Fara í innihald

Klængur Þorsteinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Klængur Þorsteinsson (110228. febrúar 1176) var kjörinn til biskups í Skálholti eftir að fréttist að Hallur Teitsson, sem kjörinn hafði verið biskup eftir að Magnús Einarsson fórst í eldsvoða, hefði dáið í Hollandi 1150.

Klængur var sonur Þorsteins Arnórssonar og Halldóru Eyjólfsdóttur og var hann afkomandi Síðu-Halls og Einars Þveræings í föðurætt en móðir hans var frá Reykhólum. Hann var ungur settur til náms í Hólaskóla og mun hafa verið á Hólum eftir það, allt þar til hann varð biskup, eða í hátt á fjórða áratug, og verið þar dómkirkjuprestur og kennari. Hann var vígður biskup í Skálholti af Áskeli erkibiskupi í Lundi 6. apríl 1152.

Klængur var lærdómsmaður og skáld gott. Hann er þekktastur fyrir kirkjuna sem hann lét reisa í Skálholti þegar eftir biskupsvígslu sína. Var það timburkirkja og viðurinn til hennar var fluttur frá Noregi á tveimur skipum. Kirkjan þótti vandaðasta hús á Íslandi á sinni tíð en hún brann 1309, þegar eldingu laust niður í hana. Klængur kom líka á fót Þykkvabæjarklaustri og Flateyjarklaustri (síðar Helgafellsklaustri). Hann var vinsæll biskup og virtur. Hann valdi sjálfur eftirmann sinn, Þorlák Þórhallsson.

Klængur er sagður hafa verið meinlætamaður sem oft gekk berfættur í snjóum og frostum en virðist þó hafa verið lífsnautnamaður einnig og hélt miklar og dýrar veislur í Skálholti, enda var hann vinmargur, og er sagt að til kirkjuvígslunnar hafi verið boðið 840 manns. Í sögu Jóns helga biskups er þessi frásögn:

Þat er sagt að hinn heilagi Jón biskup kom at einn tíma er einn klerkur, er Klængur hét og var Þorsteinsson, er síðan varð biskup í Skálaholti, las versabók þá er heitir Ovidius de arte. En í þeirri bók talar meistari Ovidius um kvenna ástir og kennir með hverjum hætti menn skulu þær gilja og nálgast þeirra vilja. Sem hinn sæli Johannes sá og undir stóð hvað hann las, fyrirbauð hann honum að heyra þess háttar bók og sagði að mannsins breyskleg náttúra væri nógu framfús til munúðlífis og holdlegrar ástar, þó að maður tendraði eigi sinn hug upp með saurligum og syndsamlegum diktum.

Barnsmóðir Klængs var frænka hans, Yngvildur Þorgilsdóttir, dóttir Þorgils Oddasonar á Staðarhóli í Saurbæ. Hún hafði verið látin giftast gegn vilja sínum en fór frá manni sínum og átti með Klængi dótturina Jóru (d. 1196), fyrri konu Þorvaldar Gissurarsonar í Hruna. Ekki er víst hvort hún fæddist áður en Klængur varð biskup eða eftir að hann hlaut vígslu. Einnig átti Klængur soninn Runólf.

  • „Klængur biskup og dómkirkjan í Skálholti. Lesbók Morgunblaðsins, 8. apríl 1995“.


Fyrirrennari:
Magnús Einarsson
Skálholtsbiskup
(11521176)
Eftirmaður:
Þorlákur helgi Þórhallsson


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.