var fardagaárið almennt reikningsár í landbúnaði fram á 20.öld. Eins var með vinnuhjúaskildag eftir að hann var fluttur af fardögum yfir á krossmessu að mikið var við hann miðað í ýmsum viðskiptum og almennum samningum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]