Ari Þorgilsson sterki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ari sterki Þorgilsson (d. 18. júní 1188) var íslenskur goðorðsmaður á 12. öld. Hann bjó á Stað á Ölduhrygg á Snæfellsnesi og var sonur Þorgils prests á stað, sonar Ara fróða. Ari átti hálft Þórsnesingagoðorð. Hann var kvæntur Kolfinnu, dóttur Gissurar Hallssonar, og átti með henni eina dóttur, en eftir lát Hvamm-Sturlu 1183 tók hann saman við Guðnýju Böðvarsdóttur ekkju hans og gerðust með þeim kærleikar miklir, eins og segir í Sturlungu. Þau Guðný fóru síðar til Noregs en áður gekk Þórður sonur Guðnýjar að eiga Helgu dóttur Ara og fékk forræði yfir búi hans og goðorði. Ari dó í Noregi; hann var að bera langskipsrá með öðrum mönnum en þeir hlupu undan af því að þeir vissu að hann var sterkari en aðrir menn en hann sligaðist undan ránni og beið bana. Guðný kom aftur heim eftir lát hans og bjó lengi í Hvammi.